15.02.1928
Neðri deild: 23. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3746 í B-deild Alþingistíðinda. (3455)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Flm. (Magnús Torfason):

Út af ummælum hv. 1. þm. Reykv, verð jeg að svar a honum nokkrum orðum. Jeg bjóst við, að hv. þm. mundi tala af heldur meiri hlýju til þessa máls en hann gerði. Jeg hefði haldið, að honum mundi þykja sjerstaklega vænt um það, að þessi kirkja fengi sjerstakan prest og grætt yrði landið í kringum hana. Jeg get ekki sagt um hug kirkjunnar í því efni og býst ekki við, að hann muni geta það, enda er það líklega erfitt. En jeg veit ekki nema það kunni að vera til rök fyrir því óbeint, að kirkjan óski þess, að landið verði grætt. Að minsta kosti er það víst, að öllum þeim mönnum, sem stutt hafa þetta mál, hefir farnast vel. Og það er alveg eins og kirkjan hafi lagt blessun sína yfir þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til græðslu í hinu forna landi hennar. Það hefir verið haldinn safnaðarfundur um þetta mál, og var þar samþykt einum rómi að styðja það; er það mjög mikið áhugamál allra sóknarmanna, og alveg víst, að þar er ekki einn maður á móti. Og jeg held, að vilji sóknarmanna geti ekki komið greinilegar fram en á þeim safnaðarfundi.

Hvað það atriði snertir, hver væri eigandi landsins, þá skal jeg upplýsa það, að jeg hefi spurt herra biskupinn um það, og hann svarað, að ríkið eigi það; svo að þar er við sjálfa okkur að eiga.

Þá var hv. 1. þm. Reykv. hræddur um, að ef teknar væru 10 þús. kr. úr sjóði kirkjunnar, þá mundi langur tími líða þangað til kirkjan gæti fengið sjerstakan prest. Jeg er nú ekki viss um það. Samskotin eru altaf að aukast. Útlendingum, sem heita á Strandarkirkju, er altaf að fjölga. Hún er að verða fræg erlendis eins og hjer, eins og sjá hefir mátt af blöðunum. Svo að það er ekki víst, að það líði mörg ár til þess að kirkjan geti fengið prest, ef hún fengi löndin aftur. Það þarf ekki vexti af stærri upphæð en 50 þús. kr. til þess að svo geti orðið.

Þá þótti hv. þm. óviðkunnanlegt, að þessi kirkja væri tekin undan reglunum um alm. kirkjusjóð og sjerstakar reglur settar um sjóð hennar. Þessu er því að svara, að þessi kirkja hefir nokkra sjerstöðu meðal kirkna landsins. Mjer vitanlega hefir ekki runnið annað eins fje til neinnar kirkju á landinu eins og til Strandarkirkju. Og engin önnur kirkja á landinu hefir von um að geta kostað prest sinn af eigin ramleik.

Hv. 1. þm. Reykv. þótti eigi viðeigandi að setja reglur um þetta. En um það er ekkert tekið fram, hversu víðtækar þessar reglur eigi að vera. Það getur vel verið, að biskupi og dómsmrh. komi saman um að láta alt vera eins og það er fyrst um sinn. Getur vel verið, að settar verði nýjar reglur, þegar til framkvæmda kemur, Frv. fer einungis fram á heimild.

Það er ekkert undur, þó að söfnuður, sem ekki telur nema 100 menn, hafi ekki mönnum á að skipa til að stýra öllum sínum kirkjufjám, þegar þau eru eins mikil og hjer. En mörg eru dæmi þess, að fje týnist og hefir týnst, af því að ekki var fylgt nógu ströngum reglum um stjórn þess.

Hv. þm. sagði, að Strandarkirkja mundi borga fyrir sig, ef ætti að beita hana órjettlæti. En jeg er viss um, að hún mun borga þeim mönnum vel, sem þetta mál styðja. Og því til stuðnings skal jeg geta þess, að þegar jeg var á ferðinni í vetur til þess að undirbúa þá till., sem nú er fram komin, fjekk jeg ávalt besta veður, og var þetta þó í miðjum jólafösturosunum fyrir jólin.