16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3925 í B-deild Alþingistíðinda. (3550)

77. mál, einkasala á síld

Frsm. minni hl. (Halldór Steinsson):

Hv. síðasti ræðumaður taldi lögin um sölu á síld frá 1926 hafa verið hættuleg, vegna þess að leppmenskan hefði getað blómgast nyrðra í skjóli þeirra. Þetta er misskilningur, því að í lögunum er gert ráð fyrir, að fyrstu árin skipi ríkisstjórnin alla stjórn samlagsins. Lögin miða þannig að því að útiloka leppmenskuna, og jeg vænti, að full trygging megi teljast fyrir því, að ríkisstjórnin fari ekki eftir hagsmunum leppanna í mannavali sínu. Ef menn eru hræddir við, að lepparnir geti náð of miklum tökum, eftir að stjórnarkosningin er komin í útflytjenda hendur, þá er hægurinn hjá að lengja tímann, sem ríkisstjórnin skipar mennina. En vafalaust má gera ráð fyrir, að lepparnir hverfi þegar á fyrstu árum einkasölunnar, og er þetta þá óþörf grýla.

Þá mintist háttv. þm. á Útgerðarmannafjelag Akureyrar og kvað mig ekki hafa farið rjett með meðlimafjölda þess. Jeg þóttist hafa haft þessar upplýsingar úr áreiðanlegustu átt, sem sje frá hv. þm. Ak. sjálfum. Jeg heyrði ekki betur en hann segði á nefndarfundi, að fjelagsmenn væru 5 eða 6, og hefir mjer þá misheyrst hraparlega, ef hann hefir nefnt aðra tölu. — Þetta verð jeg að taka fram mjer til afsökunar, enda þótt það sje ekki vandi minn að hlaupa með það, sem gerist á nefndarfundum; og þetta bar saman við fregn frá öðrum manni þar nyrðra, og þegar svo var, að fregnunum bar saman, þá taldi jeg mjer óhætt að koma fram með þetta hjer. En jeg mun að sjálfsögðu trúa háttv. frsm. meiri hl., að hjer sje um misskilning að ræða.

Þá hjelt hv. þm. Ak. því fram, að með frv. þessu væri fengin meiri trygging fyrir því, að mál þetta yrði ekki pólitískt, en með lögunum frá 1926. En þar er jeg á gagnstæðri skoðun. Jeg tel minni ástæðu til þess, að mál þetta sogist inn í pólitískan flokkadrátt, ef ríkisstjórnin skipar stjórn þess, heldur en ef hún er skipuð af einstökum flokkum þingsins, því að jeg hygg, að flestir sjeu sammála um það, að hvaða stjórn sem sæti við völd, myndi telja það siðferðislega skyldu sína að láta ekki alt of mikinn flokkslit sjást á skipun slíkrar stjórnar.