01.02.1928
Efri deild: 11. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

7. mál, skógar, kjarr og lyng

Jón Þorláksson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. við frv. þetta á þskj. 72, og get jeg verið fáorður um efni þeirra, því að það bar hjer um bil alt á góma við 2. umr. Tvær fyrri brtt. mínar, við 6. gr., ganga í þá átt, að framlag ríkissjóðs verði ekki einskorðað með lögum, eins og nú er eftir frv., þannig að ef einhversstaðar stæði svo á, að ástæða þætti til, að það yrði minna, þá gæti það orðið svo án þess að lögin væru brotin. En jeg geri ráð fyrir, að þó að brtt. mínar yrðu samþ., þá mundi venjulega reglan verða sú sama og gert er ráð fyrir í frv.

Þá er 3. brtt. mín, við 7. gr., og hefi jeg leyft mjer að orða greinina upp. Eftir 7. gr. frv. eins og hún er nú er ekki nægilega skýr munur gerður á því, að beit má aldrei leyfa í landi, sem girt hefir verið til þess að koma þar upp nýjum skógargróðri, en hinsvegar getur verið meinlaust að leyfa beit í skóglendi, þó girt sje. Með ákvæðum frv. er þetta lagt alveg leiðbeiningarlaust á vald skógræktarstjórans.

Sem sagt, jeg vona, að þetta verði ekki skoðað sem nein efnisbreyting, heldur sem nauðsynleg skýring og leiðbeining fyrir þá, sem eiga að hafa framkvæmd laganna með höndum.