27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3838 í B-deild Alþingistíðinda. (3511)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hins og hv. þdm. sjá, þá hefir nefndin klofnað í málinu. Er meiri hl. sammála um það, að rjett sje að veita ríkisstjórninm heimild til að innheimta tekju- og eignarskattinn með 25% viðauka, þó með þeirri breytingu, að árstekjur einstaklinga, sem ekki nema 4000 kr., skuli undanþegnar þessum viðauka við tekjuskattinn. Hafði jeg sem flm. í upphafi bent á þá leið. Minni hl. nefndarinnar sjer sjer ekki fært að leggja með því, að frv. verði samþykt, og gerir ráð fyrir því að koma með nánari greinargerð á skoðun sinni í framsögu.

Þegar fjárlögin voru afgreidd hjeðan til Ed., nam tekjuhalli á þeim 670 þús. kr. síðan hefir verið gefinn eftir tollur á kaffi og sykri, er nema mun 190 þús. kr. Ef strandferðaskip verður bygt, þá má gera ráð fyrir 140 þús. kr. rekstrarhalla á því árlega. Er þá kominn 1 milj. kr. tekjuhalli við fjárlögin, og þarf því að auka tekjurnar sem því svarar, ef þingið vill skila tekjuhallalausum fjárlögum. Upp í það kemur aukning á verðtolli og vörutolli, sem ætla má að nemi 400 þús. kr. tekjuauka. Eru þá eftir 600 þús. kr., sem afla verður á annan hátt. Meiri hl. fjhn. telur heppilegra að afla nokkurs hluta þessa fjár með því að hækka nokkuð tekju- og eignarskattinn heldur en afla þess alls með tollum. Taldi hann einmitt heppilegt að hækka þennan skatt um 25%. Nefndin hefir þó flutt þá breytingartillögu, að tekjur, sem ekki nema 4 þús. kr., sjeu undanþegnar þessari hækkun á skattinum. Þessar tekjur eru svo lágar, að nefndinni þótti ekki vert að hækka skattinn á þeim. Það má með nokkrum rjetti segja, að þetta sje töluverð hækkun, en við því er ekki hægt að gera, ef menn vilja hafa þær framkvæmdir, sem samþyktar verða hjer á þinginu.

Minni hl. mun nú halda því fram, að tekju- og eignarskatturinn verði með þessu óeðlilega hár. En jeg fyrir mitt leyti álít, að hann þurfi að hækka enn meira á hærri gjaldendum. Það er mitt álit, að þegar um háar tekjur fer að verða að ræða, þá sje miklu af því fje betur varið hjá ríkissjóði heldur en í höndum einstakra manna, í sameign heldur en í sjereign. Það verði meira unnið fyrir það fje til almenningsheilla, ef ríkið hefir það til ráðstöfunar. Sama virðist og vera þingvilji nú, þegar samþyktir eru gjaldliðir, sem gera nauðsynlegt að afla ríkissjóði nýs fjár. Þingið kýs að því leyti heldur, að ríkið verji því fje heldur en einstaklingarnir, þar á meðal, að þessar 200 þús. kr., sem ætlast er til, að tekjuskattsviðaukinn gefi, sjeu í sameign heldur en í sjereign. Því hefir verið haldið fram, að þessir skattar væru hærri hjer en í Danmörku og Englandi. Jeg hefi nú ekki haft tækifæri til að bera þetta saman við samskonar skatta á Englandi. En jeg hefi borið þetta saman við Danmörku og hefi komist að alt annari niðurstöðu. Á hæstu tekjum mun þessi skattur að vísu vera nokkru hærri í Danmörku en hjer, en hjá miðflokkunum er hann lægri hjer. Og þótt þessi 25% hækkun verði samþykt nú, þá verður hann samt lægri hjer. Er því ekki hægt að taka miðlungsstjettirnar í Danmörku til samanburðar um þetta, þegar afsanna á rjettmæti þessarar hækkunar. Þá er eignarskatturinn líka miklu hærri í Danmörku. Á sumum skattstigum alt að helmingi hærri. Hlutafjelagaskatturinn er hærri hjer, en meiri frádráttur, svo að niðurstaðan mun verða svipuð, þegar tekjuskattsviðaukinn hefir verið samþyktur fyrir þessi fjelög jafnt og aðra. Að öllu þessu athuguðu og samanlögðu geri jeg ráð fyrir því, að tekjuskatturinn sje ekki hærri hjer en í Danmörku, þegar tekjuskattsviðaukinn er orðinn að lögum. En þótt hann væri hærri hjer, borið saman við kjósendatölu, þá væri það ekkert óeðlilegt, því við búum hjer, ef svo má segja, í óbygðu landi, þar sem flest er enn ógert af þeim framkvæmdum, er gera þarf. Þess ber líka að gæta, að ef þetta verður ekki samþykt, þá þarf að afla ríkissjóði þessara tekna á annan hátt. Þá er ekki nema um tvær leiðir að ræða: Fasteignaskatta eða þá aukna tolla.

Þegar það nú er athugað, hvernig ríkissjóður fær tekjur sínar, þá verður niðurstaðan sú, þegar frá eru skildar póst- og símatekjur, sem ganga að mestu aftur til sinnar eigin starfrækslu, að beinir skattar eru 15%, en tollar eða óbeinir skattar 85%. Þessi 85% eru ekki lögð á eftir efnum og ástæðum, heldur eftir fjölskylduþunga, ómegð. Ef lengra væri gengið en þetta, þá væri áreiðanlega lengra gengið en heiðarlegt þykir annarsstaðar. Í Danmörku eru þessi hlutföll þau, að beinir skattar eru 37% móti 15% hjer.