30.01.1928
Efri deild: 9. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

7. mál, skógar, kjarr og lyng

Frsm. (Einar Árnason):

Jeg get verið fáorður um brtt. hv. 3. landsk. (JÞ), því auðvitað ber okkur þar ekki neitt sjerstaklega mikið á milli En þó sje jeg ekki, að þessar brtt. hafi mikla þýðingu, því vitanlega yrði þessi kostnaður greiddur af því fje, sem heimilað er til skógræktar í fjárlögunum. Og þótt forstjórn þessara mála væri lögð undir Búnaðarfjelag Íslands, þá mundi sama regla haldast um það, sem áður hefði gilt.

Hv. 3. landsk. hafði ýmislegt við frv. þetta að athuga. Get jeg verið honum sammála um sumt af því, ef hægt væri að koma því í framkvæmd. En því er ekki að leyna, að ýmsir örðugleikar geta verið á því og við margt að stríða. Reynsla og þekking er enn lítil á þessu máli hjá almenningi, og skógræktarstjórinn og skógarverðir hafa oft orðið að láta undan kröfum þeirra, er skógana áttu. Girðingar til friðunar hafa venjulega orðið að gerast á því landi, sem nota þurfti til beitar, og hefir þá orðið að taka tillit til þeirra manna, er höfðu afnotarjett landsins. Jeg tók fram áður, að nefndin leit líkum augum á þetta atriði sem hv. 3. landsk., en vantaði sjerþekkingu til að segja það rangt vera, sem skógræktarstjórinn hjelt fram í málinu, og treysti sjer ekki til að ganga móti hans vilja í þessu efni. — Ef land er tekið til nýræktar, þá er nú gert ráð fyrir því í frv., að það sje girt og varið.

Um framlög ríkissjóðs til girðinganna, að þau sjeu fastákveðin, skal jeg ekki deila. Það er sumt, sem mælir með því, en sumt á móti. Sje t. d. miðað við sandgræðsluna, sem er styrkt að 2/3 af ríkisfje, þá verður að gæta þess, að þar er um það að ræða að gera blásið land verðmætt. En um skógræktina er það svo, að þar er einatt verið að takmarka afnot manna af landi. Um verkstjórnina er það að segja, að ákvæðið um, að landið leggi til verkstjórann, er aðeins smáatriði. Því má svo koma fyrir í framkvæmdinni, sem haganlegast þykir. En um hitt, að ríkissjóður greiði vissan hlutakostnaðarins, þá er eigi víst, hve mikill hagur er að því fyrir hann, því mat er ekki ávalt sem ábyggilegast, svo það gæti komið fyrir, að styrkurinn yrði í sumum tilfellum óþarflega mikill, en í öðrum máske of lítill.