29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3891 í B-deild Alþingistíðinda. (3527)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Haraldur Guðmundason:

Jeg hefi lítið lagt til þessara mála hingað til, en tel þó ekki rjett að þegja alveg við ræðum hv. 1. þm. Reykv. Þeir, sem móti frv. þessu hafa lagst, hafa látið í veðri vaka, að með samþykt þess værí einkum og aðallega veitst að embættismönnunum. Einkum hefir hv. 1. þm. Reykv. lýst með dökkum litum hinni illu meðferð, sem þeir yrðu fyrir. –(MJ: Og aðrir starfsmenn og launamenn!). Hv. þm. talaði aðeins um embættismennina. En þótt hinir sjeu teknir með, breytir það engu. Flestir þessara manna starfa fyrir laun, sem eru lægri en 4000 kr. á ári. T. d. eru það aðeins elstu prestar, sem hafa yfir 4000 króna árslaun, en prestastjettin er fjölmennasta embættismannastjettin, að undanteknum barnakennurum. Símamenn, póstmenn og barnakennarar eru allir fyrir neðan þetta lágmark, 4 þús. kr. árstekjur, nema þá örfáir yfirmenn. Sama er að segja um skrifstofufólk og verslunarfólk. Þar er ekki um svo háar árstekjur að ræða, nema þá örfárra yfirmanna, sem lengi eru búnir að starfa og hafa þá venjulega talsvert hærri laun.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, og hefir oft sagt áður, að launakjör embættismanna margra væru óhæfilega lág. Þetta er alveg satt. Það er til dæmis óhæfilega lágt að borga prestum sem byrjunarlaun 2000 kr., eða með dýrtíðaruppbót um 2800 kr. Þessir menn eru búnir að stunda nám í mörg ár og eru því einatt illa staddir fjárhagslega. — En vitanlega nær ekki hækkun tekjuskattsins til þessara nje annara lágt launaðra manna. En launamálið er hjer ekki til umr. nú, og skal því ekki farið lengra út í það.

Í þessum umr. um þetta mál, hækkun á tekju- og eignarskatti, hefir verið gerður samanburður á því og lækkun kaffi- og sykurtollsins, sem samþ. var nú fyrir skemstu. Jeg skal nú athuga þennan samanburð og byggja á þeim tölum, sem hv. andmælendur þessa frv., sem hjer liggur fyrir til umr., hafa haldið fram, að væru rjettar.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að skattur af 4000 kr. árstekjum væri 72 kr. Sami hv. þm. taldi, að Reykvíkingar mundu neyta 1/3 af því kaffi og sykri, er til landsins flytst, eða borga 1/3 af kaffi- og sykurtollinum, en það verða þá 350 þús. kr. Jeg held nú að vísu, að þeir greiði meira en þetta af þeim tolli, en skal þó reikna með þessari upphæð. — 20% lækkun á kaffi- og sykurtollinum nemur því fyrir Reykjavík kr. 70000.00. Álagning kaupmanna á þá upphæð nemur minst kr. 15000.00, eða samtals kr. 85000.00. sje gert ráð fyrir því, að hjer í Reykjavík sjeu 4000 heimili, þá kemur á hvert heimili kr. 21.00 lækkun. Nú er skattur samkvæmt framansögðu af 4000 kr. 72 kr. 25% hækkun á þá upphæð verða 18 kr., eða með öðrum orðum 3 kr. minna en lækkun kaffi- og sykurtollsins. Ef gert er ráð fyrir fimm manna heimili með 6500 kr. tekjum og 2000 kr. í frádrátt, þá verða eftir 4500 kr., og þá stendur þetta í járnum. Fjölskyldumenn, sem hafa undir 5000 kr. skattskyldar tekjur, tapa því engu við þetta. Það er þá fyrst, þegar tekjurnar fara að verða háar og ekki minni en 8–10 þús. kr., sem útgjöldin aukast verulega vegna þessara breytinga. Og svo vitanlega á einhleypum mönnum, úr því kemur yfir 4000 kr. lágmarkið. Það verður því, ef þessi frv. verða samþykt, lækkun á þeim tekjuminni, en hækkun á þeim, sem hafa miklar tekjur, og það tel jeg rjettmætt. Jeg vildi benda á þetta, af því að andstæðingar frv. hjeldu því fram, að verið væri að þyngja skatta á embættismannastjettinni yfirleitt.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að ef þetta frv. yrði samþykt, þá mundi það leiða til þess, að skattaframtal mundi, versna að stórum mun. En jeg vil nú hreint ekki trúa því, að þetta verði svo. Mjer finst alveg ósæmilegt að bera landsmönnum slík skattsvik á brýn. Í öðru lagi bera slík ummæli vott um lítið traust til skattanefndanna, sem eiga að sjá um, að rjett sje talið fram. Og í þriðja lagi sje jeg ekki annað en að ef menn hafa tilhneigingu til að svíkja þennan skatt, þá verði sú tilhneiging og möguleikinn til að framfylgja henni nákvæmlega sá sami eftir sem áður. Jeg sje ekki, að neinir nýir möguleikar sjeu skapaðir fyrir menn til að svíkja skattinn, þótt hann verði hækkaður um 25%.

Það er rjett, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að það stendur ómótmælt, að þótt þessi skattur verði hækkaður um 25% , þá verða þó beinu skattarnir þrátt fyrir það aðeins lítill hluti af tekjum ríkissjóðs, en það er spor í rjetta átt, að hækka skatta á einhleypingum, þeim sem háar tekjur hafa, og gróðafjelögum.

Hv. þm. sagði, að um það yrði ekki deilt, að gott væri að hafa meira af kapitalistum en hjer væri. Jeg skal ekki deila við hann um það nú. Enginn mælir því í gegn, að gott væri, að íslenska þjóðin hefði yfir að ráða meiru fjármagni en hún nú hefir. En því fje væri áreiðanlega best, að þjóðin sem heild hefði umráð yfir og eignarhald á, en ekki örfáir einstaklingar. Víst er gott, að menn safni sjer varasjóðum með sparnaði, en þó má minna á það, að slíkt sparifje má kaupa of dýru verði. Þegar sparnaðurinn stendur í vegi fyrir því, að ríkið geti lagt í arðsöm þjóðþrifafyrirtæki, þá er hann til ógagns, en þetta verður þegar fjeð er lagt í geymslu, eða þá vafasamar spekulationir, í stað þess að nokkur hluti þess renni til nytsamra framkvæmda ríkisins. Hitt er þó enn verra, ef svo mikil áhersla er lögð á að spara, að sparað er það, sem ómögulegt er án að vera án þess að bíða tjón á heilsu og þroska sálar eða líkama. Gildir þetta jafnt um þjóðina alla og hvern einstakling. Mín skoðun er sú, að besta geymsla fjárins sje sú, að leggja það í arðsöm fyrirtæki, sem skapa nýtt fje og nýja framfaramöguleika, að verklegar framkvæmdir og menningarbætur þjóðarheildarinnar sjeu besti sparisjóðurinn, sem landsmenn geta ávaxtað fje sitt í.