09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3775 í B-deild Alþingistíðinda. (3466)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Magnús Torfason:

Jeg vil byrja með að leyfa mjer að þakka háttv. landbn. fyrir góðar undirtektir þessa máls, eins og hennar var von og vísa.

Annars hafði jeg ekki hugsað mjer að taka til máls að þessu sinni, en vegna þess að bornar hafa verið fram svo rakalausar staðhæfingar í sambandi við þetta mál, neyddist jeg til að kveðja mjer hljóðs.

Jeg var ekki fyr kominn til sýslunnar, en strendur byrjuðu að tala við mig um þetta sitt stóra mál. Jeg hefi aldrei stigið eitt einasta fótmál í þessu máli nema að þeirra vilja og fyrirlagi. Hitt er satt, að jeg hefi borið áður fram óskir um, að Strendum væri hjálpað í þessu skyni, en enga áheyrn fengið. Á fundinn í vetur kom jeg eftir umtali, en kallaði hann ekki saman sjálfur.

Til skýringar skal jeg geta þess, að Búnaðarfjelag Íslands hefir látið þá Sigurð Sigurðsson búnaðarmálastjóra og Gunnlaug sandgræðsluvörð Kristmundsson rannsaka sandsvæðið í Selvogi, og minnist jeg ekki að hafa sjeð fastari röksemdir færðar fyrir nauðsyn nokkurs máls en finna má í hinni glöggu og ítarlegu skýrslu, er menn þessir hafa birt um málið.

Þá skal jeg svara hv. 1. þm. Skagf. því, að mjer vitanlega hafa engar af jörðum Strandarkirkju verið seldar undan henni. Jeg hefi látið spyrja um þetta hjá Skrifstofustjóranum í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og fengið það svar, að jarðir kirkjunnar hefðu um langt skeið verið þrjár, og væru það enn, en það er Stakkavík með hjáleigunni Hlíð og Vogshús.

Þá vil jeg benda á, að það er alls ekki meiningin að leita neitt til kirkjusjóðs um fjárframlög til sandgræðslu í Strandarlandi, heldur verja til hennar eingöngu af tekjum kirkjunnar, og mín er spá, að þær muni lengi hrökkva til. Nú hefir það einmitt atvikast þannig, að síðan þetta sandgræðslumál kom á dagskrá hafa áheitin á Strandarkirkju aldrei verið meiri. Slíkar eru vinsældir kirkjunnar, og munu þær vart fara þverrandi.

Að það standi kirkjunni fyrir þrifum að verja nokkru af sjóði hennar og árlegum tekjum til sandgræðslu, er hinn mesti misskilningur. Kirkjan sjálf er í ágætu standi, og þeir, sem hafa skoðað hana, fullyrða, að hún geti staðið enn 20–30 ár, ef henni er vel við haldið.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að engin tilmæli hefðu komið fram um það frá Strandarkirkju að græða upp sandinn. Þetta er að vísu rjett, sem væntanlega stafar af því, að kirkjan er mállaus. Að minsta kosti lítur þm. svo á, að hjer sje um dauðan stein eða timburkumbalda að ræða. En jeg lít svo á, að með kirkjunni felist mikið líf, sem haldið hafi vörð um hana frá ómuna tíð. Og hún talar sínu máli.

Síðan frv. kom fram, og þó sjerstaklega eftir að eitt dagblaðið birti mjög óvingjarnlega grein um þetta mál, sem haft er fyrir satt, að rituð sje af einum höfuðpresti landsins, hefi jeg fundið svo mörg vináttumerki og svo mikla samúð hjá velunnendum Strandarkirkju, að jeg hefi aldrei fundið meiri eða dýpri áður.

Nú láta andófsmenn sem þeir beri fyrir brjósti hagsmuni kirkjunnar, að þeirra verði að gæta, og væri ekkert um það að segja, ef það kæmi frá vinum kirkjunnar. En þegar það kemur frá hatursmönnum kirkjunnar og sannreynt um suma þeirra, að þeir hafa horn í síðu Strandarkirkju, þá er minna mark takandi á ráðleggingum þeirra.

Þá er sagt, að jeg væri að þjappa að Strendum og vildi ráða fyrir þá. Þessu þarf jeg litlu að svara. Hvað ætti mjer svo sem að ganga til? En frjett hefi jeg, að legið hafi verið í símanum undanfarið af mönnum hjer syðra til þess að fá Strendur til að hverfa frá þeim óskum, sem fram eru bornar í frv. þessu. En það hefir ekkert stoðað; vilji Strenda í þessu máli er stöðugur.

Annars veit jeg, að hv. 1. þm. Reykv. er svo góður maður, að óneyddur er hann ekki á móti þessu máli. En hann talar ekki af sjálfum sjer: Óvinurinn er í honum og fyrir hans munn talar hann. Það, sem skilur milli mín og hans, þótt merkilegt sje, er, að hann vantar alla trú á þetta mál. Því skulum við báðir biðja: Auk þú oss trúna!