28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3800 í B-deild Alþingistíðinda. (3492)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það eru þegar fram komin á þessu þingi nokkur tekjuaukafrv., einkum í háttv. Ed., með því að augsýnt hefir þótt, að auka þyrfti tekjur ríkissjóðs, ef verklegar framkvæmdir eiga að halda áfram í landinu, og auk þess liggja fyrir þingi ýms frv. til samþyktar, sem hafa útgjöld í för með sjer.

Þessi tekjuaukafrv. voru fyrst eingöngu í því fólgin að auka við tollum, verðtolli, vörutolli á kolum, salti, kornvörum og tunnum, stimpilgjaldi o. s. frv. Okkur jafnaðarmönnum þykir rjettara að sneiða nokkuð af tollunum, en að leita í þess stað til hækkunar beinu skattanna, og er þá næst hendi að hækka tekju- og eignarskatt. Þetta frv. er á þá einföldu leið, að tekju- og eignarskattur hækki um 25%. Eftir því sem þessi skattur er áætlaður í fjárlagafrv. hæstv. stjórnar, mundi sá viðauki, er fengist á tekjur ríkissjóðs með þessu móti, nema 200 þús. kr.

Það er vitanlegt, að tekju- og eignarskatturinn eins og nú er kemur ekki rjettlátlega niður á einstökum landshlutum; því að svo má segja, að hann leggist nær eingöngu á bæina. Nokkuð svipað má segja um tollana. En aðalmunurinn er sá, að skatturinn fer hækkandi eftir tekjum og eignum manna, en tollarnir koma því harðar niður á mönnum, sem þeir eru fátækari.

Þess vegna er það skoðun mín, ef þarf að auka á tekjur ríkissjóðs, þá eigi að auka beinu skattana. Fjárlög hafa undanfarið verið svo úr garði gerð, að ¼–1/3 af tekjum ríkissjóðs hefir verið tekinn í beinum sköttum, en hitt alt með tollum, og eru því freklegri tollaálögur hjer en munu þekkjast í nokkrum nágrannalandanna.

Jeg vil geta þess, að jeg ætlast ekki til, að þetta fyrirkomulag á tekju- og eignarskattinum verði mjög langlíft, þótt frv. verði samþ. nú. Jeg ætlast til, að það standi til ársloka 1930. En jeg vonast til, að önnur og betri skipun verði komin á skattamálin fyrir þann tíma, og verði milliþinganefnd látin starfa að því.

Í fjhn. mun jeg koma fram með brtt. um, að lágtekjur verði undanþegnar þessum viðauka tekjuskattsins. Þeir menn, sem lægstu tekjurnar hafa, eru nægilega skattlagðir eins og nú er.

Að svo mæltu óska jeg þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.