01.02.1928
Efri deild: 11. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

7. mál, skógar, kjarr og lyng

Jón Þorláksson:

Jeg skil það vel, að háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ) finnist óþarfi, að jeg sje að koma og umbæta verk þeirrar nefndar, sem hann er frsm. fyrir. Það er þetta, sem jeg held að sje aðalundirstaðan undir ummælum þeim, sem hann hefir haft um till. mínar. Annars er hv. þm. (EA) svo gamall og vanur löggjafarstarfinu, að hann ætti að skilja það, að fjölbreytnin er í þessu efni sem öðrum svo mikil, að það er ekki gott, að ákvæðin sjeu mjög einskorðuð. Við skulum taka til dæmis, að land, sem taka á til nýræktar, sje áður girt að nokkru leyti; þar sje til dæmis landamerkjagirðing. Þá verður ekki komist hjá því, að sú girðing, sem fyrir er, verður hluti af skógargirðingunni, og væri þá ekki annað en rjett, að framlagið úr ríkissjóði væri minna en ella. Alt annað væri rangt gagnvart hinum, sem verða að gera að öllu leyti nýja girðingu. Þegar svona tilfelli koma fyrir, hlýtur framkvæmdarstjórnin að sjá, að lögin eru illa smíðuð. Og þannig má halda lengi áfram að telja upp slík tilfelli, þar sem þessi einskorðaða regla reynist óhentug, og ef reynt verður að lifa eftir henni, verður framkvæmdin óeðlileg. Hv. þm. (EÁ) má eiga það víst, að það kemur í ljós, að það hefði verið betra að hafa orðalagið þannig, að framkvæmdarstjórnin hefði dálítið meira svigrúm án þess að þurfa að brjóta lögin.

Þriðju brtt. minni hafði hv. þm. ekkert sjerstakt á móti, en jeg verð nú að álíta, að 7. gr. væri betur orðuð eftir minni till. Annars hefi jeg ekki skilið 2. gr. svo, að í þeim reglum, sem setja á samkvæmt henni, eigi að vera frekari fyrirmæli um rjett skógræktarstjórans til að veita leyfið. En jeg skal játa, að það má lappa upp á missmíði greinarinnar, með því að bæta því inn í 7. gr., ef brtt. mín verður feld.

Svo skal jeg geta þess, þar sem hv. þm. talaði um, að brtt. mínum væri of seint útbýtt, að frv. endurprentað kom ekki fyr en svo seint, að jeg skrifaði þá þegar brtt. mínar og gat ekki skilað þeim fyr en þetta.