28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3808 í B-deild Alþingistíðinda. (3496)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Ólafur Thors:

Jeg skal ekki hefja almennar umr. um það, í hve ríkum mæli heppilegt er, að ríkissjóður sje fjárhaldsmaður okkar landsmanna, eða hve langt megi ganga í álögum á borgarana; frv. gefur ekki sjerstakt tilefni til þess. Enda skildist mjer á hv. flm., að það mætti ræða síðar. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það væri ekki svo einfalt mál að bera saman tekjuskattslöggjöf ýmsra þjóða og jeg hefði haldið. Það var mjer þegar ljóst áður, og það af grundvallarástæðum, sem hv. flm. tók ekki fram. En hitt er þó víst, hvað sem því líður, að tekjuskattur er hærri hjer á landi en í nágrannalöndunum.

Það er alveg rangt, sem hv. flm. sagði, að tekjuskattur væri ekki greiddur af öðru en því, sem menn hefðu afgangs. Það eru aðeins örlitlar eignir og smávægilegar tekjur, sem eru undanþegnar skatti. Háttv. þm. sagði, að jeg hugsaði í hlutafjelögum, en hann virðist altaf hugsa í kjósendum, þó honum farist það ekki vel úr hendi. Jeg held, að það sje nú sanni nær, að með þessu ræðst hann harðast á sína eigin umbjóðendur. Þessar till. hans, ef samþ. verða, munu koma harðast við pyngju Reykvíkinga, og þá einkum millistjettanna. Hv. flm. sagði, að það væri síst ástæða til að hlífa hlutafjelögum. Úr því að þau greiddu ekkert, þegar þau tapa, þá væri ekki ástæða til að hlífa þeim, þegar vel gengur. Auðvitað hafa hlutafjelögin enga sjerstöðu. Hjer ræðir um íslenska atvinnurekendur yfirleitt og það er staðreynd, að atvinnuvegur þeirra er mjög áhættusamur, svo að víst er, að allmikill hluti arðsins annað árið gengur í venjulegan halla hitt árið. Hitt er og staðreynd, að þetta er ekki svo í öðrum löndum. Þess vegna eiga íslenskir atvinnurekendur erfiðara með að greiða háan skatt en hliðstæð fyrirtæki erlendis.

Það er alveg rjett, að ýms stærri hlutafjelög hjer hafa ekki greitt tekju- og eignarskatt síðustu árin. En ástæðurnar til þess þekkja allir, ástæðurnar til hinnar slæmu afkomu atvinnuveganna yfirleitt. Þær eru fyrst og fremst hin mikla og öra gengishækkun, einkum á árinu 1925. Það þekkja allir drápsklyfjar gengishækkunarinnar, sem þjakað hafa framleiðslufyrirtækin svo, að það má kallast gott, ef þau hafa getað forðast stórtöp og í besta lagi staðið í stað.

Jeg gæti til dæmis spurt hv. flm., hvernig stæði á því, að gróðafyrirtæki eins og Alþýðubrauðgerðin hefði ekki greitt neinn skátt. Ekki hefir hún átt við örðugleika gengishækkunarinnar að stríða. Ekki hefir henni heldur verið íþyngt með mannahaldi, því að fyrst varð hún til af öllum brauðgerðum bæjarins að segja upp starfsmönnum. Jeg játa, að þetta snertir ekki málið, en jeg segi þetta af því, að hann fór að ráðast á útgerðarfjelögin.

Þau greiða þó altaf mikið til almenningsþarfa, og það er dæmi til, að eitt einstakt fjelag hefir greitt nokkuð á 3. hundrað þúsund kr. í útsvar og tekjuskatt á einu ári.