01.02.1928
Efri deild: 11. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

7. mál, skógar, kjarr og lyng

Frsm. (Einar Árnason):

Það er rjett, að það er ekki sök hv. þm. (JÞ), að brtt. komu svo seint. Það stafar aðeins af því, að málið kemur svo fljótt á dagskrá.

En það atriði, sem hv. 3. landsk. (JÞ) mintist á, hvernig ætti að fara að, ef eldri girðing væri fyrir einhverjum hluta þess svæðis, sem ætti að girða, breytir í rauninni engu, t. d. ef landamerkjagirðing væri þar fyrir. Ríkissjóður verður að tryggja sjer það, að hann hafi yfirráð yfir þessari girðingu, og þá að sjálfsögðu verður hann að leggja fram fje að einhverju leyti, sem svarar þeim kostnaði, sem sú girðing, sett upp að nýju, mundi kosta. Það er nauðsynlegt, vegna þess að ef einhver annar á girðinguna, þá getur hann tekið hana upp hvenær sem er, en það eru engin vandræði að vita, hve mikið framlag ríkissjóðs skuli vera til þeirra girðinga, sem fyrir eru, svo að það sje í samræmi við aðrar girðingar, sem settar eru upp um þetta skógræktarsvæði. Jeg held, að það sje engin hætta á því, að það verði nein vandræði út af þessu framlagi, þótt það verði eins og ákveðið er í frv. Það mundi oftast nær verða miðað við það, sem talað er um í frv., og jeg býst við, að ef ríkissjóður leggur einhversstaðar fram eins og sem svarar öllu girðingarefni, þá vilji allir aðrir, sem á nokkurn hátt geta það, einnig fá þau kjör.

Þá skildist mjer, að hv. 3. landsk. þætti ekki trygging fyrir því, að þær reglur, sem nefndar eru í 2. gr., næðu út yfir alt það, sem hann vill vera láta. En landbn. bætti þar inn í einu orði. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að setja reglur um meðferð skóga og kjarrs. Nefndin kynti sjer þessa reglugerð, en í henni er ekkert annað en reglur fyrir því, hvernig eigi að höggva skóg. Nefndin bætir þess vegna inn í 2. gr. frv. orðinu „notkun“, og með því hafði hún það fyrir augum, hvernig skóglendi yrði notað til beitar, og ætlast nefndin til, að einmitt þetta atriði komi fram í reglugerðinni. Gerir hún ráð fyrir, að það geti staðið svo sjerstaklega á sumstaðar, að hyggilegra sje að hafa þetta ákvæði í reglugerð heldur en í lögunum sjálfum.