28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3812 í B-deild Alþingistíðinda. (3498)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hv. þm. Vestm. virtist leggja aðaláhersluna á það, að þegar tollaálögur væru, þá stuðluðu þær að því, að menn spöruðu við sig. Jeg verð nú að segja, að jeg veit ekki, hvort sparnaður á kaffi og sykri og fatnaði getur talist heppilegur eða æskilegur. Þetta, sem jeg nefndi, er alment talið til nauðsynja, þar sem mjólkurmatur er ófáanlegur eða dýr, og menn ættu yfirleitt ekki að þurfa að spara það nauðsynlegasta. En það, sem menn greiða í tekju- og eignarskatt, greiða þeir mestmegnis af þeim tekjum, sem þeir hafa fram yfir nauðsynlega eyðslu.

Hjá tollunum getur hinsvegar enginn komist eins og löggjöfin er. Það getur enginn lifað og andað í landinu án þess að greiða tolla. Þeir koma mjög órjett niður, og þyngst á þeim fátækustu oft og tíðum, nefnilega á þeim, sem eiga flestum börnum eða stærstum fjölskyldum fyrir að sjá. Hv. 1. þm. Reykv., og reyndar hinir aðrir andmælendur mínir líka, ljetu í ljós, að þeir teldu enga þörf á neinum tekjuauka. En nú vilja tveir flokksmenn þeirra í hv. fjvn. láta verja 350 þús. kr. til verklegra framkvæmda á fjárl. næsta árs, án þess að nokkrar tekjur komi á móti. Eftir því, sem skilja má af grein, sem formaður Íhaldsflokksins, hv. 3. landsk., hefir nýlega skrifað, má ætla, að það sje stefnumál þess flokks að skiljast við fjárl. með tekjuhalla. Nú erum við jafnaðarmenn hinsvegar ekki sama sinnis. Auk þeirra 350 þús., sem íhaldsmenn vilja verja til verklegra framkvæmda fram yfir fjárlagatekjur, eru nokkurnveginn fastráðnar aðrar stærri fjárveitingar, svo sem til byggingar- og landnámssjóðs og sundhallar í Reykjavík. Þetta þrent gerir samtals um 600 þús. kr. fram yfir væntanlegar fjárlagatekjur. Fyrir þá, sem ekki eru algerlega ljettúðarfullir og ábyrgðarlausir í þessu máli, er þessi stefna næsta óskiljanleg. (MG: Hverjum er þm. að svara? — ÓTh: Samviskunni). Jeg svara hjér því, sem svara þarf, og tala um málið eins og það liggur fyrir án þess að biðja hv. 1. þm. Skagf. um leyfi til þess. En flokkssamviska hans virðist hafa stungið hann illilega, er á þetta er minst. Jeg verð að segja það, að þar sem skattstiginn fer hækkandi, er mjer alveg óskiljanlegt, að hækkun tekjuskattsins komi harðast niður á millistjettunum, eins og hv. 2. þm. G.-K. hjelt fram, nema þá því aðeins, að um stórkostleg skattsvik væri að ræða hjá hinum, sem meiri tekjur hafa. Skil jeg varla, að sá hv. þm. haldi því fram. Er það nú ekki alveg auðsætt af allri framkomu íhaldsmanna, að flokkur þeirra hefir fullan hug á því að reyna að velta byrðunum af auknum framkvæmdum í landinu yfir á hinn fátækari helming þjóðarinnar, sem sje alþýðuna í landinu?

Hv. 2. þm. G.-K. blandaði Alþýðubrauðgerðinni inn í þessar umr. Út af því skal jeg aðeins taka það fram, að jeg er ekki í stjórn hennar og ekkert kunnugur rekstri hennar. Veit jeg og, að hv. þm. er ókunnugur því fyrirtæki með öllu og ætti því sem minst um það að tala.

Hv. 2. þm. G.-K. vildi verja það, að hlutafjel. íslensku ættu að greiða lága skatta, með því að sjávarútvegur væri stopull atvinnuvegur með stórbreytingum frá ári til árs. Sjávarútvegur er að minni hyggju gullnáma landsins og hefir ávalt verið það. Gangi atvinnurekendur til lengdar með skarðan hlut frá borði, þeir er við útveg sýsla, tel jeg það stafa af skipulagsleysi, og er síldveiðin gott dæmi þess, þótt einnig megi nefna þorskveiðarnar. Virðist og hv. þm. hafa sjeð, að á þessari staðhæfing sinni væri ekki byggjandi, því að hann sneri skjótt frá því.

Þá var ekki lengur um það að ræða, að þetta væri venjulegt fyrirbrigði, heldur var það alt í einu orðið með öllu óvenjulegt fyrirbrigði, sem stafaði af gengishækkuninni. En slík mótbára, þó að hún væri rjett, gæti ekki gilt til langframa. Annars álít jeg, að það þyrfti á ýmsan hátt að lagfæra tekjuskattslögin, þó að ekki sje tækifæri til þess nú. Meðal annars væri rjett að afnema þá undanþágu, að draga megi frá 4% sem skattfrjálst, eins og nú er hjá hlutafjelögum, og nauðsynlegt væri og að hækka lágmark skattskyldra tekna æðimikið vegna alls tekjuskatts, hins almenna og viðaukans.

Hv. 1. þm. Reykv. fór eitthvað að tala um það, að þótt togarafjelögin greiddu ekki mikið í ríkissjóð, þá greiddu þau þeim mun meira í bæjarsjóð. Þetta kemur nú reyndar þessu máli ekki mikið við, en annars getur hv. þm. sjeð, að þau borga sama og ekkert í bæjarsjóð heldur; þau borga minna en ýmsir miðlungsstjettarmenn. Þúsund króna útsvar þykir venjulegt á togara, sem veltir á ári ½–1 milj. króna. Jeg held, að yfirleitt sjeu heldur litlar tekjur af þessum fjelögum til hins opinbera.

Þá virtist hv. 1. þm. Reykv. halda því fram, að það væri aldrei hægt að komast hjá því, að það yrði erfiðara fyrir fátæklingana að greiða skatta sína heldur en ríka menn. Jeg sje ekki, hvers vegna ekki er hægt að komast hjá því, ef fylgt er þeirri reglu að leggja á menn eftir gjaldþoli, því að þá borgar hver eftir sinni getu hlutfallslega jafnt. Að því miða einmitt öll skattavísindi.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að mikið af þessum tollum, sem væru af munaðarvörum, lenti á efnaðri stjettunum, en jeg veit, að ef hv. þm. lítur á fjárlögin, og þá sjerstaklega verðtollinn og lögin um hann, þá mun hv. þm. sjá, að það er mjög lítið af öðrum vörum en nauðsynjavörum, sem gefa tekjur í ríkissjóð. Yfirleitt hvílir allur meginhluti skattanna á nauðsynjavörum. Bak alþýðunnar þykir breitt hjer á landi.

Jeg ætla þá að enda mál mitt á því að telja slegið föstu, að fyrst og fremst þurfi meiri tekjur í ríkissjóð, ef menn ekki vilja fara að eins og íhaldsmenn virðast telja stefnuskráratriði sitt, að skilja fjárlögin eftir með tekjuhalla, og í öðru lagi, að ef eigi að auka tekjur ríkissjóðs, þá sje rjettara að leita til beinu skattanna heldur en þeirra óbeinu.