28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3806 í B-deild Alþingistíðinda. (3495)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Mjer þykir líklegt, að hæstv. landsstjórn sje ánægð við þá hv. þm., sem hver af öðrum taka sig út úr hópi og bera fram tekjuaukafrv., en það er alment álitið verkefni, sem heyri undir fjármálastjórnina sjálfa, að efla fjárhag ríkisins og sjá honum borgið, eftir því sem hún sjer sjer fært. Hún má því vera þakklát, að tekið er af henni ómakið að hugsa fyrir auknum tekjum í ríkissjóð.

Nú fer hv. 2. þm. Reykv. fram á nýja íþynging á tekju- og eignarskatti á þann veg, að ríkisstjórninni sje heimilað að innheimta þennan skatt með 25% viðauka. Jeg vil mótmæla þessu frv. af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að það miðar að því að auka enn á þann órjett, er kaupstöðunum var gerður með tekjuskattslögunum. Það er alment vitað, að tekjuskatturinn eins og honum hefir verið fyrir komið undanfarin ár kemur aðallega og nær eingöngu niður á kauptúnum og kaupstöðum, en sveitirnar sleppa mikið til. Lögin eru þannig útbúin, að skatturinn hlýtur óhjákvæmilega að lenda á þeim.

Sennilega mundi það verða til þess, eins og hv. 2. þm. G.-K. sagði, að eftirtekjan yrði minni, þegar boginn væri spentur svo hátt, sem hv. flm. vill vera láta. Jeg er hræddur um, að það kynni að skorta eitthvað á þessa tekjuviðbót, 200 þús. kr., sem hv. þm. ætlar að leggja ríkissjóði til með þessum viðauka, einkum þar sem hann hefir boðað, að hann ætli sjer að bera fram brtt, við sitt eigið frv. til þess að draga úr því að nokkru.

Í öðru lagi vil jeg mótmæla þessu frv. vegna þess, að skattur er óhæfilega hár á eignum manna hjer á landi, og jafnvel tekjum líka, en þó einkum eignum. Það dregur úr hvöt þjóðarinnar til þess að spara, draga saman og eignast, þegar skattur er svo hár, sem hjer er stefnt að. Þar sem skattur er lagður á munaðarvörur og neysluvörur, hvetur það til sparsemi. Þjóðin sparar við sig þær vörur, sem hún getur án verið og hátt eru tollaðar. Og hjer hafa einkum verið tollaðar munaðarvörur.

Þótt jeg byggi mótmæli mín á þessum tveimur ástæðum, er ekki svo að skilja, að jeg telji, að ekki sjeu aðrar ástæður en þær, er þegar eru taldar, til þess að vera á móti þessu frv. Jeg býst við, að þær sjeu fleiri og vonast eftir, að þær verði teknar til athugunar í hv. fjhn., sem væntanlega fær mál þetta til meðferðar, og verði til þess að sannfæra menn um, hve varhugavert er að fara út á þessa braut, að hækka tekju- og eignarskattinn frá því, sem er. Bæði kemur hann órjettlátlega niður á landsmönnum og dregur úr hvöt þjóðarinnar til þess að spara og eignast.