09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3751 í B-deild Alþingistíðinda. (3459)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg hefi eiginlega ósköp lítið um þetta mál að segja. Jeg vænti þess, að hv. deild hafi kynt sjer efni frv., en það er aðalefni þess að heimila notkun á dálitlum hluta af fje kirkjunnar til uppgræðslu á landinu. Á þetta felst landbn., en vill, að Strandarland alt verði eign kirkjunnar undir eins og hún leggur fram fje til að græða upp landið. Nefndin sjer ekki ástæðu til, að kirkjan aðeins fái það land, sem hún græðir upp, heldur fái hún alt land jarðarinnar til eignar og umráða, og hefir leyft sjer að bera fram brtt. í þessu skyni, sem er á þskj. 405. Önnur brtt. er aðeins smávægileg, um það, hvenær lögin skuli öðlast gildi.

Jeg hygg, að það geti ekki verið neinum efa undirorpið, að ekki verði betur varið fje kirkjunnar heldur en til að græða upp þá eyðimörk umhverfis kirkjuna, sem áður var blómlegt land, en er nú sandauðn, og sem fróðum mönnum kemur saman um, að lítið meira þurfi að gera við en að friða, því að þá muni landið gróa upp. Jeg held, að það sje alveg sjálfsagt, að ekki verði betur varið fjenu en til að gera þarna grösugan reit, sem áður var sandauðn.

Jeg vona, að hv. deild taki málinu vel og leyfi því að ganga fram hindrunarlaust.