29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3894 í B-deild Alþingistíðinda. (3528)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki lengja umr. mikið. Hv. þm. Ísaf. sagði, að minni hluti embættis og starfsmanna ríkisins kæmist undir ákvæði þessa frv. um hækkun á tekjuskattinum, vegna þess hve flestir þessara manna væru lágt launaðir. En þetta er mesta fjarstæða. Hv. þm. þarf ekki annað en að fara upp í bæjarskrifstofu og athuga skattaskrárnar, til að sannfærast um, að þetta er ekki rjett. Háttv. þm. talaði í þessu sambandi um ýmsar stjettir manna. Hann talaði meðal annars um laun prestanna, en hann gleymdi því, að þeim er bætt upp með því að láta þá hafa góða bújörð, og getur búskapur á henni orðið til þess að koma þeim upp fyrir lágmarkið. Símalaunin eru að vísu lág, en mörgum þessara manna er borgað sjerstaklega fyrir ýmsa aukavinnu. Þótt því launin sjeu lág, þá komast þó flestir þessara manna upp fyrir lágmarkið með allskonar aukavinnu. Hv. þm. hefir brent sig á því, að hann hefir athugað launaskrána eina saman, en ekki raunverulegar tekjur manna samtals.

Þá reiknaði hv. þm. Ísaf., að niðurfelling kaffi- og sykurtollsins mundi nema meiru fyrir meðalheimili en hækkun tekju- og eignarskatts. Hv. þm. bar svo ört á, að jeg gat ekki fylgst með í reikningnum, en jeg skal trúa því, að hann hafi reiknað rjett.

Nú er sá munur á þessu tvennu, að annan gjaldstofninn má spara, en hinn ekki. Sá, sem vill spara, getur komist hjá því að greiða kaffi- og sykurtoll úr hófi fram, og það er ekki nema rjett að leyfa mönnum að komast hjá að greiða gjöld, ef þeir vilja leggja nokkuð á sig til þess. Hinn gjaldstofninn kemur jafnt niður á sparsömum og ósparsömum. Þar að auki er annað atriði, sem jeg hygg rjett vera, að kaffi og sykur er meðal þeirra vara, sem tekið er tillit til, þegar ákveðin er dýrtíðaruppbót, og þannig verður kaffi- og sykurtollur til þess að hækka dýrtíðaruppbótina, og yfirleitt er það svo með verðlag á slíkum vörum, að tekið er tillit til þess, þegar ákveðið er kaupgjald manna. Annars var það dálítið annað, sem við vorum að deila um samþingismennirnir, og það var, hvernig þessir gjaldstofnar kæmu niður á Reykjavíkurbúum. Skoðun mín er sú, að hækkun tekju- og eignarskatts komi harðar niður á Reykvíkingum en kaffi- og sykurtollurinn. Ef þessir gjaldstofnar nema 200 þús. kr. hvor um sig, þá greiðir Reykjavík 67 þús. kr., eða 1/3 þeirrar upphæðar, í kaffiog sykurtolli, en í hækkun tekjuskatts 133 þús. kr., eða 2/3. — Það er ekki til neins að drótta skattsvikum að mönnum. Það mun afarerfitt verk að leitast við að fá gefnar upp rjettar tekjur, og eftir því mun löngun manna vaxa til þess að hliðra sjer hjá að greiða skattinn, sem skatturinn hækkar og menn eiga erfiðara með að greiða hann.

Það hlýtur altaf að verða svo, að meira og minna af tekjunum kemst undan skatti, og verður við þetta að kannast í fullri hreinskilni.

Jeg get slept því að fara út í hinar almennu athugasemdir hv. þm. Ísaf. um það, hve æskilegt væri að fá fjámagn inn í landið. Það yrði svo langur „teoretiskur“ fyrirlestur að sýna muninn á skoðun jafnaðarmanna, sem vilja, sem mestar opinberar framkvæmdir, og hinna, sem byggja mest á einstaklingsframtakinu, að hann mundi endast í allan dag. Jeg var að bíða eftir því, að hv. frsm. meiri hl. tæki til máls, til þess að geta svarað honum um leið, en honum þóknaðist ekki að biðja um orðið fyr en nú, að jeg er dauður, svo að jeg get ekki svarað honum.