10.02.1928
Neðri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

7. mál, skógar, kjarr og lyng

Frsm. (Lárus Helgason):

Eins og hv. þdm. hafa eflaust tekið eftir, þá eru ekki nema 4 nefndarmenn skrifaðir undir þetta nál. En það kemur af því, að einn nefndarmaður, hv. 1. þm. Árn. (JörB), var fjarverandi. Hefir hann því vitanlega óbundnar hendur í þessu máli. Eins og sjest á nál., hafa þessir 4 nefndarmenn lagt til, að frv. sje samþ. óbreytt. Er því varla ástæða til að halda langa framsöguræðu um málið. Þó vil jeg minnast lítið eitt á 2. gr. frv., vegna þess, að helst mætti ætla, að hún gæti valdið misskilningi. Það er ekki útlit fyrir, að hún geti átt víða við. skógræktarstjórinn álítur, að ekki sje nema um 2–3 slíka staði að ræða hjer á landi. Einkum mun hann hafa átt við Þórsmörk, er þessi gr. var samin. Annars sker atvmrh. úr ágreiningi, er verða kann um þessa gr. En um fje, sem sjálfkrafa rennur á slík ógirt lönd, er það að segja, að til þess nær þessi gr. auðvitað ekki, því slíkt er ekki hægt að banna.

Jeg geri ráð fyrir, að jeg þekki einn staðinn af þessum 3, sem skógræktarstjóri talaði um. Það er Núpsstaðaskógur. Væri heimild þessi notuð, þá kæmi það í bága við notkun bóndans á Núpsstað á greindu landi, sem hann má alls ekki missa af að nota og sem engin ástæða væri að koma í veg fyrir á nokkurn hátt. Að vísu hefir hann þar ekki fje yfir veturinn, aðeins á sumrin. En svo hagar til, að hann verður að reka þær kindur, er hann hefir þar, í apríl, vegna jökulvatna, sem eru á leiðinni og ófær eru, þegar kemur fram á vor. Nefndinni þótti rjett, að á þetta væri minst í framsögu, þar sem um svo fáa staði er að ræða hjer á landi, sem frvgr. getur átt við. — Þá hefir skógræktarstjóri minst á það við nefndina, að hann sje ekki ánægður með eitt orð í 7. gr. frv., þar sem skógarvörðum er heimilað að leyfa eigendum eða notendum að hafa fje innan hins girta svæðis til 1. nóv., ef hið girta svæði er stórt og í því skóglaus mýrarsund o. s. frv. Hann telur, að þar hafi orðið þau mistök, að í stað „skógarvörður“ hafi átt að standa: atvinnumálaráðherra eða skógræktarstjóri. En nefndin var ekki á sama máli og hann um þetta og vill láta gr. standa óbreytta. Hún telur, að skógarvörður, stöðu sinnar vegna, muni hafa betra vit á og vera kunnugri en atvmrh. um, hvað óhætt sje í þessu efni. Jeg tel svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. Jeg vona, að það nái fram að ganga og að það geti orðið skógræktinni að liði, svo að hún gangi betur hjer eftir en hingað til á þessu landi.