27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3863 í B-deild Alþingistíðinda. (3519)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Jón Auðunn Jónsson:

Það hefir löngum verið svo að menn greinir á um það á hvern hátt sje rjettlátast að taka tekjur af skattborgurunum: og það verður áreiðanlega ekki hætt að deila um það, þótt eitthvað verði breytt því skatta- og tollafyrirkomulagi, sem nú er.

Mjer skildist á hv. 1. þm. N.-M. sem nú settist niður, að hann hygðist að ná öllum sköttum til ríkissjóðs af þeim, sem hafa meiri tekjur en svo að nægi til lífsframfæris þeim með hóflegri eyðslu. En það hygg jeg, að með tekjuskatti einum, og þá auðvitað af þessum flokki manna, og engum öðrum tollum eða sköttum verði ekki náð nauðsynlegum tekjum handa ríkissjóði. Jeg hygg, að í okkar fátæka þjóðfjelagi verðum við sem mest að fara hina leiðina, að ná skatti af óhófsvörum. Ef taka ætti allar þarfir ríkissjóðs með tekjuskatti eingöngu, sem annars er ómögulegt, mundi það leiða til þess, að þegar menn, sem annars eru mjög hófsamir, sjá, að stór fúlga af tekjum þeirra verður að fara í beinan skatt, þá leiðist þeir til að eyða meiru en þeir annars mundu gera, ef tekju- og eignarskatti væri sæmilega í hóf stilt. Það hefir að minsta kosti sumstaðar komið fyrir, þar sem þessi skattur varð óhæfilega hár, að menn hafa haft ýmiskonar undanbrögð, bæði eytt meiru en annars, til þess að færa skattinn niður, og jafnframt reynt að hafa bein undanbrögð í frammi um framtal. Það er álitið, að þegar Englendingar lögleiddu sinn háa aukaskatt, ,,supertax“, hafi þetta komið mjög greinilega í ljós.

Annars er það svo, að það væri áreiðanlega heppilegast fyrir þjóðfjelagið, að lagður væri sem þyngstur skattur á alla óhófseyðslu, bæði til þess að draga úr þeim nautnum, sem telja má óhófsnautnir, og til þess að þurfa ekki að ganga nærri þeim mönnum, sem vilja spara, og munu þá leggja sinn skerf fram til þjóðfjelagsins. Hvar fær þjóðin starfsfje, ef enginn fær leyfi til þess að eignast fje? Þeir, sem safna fje, eru að vissu leyti lánveitendur atvinnuveganna. Jeg hygg óhætt að fullyrða, að ef þetta frv. verður samþ., þá sje alls ekki gætt hófs í kröfunni um þennan skatt, — langt frá því. Mönnum hættir sem sje við að gleyma því, að það er nokkuð öðruvísi ástatt um tekjur manna hjer á landi en annarsstaðar, einkum hærri tekjur, eins og útgerðarfjelaga. Jeg skal ekki neita því, að eftir minni skoðun nú hefir okkur yfirsjest í upphafi, eða 1921, þá er núgildandi tekjuskattslög voru samþykt. Reynslan hefir að mínu viti sýnt það, að við höfum byrjað með of háan skattstiga. Það var tekið fordæmi nágranna okkar á Norðurlöndum, en þess þá ekki gætt, að þær þjóðir höfðu haft þetta skattafyrirkomulag lengi. En það mátti heita, að tekjuskattur væri nýr hjá okkur sem nokkur verulegur tekjustofn fyrir ríkissjóð, þegar hann var settur 1921. Því að á undanförnum árum — eftir lögunum frá 1877 — var þessi skattur svo lágur, að hann gat ekki talist neinn tekjustofn; þetta sjest af því, að árið 1916, sem var sjerstaklega gott ár fyrir atvinnureksturinn, var tekjuskatturinn ekki nema 161 þús. króna.

Það er altaf athugavert, þegar byrjað er á nýju kerfi, að spenna bogann of hátt.

Nú er hins að gæta, að þessar þjóðir, sem lengi hafa hlítt þessu skattafyrirkomulagi, þær sáu ástæðu til að draga úr skattinum frá því, sem hann var 1921, eins og Danir og Svíar að því er snertir tekjuskatt hlutafjelaga, sem var lækkaður í báðum þessum löndum frá því árið 1921. Hámarksskattur þar er ekki meira en 25% af tekjum, en hjer er hann 30%. Auk þess er skattur á hærri tekjum mun hærri hjer en í þessum löndum. Hv. frsm. meiri hl. sagði í ræðu sinni í dag, að beinir skattar hjá okkur væru 15% af tekjum ríkissjóðs, en aðrir skattar 85%. En þetta er fjarri öllum sanni. Mjer brá satt að segja, þegar hann bar þetta fram. Maður þarf ekki annað en að líta í fjárlagafrv. fyrir 1929 til þess að sjá, að fasteignaskattur, erfðafjárskattur og tekju- og eignarskattur eru áætlaðir um 1100 þús. En auk þess eru fjölda margir aðrir skattar, sem ekki er hægt að segja annað um en að sjeu beinir skattar; svo er um notendagjöld í ríkissjóð. Bæði póst- og símatekjur eru borgaðar aðeins þar, sem við njótum þeirra hlunninda, sem ríkisvaldið leggur borgurunum til. Þessir skattar geta því alls ekki talist óbeinir skattar. Og þeir nema nær 2 milj. króna. Ennfremur er ekki hægt að segja um mikinn hluta af aukatekjum ríkissjóðs annað en að það sje borgun fyrir verk, sem ríkisvaldið lætur vinna sjerstaklega fyrir þá ríkisborgara, sem verða þeirra verka aðnjótandi, eins og t. d. þinglýsingar, fógetagerðir, uppboð og margt annað. Þetta getur því eftir eðli sínu ómögulega talist annað en beinir skattar. Vitagjald getur heldur ekki talist annað en beinn skattur. Leyfisbrjefagjöld eru og beinn skattur. Tekjur af bönkum á ekki að telja með óbeinum sköttum.

Það er þess vegna fjarri öllum sanni, að óbeinu skattarnir sjeu 85%, en beinu skattarnir 15%. Sannleikurinn er sá, að beinu skattarnir ásamt notendagjöldum, en þau verða að teljast með sköttum, eru samkv. fjárl.frv. 1929 4½ milj. króna. En óbeinu skattarnir, nefnilega tollarnir, hvað nema þeir miklu í fjárlagafrv.? Þeir eru um 3 milj. króna af almennum neysluvörum, eða tæplega það. Tollar af tóbaki og annari óhófsvöru eru ekki þar með taldir; enda þótt slíkir tollar sjeu að vísu beinir skattar, þá er nú svo um þessa skatta, að þeir eru að minni hyggju allra skatta rjettlátastir. Og ef við ætluðum að byggja að mestu leyti á tekju- og eignarskatti, en láta sleppa undan óhófseyðsluna í landinu, þá erum við áreiðanlega komnir inn á mjög skakka braut.

Eftir fljótlegan yfirlestur fjárlagafrv. Dana og Svía er mjer óhætt að fullyrða, að beinu skattarnir eru hjer síst lægri — ásamt notendagjöldum — en í þeim löndum. Því hefir verið haldið fram, að eins auðvelt væri að ná tekju- og eignarskatti af landbúnaði eins og sjávarútvegi. En reynslan hefir sýnt það í öðrum löndum, að það er erfitt að ná tilsvarandi sköttum hjá landb. eins og t. d. iðnaði og sjávarútv., nema þar, sem tekjurnar eru orðnar mjög háar. Af öllum smærri landbúskap hefir reynst mjög erfitt að ná rjettlátum skatti, samanborið við aðrar atvinnustjettir. Og jeg hygg það sje óhætt að segja, að landbúnaðurinn beri nú með þessum skatti minni byrði heldur en áður með ábúðar- og lausafjárskattinum, sem orðinn var um 96 þús. kr. á ári.

Það verður vel að gæta þess, að þeim atvinnuvegi, sem að stórmiklu leyti á að greiða þennan skatt — og hefir greitt hann þegar vel hefir árað —, honum er alt öðruvísi háttað en atvinnuvegum flestra annara þjóða. Þessi annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, er svo misbrestasamur, að það má segja, að tapast geti á einu ári það, sem græðist á fjórum. Jeg veit þess dæmi um eitt togarafjelag, að þegar frá var dregið það tap, sem varð á fjórum árum, en lagðar við tekjur á því ágæta ári 1924, þá hafði það 40 þús. króna afgang. Tekjurnar hjá þessu fjelagi voru mjög miklar 1924. Tekjuskatturinn, sem þetta fjelag bar — er jeg þó ekki alveg viss um, að það hafi enst til þess að borga hann allan — var 58370 kr. Dæmi þessa munu varla finnast annarsstaðar en á Íslandi. Það er iðnaður og landbúnaður og verslun, sem munu gefa líkastar tekjur frá ári til árs. En hjer er það svo, að sjávarútvegurinn gefur stórtap og stórtekjur. Við þessu órjettmæti í skatti er erfitt að gera með venjulegu skattafyrirkomulagi; það skal jeg játa. En þetta sýnir það, að maður verður að fara gætilega í þessum skattaálögum, ef ekki á að stofna til vandræða hjá þessum skattgreiðendum.

En hvað snertir tekjur þær, sem ríkissjóði er ætlað að fá með þessu frv., þá er það þegar sýnt, að það er ekki nauðsyn á þeim nú sem stendur, því að það er vitanlegt fyrirfram, að ríkissjóður fær meiri tekjur heldur en hægt er að sjá, að þörf verði fyrir til þess að skila tekjuhallalausum fjárlögum 1929, þó með sje talið það, sem þarf að áætla til útgjalda samkv. sjerstökum lögum. Eins og árað hefir undanfarið hjá atvinnuvegunum, þá held jeg, að það sje lítt forsvaranlegt að leggja á skatta til þess eins annaðhvort að safna upp fje í ríkishirsluna eða að vinda til sjerstakra stórframkvæmda.

Jeg veit, að mikill fjöldi hv. þm. hefir látið það í ljós á kosningafundum á síðastl. sumri, að það væri ótækt að þyngja álögur til ríkissjóðs. Við mína kjósendur sagði jeg nú ekki þetta; jeg áleit, að ef knýjandi nauðsyn væri fyrir hendi, yrði að auka tekjur ríkissjóðs að einhverju leyti, en varlega yrði í það að fara. Og þegar á að fara að hækka skatta og tolla um fullkomlega 10%, og það að nokkuð miklu leyti með beinum sköttum eins og hjer er gert ráð fyrir, þá held jeg, að komið sje í óefni. Það er vitanlegt, að framkvæmdamenn verða daufari til framkvæmda, ef beinn skattur er þyngdur á þeim. Jeg veit um menn, sem hafa ætlað að stækka atvinnufyrirtæki sín, en alveg gugnað, einmitt af því að þeim finst Alþingi nú ætla að grípa of djúpt ofan í vasa þeirra. En það verður maður að játa, að ef kipt er mjög úr verklegum framkvæmdum einstaklinganna og þeir hafa minni áhuga á að auka framleiðsluna, þá er það að draga úr því auðsafni, sem þjóðin þarf að fá, og draga úr því, að verkafólk í landinu geti fengið sæmilega nóg að starfa.