15.02.1928
Neðri deild: 23. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3750 í B-deild Alþingistíðinda. (3457)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Flm. (Magnús Torfason):

Jeg veit ekki betur en að kirkjueignir hafi verið lagðar undir ríkið með einföldum lögum. Og yfirleitt hafa söfnuðirnir ekki meira vald yfir kirkjufjám en að hægt sje að taka það af þeim með lögum. Og síst er nokkuð því til fyrirstöðu, þegar það er áhugamál safnaðarmanna sjálfra.

Um kirkjuna á Strönd er það að segja, að henni hefir verið prýðilega vel haldið við. Getur hún sjálfsagt staðið 20–30 ár ennþá. Það var vakið máls á því fyrir nokkrum árum, að stöpullinn væri ljelegur. Samt lak hann ekki, og það er þó einn aðalkostur. Það var þó talað um að byggja hann upp, en safnaðarmenn vildu það ekki. Þeir vildu ekki byggja neitt, fyr en hægt yrði að byggja vandlega.

Um sandgræðsluna vil jeg fyrst geta þess í sambandi við það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að stiftamtmaður, prófastur og prestur hefðu nærri mist líf og æru, að það var einmitt af því, að þeir ætluðu að flytja kirkjuna burt. Þeir ætluðu að taka hana upp af sandinum, þar sem hún stendur, og færa hana til. En með frv. er einmitt verið að hlynna að því, að hún geti verið kyr á sandinum. Til þess þarf að græða upp sandinn. Og það þarf að hlaða sjógarð til þess að verja landið. Söfnuðurinn vill með engu móti, að hún sje flutt burt, enda hefir hún verið heilladrjúg þar, sem hún nú er. Fyrir framan kirkjuna er innsigling inn úr Skerjunum. Og hún er víst sjálf eitt af innsiglingarmerkjunum. Og af því m. a. má ekki færa hana til.

Sú ráðstöfun, sem frv. fer fram á, verður ekki gerð án laga. Jeg hefi nú verið að baxa við það í 2 ár, að það gæti orðið, en árangurslaust. Og menn hafa ekki viljað, að ríkið gerði þetta á eiginn kostnað. Það er heldur ekki meira, þó að Strandarkirkja leggi fram fje til að græða upp land, heldur en að kirkjur kaupi land.