29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3883 í B-deild Alþingistíðinda. (3526)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Það stóð svo á við 2. umr., að jeg vildi ekki lengja umræðurnar, og svaraði jeg því ekki einstökum atriðum, sem fram komu í ræðum hv. þdm. Það er einkum ræða hv. 2. þm. Reykv., sem jeg vil nú víkja ofurlítið að.

Yfirleitt fanst mjer nærri því of mikið talað um embættismenn og þeirra laun í sambandi við þetta mál. Þetta mál snertir þá að vísu mikið, og þeir eru meðal þeirra manna, sem hin fyrirhugaða skattaaukning kæmi verst niður á, en það má ekki gleyma því, að í Reykjavík eru embættismenn minni hluti þeirra manna, sem lifir á föstum launum. Verslunarmenn, skrifstofumenn og bankamenn hafa samtals meiri tekjur en embættismenn og greiða því meiri skatt en þeir. Þess vegna er ekki rjett að einstrengja þetta mál algerlega við starfsmenn ríkisins.

Jeg var mjög hissa á því, hve hv. þm. talaði kuldalega í garð embættismanna. Hann fór næstum því háðulegum orðum um brjef þeirra, þar sem þeir eru að kvaka í ríkisvaldið um að svelta sig nú ekki alveg í hel. Jeg hjelt, að hv. þm. hefði meiri samúð með vinnuseljendum en þetta. Hv. þm. veit, að það eiga embættismenn sameiginlegt við hinn vinnandi lýð í landinu, að þeir lifa á því að selja sína vinnu. Það er mjög órjettmætt, þó að svo hafi atvikast, að embættismenn eru yfirleitt ekki jafnaðarmenn, að vera að hreyta í þá hálfgerðum ónotum í sambandi við þetta mál.

Hv. þm. virðist hneykslast ákaflega mikið á því, að í brjefi embættismannanna til Alþingis fóru þeir fram á, að þeir yrðu undanþegnir tekjuskatti, og til vara, að þeir yrðu að minsta kosti lausir við hina fyrirhuguðu aukningu skattsins. Jeg skal fyrst taka það fram, að það er iðulega, að menn setja fram sem aðalkröfu fult eins mikið og það, sem þeir búast við að fá framgengt. En þegar hv. þm. dró af þessu þá ályktun, að embættismennirnir vildu vera eins og aðallinn og kirkjan forðum, var það mjög órjettmætt. Það kemur ekki heldur alveg heim við það, sem þessi háttv. þm. var að sýna fram á, hversu lítill hluti tekjuskatturinn væri af ríkistekjunum. Jeg skal nú sýna fram á, hversu lítið það er í raun og veru, sem hjer er um að ræða.

Það, sem embættismenn fóru fram á, var það, að þeim yrði greidd launauppbót eftir búreikningsvísitölu hagstofunnar. Við skulum segja, að þetta ár mundi uppbótin nema 50%, í stað þess að hún er 40%. Embættismaður, sem hefir 4000 kr. laun, fær 1600 krónur í uppbót, en myndi fá 2000 kr. uppbót, ef hún væri 50%. Hækkunin myndi því nema 400 krónum. — Lítum því næst á þá ívilnun, sem farið er fram á í brjefi embættismanna. Tekjuskattur af 5600 krónum er 76 krónur, ef við gerum ráð fyrir, að gjaldþegn væri kvæntur maður, sem ætti eitt barn, svo að 1500 krónur drægjust frá laununum. Ódæðið, sem hjer er verið að fara fram á, er þá það, að ef þingið sjer sjer ekki fært að samþykkja 400 króna uppbót, þá sambykki það 76 króna uppbót. En ef aðeins er tekinn skattaukinn 25%, þá nemur hann sem næst 20 krónum af þessum tekjum. Þetta á svo að heita, að verið sje að „privilegiera“ heila stjett manna, sem væri látin vaða uppi, undanþegin skatti og skyldum, líkt og aðallinn á miðöldunum!

Vitanlega er þetta bara form fyrir kauphækkun. Það er sannarlega hart, að rjett eftir að búið er að ákveða, hvað starfsmenn ríkisins þurfi minst til þess að lifa af, eru sett lög, sem taka af laununum aftur. Það gæti komið til mála, að ríkið borgaði embættismönnum sínum laun með því að láta þá vera lausa við beina skatta. Hitt nær vitanlega engri átt, að láta þá vera undanþegna tollum. En það er langt frá því, að jeg sje hrifinn af þessu fyrirkomulagi. Hitt álít jeg miklu betra, sem embættismenn fóru fram á fyrst. Jeg vildi aðeins sýna fram á, að þetta er ekki eins stórkostlegt ódæði að hv. þm. vill vera láta.

Þá kem jeg að því atriði, sem eiginlega kom hv. 2. þm. Reykv. af stað. Í brjefi embættismannanna stendur, að margir embættismenn borgi 300–400 krónur í tekjuskatt. Jeg er hræddur um, að það sje of mikið sagt. En af því er ekki hægt að reikna út, hve mikil laun þeir hafa. Ef þeir hafa svo miklu meiri árstekjur en laun þeirra nema, sýnir það þann sorglega sannleika, að fjöldi embættismanna verður að hafa allar klær úti til þess að leita sjer að aukastörfum. Það þarf að rannsaka og laga. Hitt þarf enginn að ætla sjer, að setja heila stjett manna niður í alveg nýja lifnaðarhætti. Að einstaka embættismaður komist svo hátt, er þá af því, að hann hefir orðið að leita eftir aukatekjum út um hvippinn og hvappinn. En að þeir sjeu margir, sem svo háar tekjur hafa, er ofsagt í brjefinu. Sjálfur hefi jeg aukatekjur og hefi fundið til þess, að embættið líður við það. Hefi þó aldrei komist svona hátt, (HjV: Aldrei!), að undanteknu einu ári, eins og jeg skýrði hv. þm. frá í einkasamtali nú nýlega, og var á leiðinní að segja nú, ef háttv. þingmaður hefði lofað mjer að lúka við setninguna. Mínar tekjur eru þó ekki duldar neinum, svo um undandrátt getur ekki verið að ræða.

Þá vildi hv. þm. hrekja mig mjög upp að veggnum, þegar hann var að lýsa því, hve illa jeg sæi fyrir hag míns kjördæmis, með því að vilja halda við gríðarmiklum tolli á kaffi og sykri, en mótfallinn hækkun á tekjuskattinum. Án þess að slíkur samanburður komi nú eiginlega þessu máli við, þá get jeg þó sagt það, að jeg tel mig nú fyrst og fremst skyldan til, þegar um þingmál er að ræða, að líta á þau með hag alls landsins fyrir augum. En sje farið út í það, að líta á þetta frá sjónarmiði því, er hv. þm. talaði um, þá er jeg ekki viss um, að hann græði á þeim samanburði, því jeg er hræddur um, að hann hafi misreiknað þar. Hann sagði, að kaffi og sykur væri mest notað í kaupstöðum. En jeg veit, að það er víða engu minna notað í sveitum. Á því heimili, er jeg ólst upp á, var sú mesta kaffi- og sykurnotkun, sem jeg hefi þekt á nokkru heimili, og var það í sveit. Jeg er hræddur um, að enn sje víða hitaður kaffisopi í sveitunum. — Mun þetta stafa af ókunnugleika hv. þm. Þá er að gæta þess, að kaffi- og sykurtollurinn kemur jafnt niður um land alt. En hækkun á tekju- og eignarskattinum kemur aðallega niður á Reykvíkingum. Landsreikningarnir fyrir 1926 sýna, að helmingur kaffi- og sykurtollsins hefir verið greiddur hjer í Reykjavík, en þess ber að gæta, að þó þessi tollur sje innheimtur hjer, þá er það aðeins af því, að vörunni hefir verið skipað hjer fyrst á land, þótt hennar hafi verið neytt víðsvegar annarsstaðar á landinu og tollurinn raunverulega greiddur þaðan. Það er því hátt áætlað, að hjer hafi verið neytt 1/3 af þessari vöru, eða með öðrum orðum, að 1/3 kaffi- og sykurtollsins hafi verið greiddur af Reykjavík. Er þá að vísu eyðsluhlutfallið hærra hjer en annarsstaðar. En jeg skal þó ganga út frá því, að svo sje. En 2/3 af tekju- og eignarskattinum kemur hjeðan úr Reykjavík. — Dæmið snýst því alveg við, þvert á móti því, sem ætlan hv. þm. var. En hjer við bætist það svo, að um grundvallarskoðunarmun er að ræða hjá mjer og hv. þm. um eðli þessara skatta, að því leyti sem þeir grípa inn í háttu manna og líferni. Annar tollurinn hvetur til sparnaðar, hinn dregur úr sparnaðarhugsun manna. Jeg fyrir mitt leyti er reyndar ekki viss um, að þetta hafi svo mikið að segja. Jeg held, að menn spari lítið við sig kaffi eða sykur, þótt tollurinn sje nokkuð hár. En geri það nokkuð að verkum, þá er það þó í sparnaðaráttina.

Þá er það alger misskilningur hv. þm., að nokkur hætta sje á því, að hjer komi upp „kapitalistar“. En það þýðir víst ekki að deila við hv. þm. um það, þar sem það er eitt af grundvallaratriðum jafnaðarstefnunnar að koma í veg fyrir það, að einstaklingum geti safnast fje til muna. En jeg held þó, að okkur væri betra að eiga nokkuð af efnuðum mönnum, svo við þyrftum ekki að sækja fje til útlendinga ávalt þegar um einhverjar framkvæmdir er að ræða hjer á landi. Altaf er hjer þörf fyrir miljónir á miljónir ofan árlega til allskonar nyt. samra framkvæmda. Ef þetta fje væri innlent, þá mundu líka atvinnuvegirnir standast betur við að borga sæmileg verkalaun. Hjer er ekki um að ræða annað peningasafn en smásparendur. Stærra fjármagnið situr alt fast í ýmsum atvinnufyrirtækjum. Jeg held, að menn megi vera óhræddir nokkur árin enn fyrir kapitalistum hjer á landi, þótt þessi tollhækkun sje ekki samþykt. Og það væri alveg óhætt, þótt einstaka manni væri gefinn tími og tækifæri til að skríða út úr mestu kreppunni. Þeir, sem hjer eru efnaðastir nú, eru þó ekki ríkari en það, að þeir myndu varla vera taldir efnaðir menn annarsstaðar.

Þá sagði hv. þm., að alt að 4 þús. kr. tekjum væri slept, af því að það borgaði sig ekki að vera að eltast við innheimtu á svo smáum upphæðum. En þetta er hugsunarvilla eða athugunarleysi, því það en ekki eins og skatturinn falli alvag niður af þessum lágu tekjum, þótt hækkuninni sje slept, og verður því jafnt eftir sem áður að eltast við þá alla. Það væri þó sönnu nær, að frekar borgaði sig að elta þessar smáupphæðir, ef skatturinn væri hækkaður á þeim lægri tekjum líka. En að jeg greiddi atkvæði með því, að hækkunin næði ekki til lægstu tekna, var af því, að jeg taldi alla hækkun rangláta, og vildi því bjarga því, sem hægt var að bjarga.

Það svar, sem jeg fjekk við þeirri spurningu minni, við hvað bæri að miða, þegar ákveða skyldi þessar 4 þús. kr. tekjur, sem undanþegnar eru hækkuninni, var æðióljóst. Jeg vil í fullu bróðerni benda hv. frsm. á, hvort ekki væri hægt að skilgreina þetta betur, svo ekki geti valdið ágreiningi við hvað er átt. Jeg býst varla við því, að þarna sje átt við brúttótekjur manna. En sje það ekki, — hvað má þá draga frá þeim? –Má draga fyrningu á eign, t. d. húsi, sem maður á, frá brúttótekjunum? Eða opinber gjöld? Eða hvað er það, sem draga má frá? Eða eru það eftir alt saman brúttótekjurnar, sem við er átt? Það þarf að tiltaka nánar, á hvaða stigi þessar 4 þús. kr. eru, sem eiga að vera undanþegnar hækkuninni.

Jeg er nú satt að segja hálfhræddur um, að þessi skattauki etist upp á þann hátt, að ver verði talið fram til skatts. Óánægjan með tekju- og eignarskattinn eykst við þetta, og vegna þess hve erfitt er að hafa eftirlit með framtali manna, sem atvinnu reka, þá er hætt við, að þetta leiði til frekari undanbragða. Hjá þeim, sem lifa á föstum launum, er þetta ekki hægt. Þeim er ekki undankomu auðið. Löngun flestra er nú sú, að komast sem mest hjá útgjöldum. Og eftir því sem þessir skattar verða meira hækkaðir, eftir því vex löngun manna að koma sjer undan að greiða þá. Enda er nú svo, að hvorki hv. þm. nje aðrir munu vera trúaðir á það, að góð framtöl náist. — En máske ætti nú hv. þm., sem er hagfræðingur, að vita og geta sagt, hvað langt er óhætt að ganga á þessu sviði. En mjer kæmi það ekki á óvart, þótt skattur þessi, þegar búið er að hækka hann, lendi að mestu leyti á þeim, sem af föstu kaupi lifa. Jeg er hræddur um, að það verði kapp hjá kaupmönnum, handverksmönnum o. fl. að koma tekjum sínum niður í þessi 4 þúsund. Jeg tel því mjög vafasamt, að þetta nái þeim tilgangi sínum að auka tekjur ríkissjóðs. Verst af öllu er þó, að ekki verður hægt að sjá það eftir á, hvort þetta lánast eða ekki, svo ekki verður hjer um neina reynslu að ræða, sem hægt væri að byggja á í framtíðinni.