24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3941 í B-deild Alþingistíðinda. (3566)

77. mál, einkasala á síld

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg sje ekki ástæðu til þess að svara hv. 1. þm. Reykv., vegna þess að ræða hans var mestmegnis andmæli gegn einkasölu yfirleitt, en minni hl. vill einmitt fella þetta frv. og að lögin um síldarsamlag frá 1926 komi ekki til framkvæmda á þessu ári. Ef sá vilji nær fram að ganga, þá verður tækifæri til að ræða síldarmál aftur á næsta þingi, því að jeg býst þá við, að þetta frv. yrði aftur lagt fyrir þingið.

Annars er afstaða minni hl. sú, að hann viðurkennir, að það er óumflýjanlegt að gera óvenjulegar ráðstafanir til þess að bæta síldarverslunina. Ennfremur viðurkennir hann, að hvergi beri jafnlítið á kostum og jafnmikið á göllum frjálsrar verslunar sem í þessari verslunargrein. Þetta viðurkendi jeg með því að ljá lögunum frá 1926 atkvæði mitt, og þegar minni hl. mælir í gegn þessu frv., þá er það fyrst og fremst vegna þess, að hann telur þetta frv. standa að baki lögunum frá 1926.

Samkvæmt lögunum er það svo, eins og menn ef til vill hafa áttað sig á, að atvmrh. hefir heimild til að veita fjelagi atvinnurekenda leyfi til einkasölu á útfluttri síld. Slíkt fjelag hefir verið stofnað fyrir alllöngu; það er búið að semja lög fyrir þennan fjelagsskap, þau hafa verið gaumgæfilega athuguð, og jeg get sagt frá því, að fjelagið hefir í hyggju innan skamms að sækja um þessa heimild til atvinnumálaráðuneytisins. Það er þess vegna ráðherranum í sjálfsvald sett, hvort þau lög koma til framkvæmda, svo ef menn geta á annað borð fallist á það, að lögin sjeu ekki verri en það frv., sem hjer liggur fyrir, þá finst mjer, að sá flokkur, sem nú styður hæstv. ráðh., geti eins vel sætt sig við þá heimild, sem í lögunum er, eins og þá skyldu, sem frv. fer fram á. Þegar jeg tala hjer um frv., þá á jeg þar með við frv. á þskj. 234, og þegar jeg tala um lögin, þá á jeg þar með við lög, mig minnir nr. 54 frá 1926.

Það, sem okkur minnihlutamönnum þykir skifta aðalmáli um mismuninn á frv. og lögunum, er stjórnarfyrirkomulagið. Eftir lögunum er ætlast til, að atvmrh. útnefni stjórnina í fyrsta skifti til fjögurra ára. Ef jeg man rjett, þá er það samt svo, að eftir tvö ár gengur fyrsti maðurinn úr stjórninni, og síðan einn maður árlega, en eftir að þeir hafa gengið úr stjórninni, kjósa fjelagsmenn sjálfir stjórnina.

Eftir frv. aftur á móti, þá á 5 manna útflutningsnefnd að hafa yfirstjórn fyrirtækisins, og þessi útflutningsnefnd á svo að kjósa tvo framkvæmdarstjóra. í hópi þeirra manna, sem fylgdu lögunum frá 1926, voru allmargir íhaldsmenn, en það er kunnugt um þá menn, að þeir fylgja yfirleitt frjálsri verslun. Með stuðningi við þetta mál munu þeir hafa lýst yfir því, eins og raunar er rjett, að margt fer miður en skyldi við síldarsöluna. Hinsvegar er það fullvíst, að þessir menn munu hafa álitið það langheppilegustu leiðina út úr þeim ógöngum, sem Íslendingar eru komnir í um þennan atvinnurekstur, að sjálfir atvinnurekendurnir hefðu bundist samtökum, án afskifta löggjafarvaldsins. Hinsvegar er það kunnugt, að ýmsir þeir menn, sem reka þessa atvinnu í eigin nafni, eru aðeins verkfæri í höndum útlendra manna, sem hafa annara hagsmuna að gæta en þeir innlendir menn, sem reka atvinnuna fyrir eiginn reikning, og því er það sjeð, að ekki nást samtök, og þess vegna gengu íhaldsmenn, sem annars ekki vilja afskifti stjórnarvaldsins af atvinnurekstri einstaklinganna, inn á þá braut að veita atvmrh. heimild til að gefa fjelagi atvinnurekenda rjett til einkasölu á síld; en vegna þeirra manna, sem í raun og veru reka þennan atvinnuveg fyrir fje erlendra manna, þótti nauðsynlegt að gera einhverja sjerstaka ráðstöfun til þess að bægja þeim frá að ná völdunum í slíkum fjelagsskap, og því var að því vikið, að ráðherra skyldi í fyrsta skifti útnefna stjórnina, eins og jeg gat um. En hinsvegar var það trygt, að þetta vald ráðherra næði ekki lengra en aðeins til þess að fullnægja þörfinni á að bægja þessum svokölluðu leppum frá, og því var ráðherra aðeins falið að útnefna stjórnina um nægilega langt árabil, til þess að tryggja það, að lepparnir hefðu þá heltst úr lestinni. Menn gera sjer yfirleitt þær vonir, að ef sá, sem stendur að baki hins íslenska lepps, ekki getur notið þess hagnaðar, sem hann mundi hafa af að fá þá síld, sem leppurinn hjer á landi saltar, þá muni hinir erlendu menn bráðlega hætta við að reka þann atvinnuveg hjer á landi fyrir milligöngu leppanna. En eftir að þessu ástandi væri lokið, þá er svo til ætlast, að sjálfir atvinnurekendurnir taki stjórnina í sínar hendur, og á þessu er, eins og jeg gat um, höfuðmunurinn á frv. eins og það liggur fyrir og lögunum frá 1926. Það er sá veigamikli munur, að atvinnurekendur geta sjálfir stjórnað sínu eigin fyrirtæki samkvæmt lögunum, en hið opinbera skipar aðra til þess eftir sínum eigin geðþótta samkvæmt frv. Um þá tilhögun, sem frv. gerir ráð fyrir um stjórnarkosningu, vil jeg annars fara nokkrum orðum.

Það er gert ráð fyrir því, að Alþingi velji þrjá af fimm mönnum í útflutningsnefndina. Það er skoðun okkar minnihlutamanna, að þessi ráðstöfun sje sjerstaklega óheppileg og við þykjumst, án þess að sveigja um of að þingbræðrum okkar, geta sagt það, að í vali Alþingis hefir margt oft ráðið til jafns við hæfileikana, sem er miklu minna um vert. Hinsvegar álítum við, ef farið ’verður að tilmælum laganna, þannig að ráðherra yrði látinn tilnefna stjórnina, þá bæri ráðherrann einn alla ábyrgð á því, hvernig þeim mönnum færist verkið úr hendi, og við teljum mjög mikils um það vert, að ábyrgðinni yrði stefnt að einhverjum sjerstökum; en sú ábyrgð, sem á hvern einstakan þingmann myndi falla fyrir það, að hann með atkvæði sínu veitir sjerstökum mönnum stuðning, myndi verða svo lítil, að enginn fyndi til þess þunga, sem á hann legðist af þeim sökum. En samkvæmt lögunum er auk þess þetta vald ráðherra aðeins miðað við örfá ár, en síðan taka hluthafar sjálfir völdin í sínar hendur. Samkv. frv. á Útgerðarmannafjelag Akureyrar að tilnefna fjórða manninn í stjórnina. Þetta er mjög órjettlátt, því ef á að veita útgerðarmönnum nokkurn íhlutunarrjett, þá er með öllu borið niður á skakkan stað, þar sem Útgerðarmannafjelag Akureyrar er tilnefnt, því að þetta fjelag hefir hjarað með 6–7 meðlimum, sem litla atvinnu reka og lítið hafa látið til sín taka um atvinnumál. en t. d. hjer í Reykjavík er mjög voldugur fjelagsskapur um 20 ára gamall, sem hefir umráð yfir framleiðslutækjum, er jafngilda margfalt þeim framleiðslutækjum, sem Norðlendingar ráða yfir. Minni hl. hefir sett í nál. sitt nokkrar tölur, sem sýna það, að á síðastliðnu sumri nam afli þeirra skipa, sem heimilisfang eiga á Norðurlandi, ekki nema tæplega ¼ hluta þess, sem aflaðist á skip landsmanna, en af þessu má sjá, að það er handahófsákvæði að fá þeim mönnum einum völd í hendur, en útiloka alla aðra. Fimta manninn í útflutningsnefndina á svo Verkalýðssamband Norðurlands að tilnefna. Jeg veit að þetta er algert nýmæli í íslenskri löggjöf, að verkalýðurinn fái hluttöku í stjórn atvinnufyrirtækja til jafns við þá sem eiga framleiðslutækin, og jeg hygg líka, að þetta muni með öllu óþekt í nágrannalöndum okkar. Jeg beini því þess vegna til hv. deildar að athuga þetta gaumgæfilega, áður en hún leggur inn á þessa braut, því að vitaskuld verður löggjafinn, þegar slík nýmæli liggja fyrir, að athuga það, að ef hann leggur inn á brautina í einstöku tilfelli, þá er hætt við, að krafist verði fyr en varir, að lengra verði gengið á henni. Mjer þykir mjög eðlilegt, að þetta komi frá jafnaðarmönnum, en mjer þætti mjög undarlegt, ef meiri hl. þingsins væri orðinn það hlyntur stefnu jafnaðarmanna, að hann gerðist mjög taumljettur með þeim. Jeg vona því, að það náist breyting á þessu fyrirmæli við 3. umr. málsins.

Af smærri göllum þessa frv. vill minni hl. benda á það, að samkvæmt lögunum er rík kvöð lögð á það samlag, sem samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að stofnað verði, um markaðsleitir, en samkvæmt þessu frv. er miklu skemra gengið í því efni, en þó er það vitanlegt, að ein höfuðnauðsyn þessa atvinnurekstrar er einmitt það að afla nýrra markaða.

Þá vill minni hl. benda á það, að þau fyrirmæli, sem í frv. felast og miða að því að ljetta undir fjárhagsörðugleika framleiðenda meðan á framleiðslutímabilinu stendur, eru mjög lítilfjörleg. Það er svo fyrir mælt, að hin væntanlega stjórn fyrirtækisins megi taka lán og greiða eigendunum út á síldina, jafnóðum og þeir afhenda stjórninni hana, ,,enda hvíli engin önnur veðbönd á síldinni“. En nú vill svo undarlega til, að frá sama höfundi liggur fyrir þessu þingi annað frv., sem myndi, ef það nær lögfestu, að mestu leyti eyðileggja þetta ákvæði. Það frv. er um verkakaupsveð og tryggir verkalýðnum veð í síldinni, og eyðileggur því með öllu veðhæfi síldarinnar fyrir þetta fyrirtæki.

Þá vill minni hl. benda á það, að ef á annað borð á að ganga inn á þá braut að heimila stjórn fyrirtækisins að setja ákveðnar takmarkanir um það, hvenær fyrst megi byrja að salta og krydda síld og hvenær því skuli hætt, þá er alveg nauðsynlegt, að sjerstakar reglur gildi um reknetabátana, og svo aftur aðrar um herpinótaskipin. En jeg geri annars ráð fyrir, að hv. þm. Vestm., sem er með mjer í minni hl. sjútvn. í þessu máli, muni gera ítarlega grein fyrir þeirri hlið málsins.

Jeg ætla þá að gera örstutta grein fyrir brtt. hv. meiri hl. og athuga, hvort þær eru líklegar til að ráða bót á þeim göllum, sem jeg hefi talið vera á frv. umfram lögin, eða hvort þær að hinu leytinu færi mönnum nokkrar bætur, og það er þá skemst frá að segja, að allar brtt. hv. meiri hl. eru mjög smávægilegar og mjög óþarfar, vegna þess að þær hefðu komist fyrir innan laganna sem reglugerðarákvæði. Þó er ein undantekning frá þessu, og hún er sú, að hv. meiri hl. hefir ætlað að reyna að tryggja það, að framkvæmdastjórn einkasölunnar gæti aðstoðað „viðskiftamenn hennar um útvegun á tunnum og salti til verkunar síldinni“, eins og hv. meiri hl. kemst að orði. En þessi góðvilji hv. meiri hl. hefir samt að engu orðið, sennilega vegna mistaka; að minsta kosti er það víst, að eins og hv. meiri hl. hefir orðað það, eru þessi ummæli með öllu gagnslaus, og það er vegna þeirra skilyrða, sem þau eru bundin, að þessari „aðstoð“ fylgi engin fjárhætta fyrir einkasöluna, en af því leiðir þá, að sú fjárhætta, sem af kynni að verða, verður að vera á kostnað framkvæmdastjóranna sjálfra, en af því leiðir aftur, að framkvæmdastjórarnir myndu með öllu ófáanlegir til að taka á sig slíka fjárhættu fyrir viðskiftamenn einkasölunnar, enda er þess tæplega að vænta, að þeir viðskiftamenn einkasölunnar, sem ekki eru einfærir um að afla sjer tunna og salts, geti sett örugga tryggingu, og jafnvel þótt þeir geti gert það, er varla þess að vænta, að nokkur framkvæmdastjórn vildi taka á sig áhættuna, sem altaf verður einhver, því að jafnan orkar tvímælis, hvert gildi tryggingin hefir, og getur oft orðið röskun á gildi tryggingar, frá því að sett er og þar til hún kemur til framkvæmda.

Ef að því er spurt, hvað útgerðarmenn sjálfir segi um þessi mál, þá er þar skemst frá að segja, að útgerðarmenn hafa haldið fjölmennan fund um málið, og til þess að þreyta ekki hv. deild með málalengingum, vil jeg aðeins leyfa mjer að lesa upp þá samþykt fundarins, sem þetta mál snertir. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundurinn mótmælir ríkiseinkasölu, í hvaða mynd sem er, meðan útgerðarmenn hafa ekki aðgang að fullkomnum síldarverksmiðjum“.

Þessi tillaga var samþykt með 89:37 atkv., og kom eitt atkvæði fyrir hvert skip, sem stundað hafði síldveiðar á síðastliðnu sumri. Auk þess munu Siglfirðingar hafa sent skeyti sjerstaklega, þar sem þeir hafa mótmælt einkasölunni, og er þá ekki ofsagt, þegar sagt er, að mikill meiri hluti útgerðarmanna hafi sent eindregin mótmæli gegn því, að síldareinkasalan komi til framkvæmda, fyr en ríkið eða útgerðarmenn hafi nægum verksmiðjum yfir að ráða. Minni hl. hefir ekki viljað kveða upp úr um það, hvert sannleiksgildi felist í þessum mótmælum, en minni hl. bendir á það, að frá því 1926, að lögin voru samin, hefir aðstöðumunurinn breytst ákaflega mikið um að taka til greina þær óskir, sem útgerðarmenn bera fram í þessum efnum, vegna þess að árið 1926 bólaði ekki á neinum framkvæmdum hjá landsmönnum í þessum efnum, en nú má telja líklegt, að á þessu þingi nái lögfestu frv., sem miðar að því, að reist verði á sumrinu 1929 mjög stór og fullkomin verksmiðja, og þess vegna þyrfti ekki, eftir því sem nú standa sakir, annað til að fullnægja þessum einróma óskum útgerðarmanna en það eitt að fresta þessum framkvæmdum á einkasölu um eitt einasta ár. Minni hl. hefir því lagt til, að þetta frv., sem hjer liggur fyrir, verði felt, en að lögin frá 1926 verði ekki framkvæmd á þessu ári. Og ef samþykt verður það frv., sem hjer liggur fyrir og snertir stofnun síldarbræðslustöðvar, mætti á næsta Alþingi breyta og bæta að einhverju lögin frá 1926, svo að þau yrðu frjálslegri og fullkomnari. Þar með er þetta mál komið í það horf, sem þeir óska eftir, sem hlut eiga að máli.

Jeg vænti, að þetta geti náð framgangi í þessari hv. deild; jeg vænti t. d., að hv. frsm. meiri hl. geti aðhylst það að bægja frá þessu frv. og reyna heldur að fullkomna á næsta Alþingi lögin frá 1926, sem hann var sjálfur flm. að. (SvÓ: Nei). Hv. þm. mælti a. m. k. með lögunum sem sjávarútvegsnefndarmaður 1926, og ennfremur geri jeg mjer von um, að annar sjávarútvegsnefndarmaður, hv. 1. þm. Árn., geti aðhylst þetta, vegna þess að árið 1926 kvað hann upp þann úrskurð í þessu máli, að það kæmist aldrei í viðunanlegt horf, eins og hann komst að orði, nema því aðeins, að þjóðfjelagið eða fjelag einstakra manna keypti síldarverksmiðjur. Hv. þm. var þá ekki trúaður á, að takmarkinu yrði náð, nema með því að landsmenn eignuðust síldarbræðslustöðvar. Nú er það lagt fyrir hv. þm. að nýju, hvort honum þykir betra að rjúka til að samþykkja einkasöluna eða að bíða hins, að sæmileg trygging sje fyrir ágæti framkvæmdanna. Mjer finst, að betra sje að bíða, þar til bræðslustöðvar eru komnar á innlendar hendur, og jeg vænti þess fyllilega, að hv. þm. verði í samræmi við sína fyrri frammistöðu og undirtektir.

Mjer þótti ekki ræða hv. frsm. meiri hl. gefa mjer sjerstakt tilefni til andmæla, enda mun hann mjög hafa stytt sitt mál, vegna þess að þá voru færri áheyrendur en venja er til, þegar svo mætur þingmaður talar. Jeg geri nú ráð fyrir, að hann færi fleiri rök fyrir máli sínu, og þykir mjer því rjettara að bíða með að svara, þar til hv. þm. hefir flutt nýja ræðu um málið.