28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3820 í B-deild Alþingistíðinda. (3500)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Það er ekki undarlegt, þótt þingmenn greini á um frv. það, sem hjer liggur fyrir; það er algert stefnumál, og því næsta eðlilegt, að menn leiði saman hesta sína. Hjer er um það að ræða, hvort breyta skuli skattalögunum þannig, að hækkaðir sjeu beinu skattarnir og tollarnir lækkaðir að sama skapi.

Í þessu sambandi þykir mjer rjett að minna hv. þdm. á það, að hv. flm. flytur hjer í hv. deild till. um að fella niður gengisviðaukann, 25%, á kaffi- og sykurtolli. Þegar þetta frv. er rætt, er því rjett jafnframt að taka til athugunar þessa tillögu, því að hún stendur í órjúfandi sambandi við frv. Og atkvæði hv. þdm. um þetta frv. veltur á því, hvort þeir yfirleitt álíta rjettara og eðlilegra að afla ríkissjóði tekna með beinum sköttum á tekjur og eignir eða með tollum á vörur, meira og minna nauðsynlegar.

Mjer virðist rjett að gera sjer það ljóst, að hvort heldur ríkissjóði er aflað tekna með beinum sköttum eða óbeinum, þá verði hann æfinlega að taka þessa skatta af því, sem afgangs er, þegar landslýður er búinn að uppfylla sínar brýnustu þarfir. Ef tekjur fólksins eru einhvern tíma svo rýrar, að þær hrökkva ekki fyrir brýnustu þörfum og sköttum í viðbót, verður það annaðhvort að taka lán til að greiða skattana eða það verður að klípa af nauðsynjum sínum. En sem sagt, skattar eru teknir yfirleitt af því, sem umfram er, þegar brýnustu nauðsynjar þjóðarinnar sem heildar eru uppfyltar, þótt því verði eigi neitað, að allmargir einstaklingar eru skattlagðir freklega með tollum, þótt tekjur þeirra hrökkvi ekki til lífsframdráttar, og þiggi af sveit eða líði skort af þeim sökum. Mjer virðist því, að það sje tryggara með því að taka beina skatta en tolla, að skattarnir greiðist jafnan af því, sem umfram er brýnustu nauðþurftir þess, sem skattinn greiðir. En það er frumskilyrði þess, að skattarnir komi rjettilega niður. Það er algerlega fjarri sanni, sem hv. þm. Vestm. sagði, að tollarnir hvíli mestmegnis á munaðarvöru. Ef hann vill líta á fjárlagafrv. það, sem nú liggur fyrir, og breytingar fjvn., þá er þar kaffi- og sykurtollur 1050000 króna, vörutollur 1050000, verðtollur 825 þús. Þessir tollar eru að langmestu leyti á vörum, sem eru nauðsynlegar. Það er tiltölulega lítill hluti vörutollsins, sem hvílir á vörum, sem ekki er hægt að telja nauðsynlegar. Sama gildir um verðtollinn. Það er ekki nema lítið brot af verð- og vörutolli, sem legst á óhófsvöru.

Jeg veit ekki betur en að það hafi altaf verið viðurkent, og það af sjálfum höfundi vörutollslaganna, að þau væru bráðabirgðaráðstöfun og alls ekki tilætlunin, að þau giltu til frambúðar. En það hefir atvikast svo, að Alþingi hefir aldrei sjeð sjer fært að leiðrjetta lögin frá því, sem var í upphafi. Síðan var verðtollinum bætt ofan á vörutollinn, án þess lagfærð væri flokkaskifting vörutollslaganna. Langmestur hluti verðtolls er af vörum, sem eru tollaðar með 10%, þ. e. þurftarvörum allskonar, miklu minna af ónauðsynlegum vörum með 20% verðtolli.

Jeg ætla þetta sje nægilegt til þess að sýna hv. þm. fram á, að hann fer mjög villur vegar í þessari staðhæfin.gu. Hann þarf ekki annað en líta á sykurtollinn. Það lætur nærri um sykurverðið, að tollur með álagning kaupmanna á hann sje 1/3 útsöluverðs. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. telur sykur óhófsvöru; jeg geri það ekki.

Jeg ætla það væri hv. 1. þm. Reykv., sem sagði það firru eina, að tollar kæmu harðast niður á fátæklingum. Þetta er þó margsannað og vitað af öllum. Fátæklingarnir geta ekki látið vera að kaupa þessar vörur. Tökum til dæmis tilbúinn fatnað; hann er þrátt fyrir tollinn ódýrari en fatnaður, sem er saumaður hjer. Af því leiðir, að fátæka fólkið kaupir hann mest. Fyrst er lagður á fötin með umbúðum vörutollur og svo 10% verðtollur. Dósamjólk er vara, sem fátæka fólkið, sem ekki hefir ráð á að kaupa nýmjólk, kaupir mikið. Tolluð er hún. Sama er að segja um kaffi og sykur; fátæklingarnir og þurrabúðarmennirnir, sem ekki eiga kost mjólkur við því verði, sem þeir geta greitt, verða beinlínis að kaupa meira af þeim vörum en hinir, sem gnægð hafa mjólkur. Þessar vörur eru hátt tollaðar, svo að úr hófi keyrir. Því fleiri ómaga, sem heimilisfaðirinn hefir fram að færa, því meira þarf hann að greiða í tollum, þessum og öðrum, en þess erfiðara er honum um það oftast nær.

Hv. þm. Vestm. hjelt því fram, að ef frv. það, sem hjer um ræðir, næði fram að ganga, þá yrði mjög þyngd skattabyrði á allri alþýðu í kaupstöðum. En hv. flm. hefir nú getið þess, að hann muni við næstu umræðu bera fram brtt. þessu viðvíkjandi. En þó að það yrði ekki gert, þá er það svo, að sá hluti þessarar skatthækkunar, sem lenti á skattlægstu mönnunum, er svo lítill, að hans hefði ekkert gætt í samanburði við það, sem tekið er með óbeinum sköttum.

Hv. þm. Vestm. talaði annars lítið um þetta frv. í síðari ræðu sinni. Meiri hlutinn af hans snjöllu ræðu var einskonar skriftamál, þar sem hann skýrði hv. þdm. frá því, hversu áhyggjufullur hann væri orðinn út af þeim veðrabrigðum, sem væru að gerast á þeim pólitíska himni. Jeg veit ekki, hvort það er rjett að hrella þennan áhyggjufulla og hugsjúka þingmann, og af því að jeg er brjóstgóður, vil jeg heldur reyna að ljetta þessum áhyggjum dálítið af honum.

Hann viðhafði þau ómaklegu orð um okkur jafnaðarmenn, að við værum sí og æ að hnífla togaraútgerðina. Yfirleitt skildist mjer hann álíta, að við værum fjandmenn hennar. Hann sagði það ekki berum orðum, en mjer fanst það liggja í orðum hans. Jeg get fullvissað hann um, að þetta er mjög fjarri sanni. Við álítum einmitt, að togaraútgerðin sje sönnun þess, að við lítum rjettum augum á þróun atvinnuveganna, — að það borgi sig betur að reka flesta atvinnuvegi í stórum stíl undir einni stjórn heldur en í smærri stíl og stjórnlítið eða stjórnlaust. Þess vegna er það mjög fjarri sanni, að við höfum nokkuð á móti því, að togaraútgerð sje stunduð á landi hjer. Við viðurkennum þvert á móti, að það sje eðlilegt og æskilegt í alla staði. Og þó að okkur gefist ekki kostur á að rannsaka reikninga togarafjelaganna, jafnaðarmönnum, hygg jeg, að þeir muni sýna, að fiárhagsleg afkoma útgerðarinnar yfirleitt hafi verið góð. Það sannar líka hinn öri vöxtur togaraflotans.

Þessi hv. þm. og aðrir, sem þykjast mjög bera hag stórútgerðarmanna fyrir brjósti, nota hvert tækifæri til þess að benda alþjóð á, hversu veigamikill þáttur í lífi þjóðarinnar þessi útgerð er; og þetta er alveg rjett. Nú vil jeg spyrja hv. þm.: Finst honum það óeðlilegt, þar sem því er svo mjög haldið á lofti, hversu afkoma útgerðarinnar varðar þjóðina miklu, að þeir, sem skifta sjer af þjóðmálum, vilji um þetta tala? Mjer finst eina eðlilega afleiðingin af því, hvað mikill þáttur atvinnulífsins togaraútgerðin er, vera sú, að hana beri að skoða sem einskonar opinbert mál. Það er misskilningur, að það sje einkamál togaraútgerðarmanna, hvernig þessi atvinnuvegur er rekinn og hvernig afkoma hans er. Þetta er svo stór liður í búskap þjóðarinnar, að hana varðar alla um þetta mál. Það er annars mjög leitt, að ekki skuli hjer í hv. deild vera hægt að tala um slík mál sem þessi, t. d. ýmislegt, sem viðkemur útgerð og sölu afurða og öðru slíku, án þess að upp rísi þeir menn, sem næst standa þeim fyrirtækjum, og kalli slíkt persónulega áleitni og fjandskap við útgerðina. Jeg er flm. að frv. um einkasölu á saltfiski; jeg mótmæli því, að það sje flutt til þess að narta í þessa útgerðarmenn, sem hv. þm. talaði um. Jeg álít skipulag þessara mála betra eftir frv. Hitt kann vel að vera, að af því kunni að leiða minni gróðamöguleika einhverra þessara manna, sem hagnast af núverandi fyrirkomulagi á kostnað keppinauta sinna, og oft allrar þjóðarinnar. En mjer finst ekki hægt að setja það fyrir sig, þegar litið er á almennings heill. Ekki skal jeg neita því, að framtakssamir menn hafi margir hverjir unnið stórmikið gagn á þessu sviði: þeir hafa unnið að mikilsverðum umbótum á atvinnuvegum okkar, sem skylt er og sjálfsagt að viðurkenna. En þar fyrir eiga menn ekki að skoða sig skylda til að horfa á allar aðgerðir atvinnurekenda með undirgefni og aðdáun og forðast að finna að misfellunum og afglöpum þessara manna, sem því miður eru mörg og býsna stórfeld. Það nær ekki nokkurri átt.

Þá hefir þeirri mótbáru verið haldið á lofti, að af hækkun á beinum sköttum hlyti að leiða, að menn mistu tilhneiginguna til að spara, og dugnaðar- og framtaksmenn hættu að neyta síns dugnaðar; þeir muni ekki ráðast í fyrirtæki, af því að þeim þyki ríkissjóður heimta of mikið af arðinum í sinn vasa. Þessar tvær viðbárur hafa altaf verið hafðar á lofti nokkurn veginn jöfnum höndum, þegar rætt hefir verið um beina skatta. En það hefir altaf sýnt sig og sannast eftir á, að þetta er rangt. Það er ekki hægt ennþá — það jeg veit — að benda nokkursstaðar á dæmi þess, að hækkun tekju- og eignarskatts hafi orðið til þess að draga úr framkvæmdum og löngun til þess að spara. Í þessu tilfelli sjer það hver heilvita maður, að hækkun skatta, sem nemur í meðalári 200 þús. kr., gerir hvorki til nje frá um það.

Þá ætla jeg að svara háttv. 1. þm. Reykv., sem fann aðallega beinum sköttum til foráttu, að skattaframtöl væru mjög óábyggileg. Menn, margir hverjir, sumpart gæfu beinlínis rangt skattaframtal og sumpart væri framtalið ekki svo glögt og greinilegt sem skyldi. Jeg skal ekki neita því, að þetta er á nokkrum rökum bygt. En stjórnarvöldin hafa að ákaflega miklu leyti í hendi sjer, hversu strangt gengið er eftir, að framfylgt sje ákvæðum laganna um þessi efni. Jeg skal líka játa, að það sje ástæða til að breyta ýmsum ákvæðum í lögum, sem að þessu lúta, og má að sjálfsögðu gera það á sínum tíma. En viðurkenni menn á annað borð rjettmæti þess að miða skatta við eignir og tekjur, þá er ómannlegt að gefast upp við að fara þá leið einungis fyrir því sök, að hingað til hafi orðið einhverjar misfellur á framkvæmdum. Það á að bæta úr misfellunum.

Eitt af því, sem menn hafa borið fram til málsbóta fyrir tolla, er það, að þeir verði til þess að hvetja almenning til sparnaðar. Jeg skal viðurkenna, að ef ekki væri um tolla að tala af öðrum vörum en ónauðsynlegum, væru þetta sæmileg rök; en eins og jeg hefi áður bent á, þá eru tollar hjer undantekningarlaust á öllum vörum, sem nokkru nema og til landsins flytjast, nema kornvöru. Og nú liggur fyrir deildinni frv. um að leggja aftur tolla á þá vöru. Ætli þeir, sem halda því fram hjer í hv. deild, að allur sparnaður sje nauðsynlegur og blessunarríkur, ætlist til, að tollarnir leiði til þess, að almenningur spari við sig fatnað, húsnæði, matvöru og þess háttar? Jeg verð að segja, að sá sparnaður er háskalegur. Hvað sem gildi peninganna líður yfirleitt, þá er það víst, að ennþá meira virði er þroski og heilbrigði þjóðarinnar.

Það er alveg rjett, sem háttv. flm. sagði í fyrstu ræðu sinni um tekjuskatt hlutafjelaga. Hann er eingöngu lagður á það, sem afgangs verður eftir að allur kostnaður þeirra hefir verið dreginn frá tekjunum. Meira að segja, tillag til varasjóðs og 4% af hlutafjenu er einnig dregið frá sem kostnaður.

Jeg man ekki betur en að háttv. 2. þm. G.-K. hafi eitt sinn í blaðagrein upplýst um það, að h/f Kveldúlfur gæti haft nettótekjur, er nema hundruðum þúsunda króna án þess þó að gjalda nokkurn eyri í skatt. Lögheimilaður frádráttur auk rekstrarkostnaðar, eða skattfrjálsar nettótekjur þessa hlutafjelags, ættu þá að geta numið hundruðum þúsunda á ári. Þeim mun hærri skatt getur fjelagið auðvitað greitt af þeim hlutanum, sem skattskyldur er.

Sami hv. þm. var að tala um, að skatturinn kæmi ójafnt niður. Virtist mjer hann harma það, er meðaltalsregla hv. 3. landsk. var ekki samþ. á þinginu 1925. Hann tilfærði sem dæmi tvö fjelög, er hefðu jafnar skattskyldar tekjur um þriggja ára bil. Annað fjelagið hefði jafnar tekjur öll árin, en hitt mjög misháar. Segir hann, að hið síðartalda greiði 4–5 sinnum hærri skatt en hitt, sem jafnar tekjur hafði. Jeg vil nú ekki beinlínis bera brigður á þessa útreikninga. En sjeu þeir rjettir, liggur í augum uppi, að stórgróði hefði orðið fyrir útgerðarfjelögin, ef meðaltalsreglan hefði náð lögfestingu.

Jeg man ekki betur en að þessi hv. þm. og aðrir þeir, sem fylgjandi voru því, að meðaltalsreglan væri upp tekin, hafi fært það fram 1925 og síðar, máli sínu til stuðnings og varnar, að tekjur ríkissióðs mundu sáralítið rýrna af tekjuskatti, þótt hún yrði lögfest.

Nú reiknast þessum hv. þm. svo til, að fjelög með ójafnar tekjur mundu ekki greiða nema 1/5 eða ¼, þess skatts, sem þau nú greiða, ef meðaltalsreglan væri upp tekin. Liggur þá í augum uppi, að ríkissjóður hlyti að tapa sömu upphæð, — en hvað verður þá um fyrri staðhæfingu þessa hv. þm. um, að ríkissjóður hefði ekki tapað neinu verulegu, þótt skatturinn hefði verið reiknaður af meðaltekjum þriggja ára? Gróði útgerðarmanna hlyti auðvitað í þessu tilfelli að verða ríkissjóði tekjumissir.

Meðaltalsreglan er hjer ekki til umr., en jeg get sagt það sem mína skoðun, að eðlilegra sje að taka skattinn fyrir þau ár ein, sem tekjuafgang gefa. Jeg er svo sanngjarn við þessi útgerðarfjelög, sem greiða ríkissjóði tolla af kolum og salti, oft svo þúsundum króna skiftir, jafnvel þau ár, sem þau tapa, að mjer þætti óeðlilegt að leggja í viðbót á þau tekjuskatt fyrir tapár.

Jeg gæti líka trúað því, að þeim yrði erfitt um að greiða á þeim árum, sem þau tapa, skatt af stórgróða fyrri ára, og ríkissjóði yrði þá erfið innheimtan. Gróði fyrri ára er ekki geymdur í sjóði til þess að borga með honum skatta síðar; hann er yfirleitt bundinn í fasteignum og rekstri fyrirtækjanna.

Þetta læt jeg mjer nægja að sinni. en vænti fastlega, að hv. þdm. sjái kosti frv. og greiði götu þess áfram.