12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3785 í B-deild Alþingistíðinda. (3474)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Mjer fer nú að þykja þetta karp hálfleiðinlegt, ekki síst þar sem ekki eitt einasta nýtt atriði hefir komið fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv. Það er óþarfi fyrir hann að bera á móti því, að hann hafi sagt, að hann hefði ekki trú á uppgræðslu landsins. Svo margir heyrðu til hans við 2. umr., og ræðu hans var ekki hægt að skilja á annan hátt. En úr því að hann vill nú draga yfir fyrri ummæli sín, er ekki ástæða til annars en að gleðjast yfir því, því að það sýnir, að hann er farinn að sjá villu síns vegar og er kominn nær okkur en við 2. umr.

Hann var að tala um, að það væri regla og nauðsyn að ávaxta opinbera sjóði á tryggan hátt. Var hann því enn að gefa í skyn, að sandgræðslan kynni að mishepnast, þrátt fyrir afslátt þann, er hann hafði rjett áður gefið á fyrri ummælum sínum. Eins og jeg hefi þegar sagt, er það með öllu víst, að sandgræðslan hepnast, einkum ef sjóvarnargarður verður bygður. En nú er það hið upphaflega ætlunarverk sjóðsins að halda kirkjunni við. Getur það þá talist að ávaxta sjóðinn í áhættulausum fyrirtækjum, ef ekkert má gera til að tryggja, að kirkjan geti staðið framvegis sakir landbrots og sandfoks? Hjer er um fullkomið ósamræmi að ræða hjá hv. þm. Það þarf einmitt að græða upp landið til að tryggja tilveru kirkjunnar. Og því ætti hv. þm. fremur að ganga í lið með okkur en að spyrna á móti öllum tilraunum okkar í þessa átt.

Þá segist hv. þm. ekki hafa á móti því, að kirkjan eignist landið, og sje ánægður með, að svo verði, ef 1. brtt. sín verði samþ. Samt gengur önnur brtt., sem hann flytur, út á það, að kirkjan eignist ekki landið. Hvaða samræmi er nú í þessu? Brtt. hv. þm. stangast beinlínis eins og hrútar. Þegar hann spyr, hvaða ástæða sje fyrir landið að gefa kirkjunni land, ef mikill gróði verði að uppgræðslu þess, þá er hann að vísu í meira samræmi við sjálfan sig. En hví er hann ávalt að spyrna á móti því, að kirkjan eignist nokkurn skika? Ríkið leggur að sjálfsögðu fram 2/3 kostnaðar við sandgræðsluna hjer eins að annarsstaðar. Því betra sem landið er, því meiri vinningur er fyrir kirkjuna að eignast það.

Ef hv. þm. hefði kynt sjer, hversu miklar sandauðnir er búið að græða upp á ýmsum stöðum, þá myndi hann ekki efast um, að sandgræðslan í Selvogi megi takast. Þar sem góð skilyrði eru fyrir hendi, tekur hún ekki ýkja langan tíma. Eftir 5–10 ár er býsna mikill gróður kominn, ef landið er vel friðað. (MJ: Jeg hefi nú sjeð sandgræðsluna í Bolungarvík). Það er rjett, að gróði af sandgræðslu er seintekinn, ef miðað er við örstuttan tíma. En jeg hjelt, að enginn liti svo á þetta mál, að hjer væri um augnablikshagnað að ræða. Hjer er verið að vinna fyrir óbornar kynslóðir, en fyrirtækið getur verið eins arðsamt, þarft og nauðsynlegt fyrir því.

Jeg held, að þessum hv. þm. hafi farið nú eins og oftar, að hann hafi hugsað of skamt og íhugað málið of lítið. Jeg er viss um, að jafngáfaður maður og hv. þm. er hefði komist að annari niðurstöðu, ef hann hefði hugsað sig um.

Hv. þm. sagði, að ef landinu stæðihætta af sjávargangi og uppblæstri, væri skylda ríkisins að ráða bót á því. En eins og allir vita, hefir ríkið í mörg horn að líta, og eins og sýnt hefir verið fram á, er með þessu frv. farið fram á heppilegustu úrlausn málsins.

Þá er það 4. gr. Verði þetta frv. samþ., eins og jeg býst við, verður það fleira en peningar kirkjunnar einir, sem þarf að hafa umsjón með, þar sem kirkjan eignast þá land það, sem frv. ákveður. Og ef gert er ráð fyrir, að eignir kirkjunnar haldi áfram að aukast í stórum stíl, getur verið nauðsynlegt að gera sjerstakar varúðarráðstafanir um umsjón með þeim.