28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3801 í B-deild Alþingistíðinda. (3493)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Ólafur Thors:

Mjer þykir rjett þegar á þessu stigi málsins að hreyfa andmælum gegn frv. hv. 2. þm. Reykv. En með því að jeg tel líklegt, að því verði vísað til þeirrar nefndar, sem jeg á sæti í, ef á að láta það á annað borð ná til nefndar, þá get jeg verið stuttorðari en ella.

Jeg ætla að leiða hjá mjer að ræða um þann stefnumun, sem er á skoðunum okkar, hv. 2. þm. Reykv. og mínum, um það, hvaða leiðir ríkinu beri að fara í fjáröflun. En jeg vil aðeins benda á til athugunar, að tekjuskattstiginn er þegar svo hár, að fásinna er að ætla sjer að hækka hann. Það er fásinna vegna þess, að úr slíku yrði aldrei annað en bókstafslög; þótt þeim væri stranglega framfylgt, þá mundu þau aldrei verða til þess að auka tekjur ríkissjóðs.

Tekju- og eignarskattslögin voru samþykt á þingi 1922, og skattstiginn, sem þá var lagður til grundvallar, var sami og hjá Dönum. Síðan hafa Danir lækkað sinn skattstiga, en okkar var hækkaður 1923, svo að hann er nú 50% hærri en þeirra. Það mætti virðast, sem einhver leið væri til þess að rísa undir þeim bagga, ef ekki væri annað athugaverðara, sem mjög kemur til greina í þessu sambandi, og það er sú staðreynd, að jafnhár skattstigi kemur tiltölulega miklu þyngra niður á íslenskum skattborgurum heldur en skattgreiðendum annara ríkja, vegna þess hve afkoma atvinnuveganna hjer er misjöfn frá ári til árs.

Á þingi 1925, þegar rætt var um breyting á lögum um tekju- og eignarskatt, minnist jeg þess, að fjhn. tilfærði dæmi, sem sýnir ljóslega, hver óskaplegur munur er á skattþunganum, þótt til grundvallar liggi sami skattstigi, eftir því hvort hagur skattgreiðanda er jafn og viss frá ári til árs eða sveiflum háður. Jeg ætla að nefna þetta dæmi, máli mínu til skýringar: Fjhn. valdi til athugunar tvö hlutafjelög, sem hvort um sig hefði 100 þús. kr. hlutafje, og leit á afkomu þeirra um 4 ára skeið, sem hún hugsar sjer, að þau reki atvinnu með jöfnum heildargróða, en að öðru leyti við mjög ólíka aðstöðu.

Annað fjelagið er hugsað hafa jafna afkomu eins og gerist með nágrannaþjóðunum, en hitt samskonar áhættu og sveiflur í atvinnurekstrinum og hjer. Það fjelagið, sem jafna hefir afkomuna, er látið græða fyrsta árið 18 þús. kr., annað árið sömu upphæð, þriðja árið 14 þús. og síðasta ár þessa fjögurra ára tímabils 10 þús. kr., eða samtals 60 þús. kr. ágóði öll árin. En hitt fjelagið tapar fyrsta árið 75 þús. kr., græðir síðan tvö ár í röð 80 þús. kr. hvort árið og tapar fjórða árið 25 þús. kr. Heildarútkoman er sú sama: 60 þús. kr. hagnaður í 4 ár.

Þegar nú farið er að athuga, hvert skattgjald hvoru þessara fjelaga beri að greiða, kemur það í ljós, að fjelagið, sem hafði jafnan gróðann, átti að borga 8000 kr. í tekjuskatt, en hitt, sem bæði græddi og tapaði, átti að gjalda 39 þús. kr., eða nærfelt fimmfaldan skatt á við hið fyrra.

Nú er síðarnefnda fjelagið í dæminu einmitt spegilmynd af íslenskum atvinnurekstri, eins og hann gerist venjulega. Þegar svo þess er gætt jafnframt, að skattstiginn er hærri en tíðkast með öðrum þjóðum, þá er bert, að sú leið, er frv. gengur inn á, er til þess eins að venja menn á skattsvik eða þá hvatning til þess að hafa sem hægast um sig í atvinnulífinu, og helst leggja árar í bát, þegar sagt er við þá, er berjast við að stunda áhættusaman atvinnuveg, að beri þeir sigur úr býtum í þeirri baráttu, skuli þeir skila helmingi ágóða í ríkissjóð, en bera sjálfir hallann, ef illa fer. En þetta er dómur löggjafans, að framkvæmdamaðurinn skuli í góðærinu skila svo stórum hluta ágóðans, enda þótt atvinnurekstri hans sje svo háttað, að mögru árin eta í langflestum tilfellum upp þau feitu, skyldi engan furða, þótt dragi úr framtaki manna og framkvæmdahug í þessum efnum. En eins og efnahag okkar Íslendinga er farið, er ekkert nauðsynlegra en það, að ekki dragi úr framtakssemi manna, einmitt af því að við erum svo fátækir, að þjóðinni er lífsnauðsyn, að hver kynslóð skili meiru en hún tók við af feðrum sínum.

Þetta ráð háttv. 2. þm. Reykv. er því næsta óviturlegt, ekki aðeins miðað við þá ósanngirni, er í því felst í garð skattgreiðenda, heldur og vegna þess; að hag ríkissjóðs mun ver borgið með því heldur en ef það er látið niður falla.