09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3752 í B-deild Alþingistíðinda. (3460)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Einar Jónsson:

Það hefir að vísu ekki verið mikið talað um þetta mál í landbn., og er með orðum hv. frsm. að mestu leyti rjett frá skýrt. En jeg er ekki samþykkur meðnefndarmönnum mínum um það, að þetta frv., eins og það liggur nú fyrir, hafi nokkurn rjett til að ganga fram, og sjerstaklega er jeg á móti því, að hjer er verið að veita heimild til að stofna nýtt prestakall. Jeg get ekki sjeð, að það sje þörf á því, þegar ríkið einmitt gerir mikið til að sameina kirkjusóknir og fækka prestum. En hvað frv. sjálft snertir, þá er jeg samþykkur því, að sú sandgræðsluheimild, sem þar er talað um, sje mjög nauðsynleg, en jeg skal ekki fullyrða neitt um, hvort sú leið sje rjett, sem hjer er farin, með að verja fje kirkjunnar til þess. Mjer fróðari menn hafa efast um, að þingið hefði vald til að ákveða, að fje kirkjunnar skuli verja. þannig, en þegar það er tilskilið, að land Strandar skuli falla til kirkjunnar, þá kemur að vísu nokkuð í móti.

Hvernig sem jeg nú hugsa um þetta mál, þá finst mjer, að hjer sje nokkuð hratt á stað farið, og kannske ekki sem hyggilegast. Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja, hvernig orðum er hagað í greinargerð frv., þótt mjer þyki tilgerðarlega talað, svo sem „gróið upp árförum“, „ófa fje“ og fleira þessu líkt; en þar sem það er sá hinn fróði íslenskumaður, sem þessum orðum hefir fyrir komið, þá býst jeg við, að það hafi ekki mikið að þýða, þótt jeg geri einhverjar aths. við þau.

Jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara. Það er af því, að jeg er á móti 4. gr. frv. Jeg efast um, að það sje rjett, að alt það land, sem áður heyrði Strandarkirkju til, verði hennar eign, þótt sandgirðing sje sett um það, en það er náttúrlega rjett að girða landið, og ef það er með fje kirkjunnar gert, þá er máske rjettara, að hún eignist það land alt, sem er innan þeirrar girðingar.