26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3950 í B-deild Alþingistíðinda. (3568)

77. mál, einkasala á síld

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg hefi fáu að svara þeim hv. þdm., sem andmæltu þessu frv. við fyrri hluta þessarar umr. Sókn þeirra var ekki hörð eða veigamikil. Og jeg geri varla ráð fyrir, að um þetta þurfi að verða harðskeyttar umr., því að stefna frv. virðist vera sameiginlegt áhugamál beggja nefndarhluta. Báðir hlutar eru sammála um það, að einhverskonar einkasala þurfi að komast á, en þá greinir á um fyrirkomulagið.

Hv. 1. þm. Reykv., sem annars andmælti frv., kannaðist líka við það, að annmarkar hefðu verið á sölufyrirkomulaginu, og það mjög miklir. Hefðu þeir meðal annars lýst sjer í því, að fjöldi manna, er fengist hefði við þennan atvinnurekstur, hefði gengið frá honum snauður og slyppur. Hv. þm. sagði líka ýmislegt, sem átti víst frekar að vera til gamans heldur en til þess að sannfæra áheyrendur. Hann vildi meðal annars bera í bætifláka fyrir síldarleppana og sagði, að mörgum mundi bregða við, ef þeir hyrfu úr sögunni alt í einu. En kringilegast fanst mjer þó það hjá honum, er hann fór að tala um, að skeð gæti, að ríkisleppar, er hann nefndi svo, mundu koma í stað útlendingaleppanna, ef landrækir yrðu. Get jeg ekki vel hugsað mjer slíkar verur eða skilið, hvernig hv. þm. hugsar sjer, að þær líti út. Yfirleitt virtist andstaða hans gegn frv. ekki róttæk, og hann hefir það sameiginlegt við meiri hl. að vilja koma upp síldarbræðslustöð, en nafnið ríkiseinkasala virtist snerta hann óþægilega.

Eitt var það í ræðu hv. þm., er mjer fanst helst líkjast ímyndunarveiki en það var óttinn við reiði Svía, ef einkasala kæmist á og lepparnir yrðu landrækir. Hugði hann það geta orðið til þess, að vjer sættum ókjaraviðskiftum í Svíþjóð. Það getur náttúrlega vel verið, að Svíar styggist við brottrekstur leppanna, en það verður varla svo hættulegt, því þó þeir gangi úr skaftinu, þá koma altaf aðrir í þeirra stað. Og yfirleitt held jeg, að ekki sje mikil ástæða til að virða við þá viðskiftin undanfarið. En sjálfsagða viðfangsefnið næstu árin er að kynna íslenska síld á markaðinum utan Norðurlanda.

Hv. frsm. minni hl. lýsti greinilega afstöðu sinni til þessa máls, og er hann að vísu einkasölu fylgjandi, en leggur aðaláhersluna á það, að hún verði framkvæmd eftir lögunum frá 1926 um síldarsölu o. fl. Með öðrum orðum, að hún verði fengin í hendur einstökum mönnum, en ríkið hafi sem minsta hlutdeild í henni. Frá hans sjónarmiði er þetta mjög eðlilegt og ekki nema von, að hann líti svo á. Jeg get t. d. hugsað mjer, að hann eftir ákvæðum þeirra laga yrði einn af forkólfum slíks einkahagsmunafyrirtækis. Veit jeg vel, að hann er dugandi maður og því sennilegt, að vel gæti gengið meðan hans nyti við. En það er svo um hann sem aðra dauðlega menn, að eilífur augnakarl getur hann ekki orðið við síldarsamlagið, og ekki er gott að segja um það, hver taka myndi við af honum eða hverjum treysta mætti.

Jeg er því á þeirri skoðun, og jeg held mjer sje óhætt að segja það sama um meiri hl. nefndarinnar, að þegar svo er komið þessari síldaratvinnu, að einstaklingarnir ráða ekki við hana án mikillar áhættu, þá sje eina úrræðið að skipulagsbinda hana og lögskipa einkasölu. Og jeg held því afdráttarlaust fram, að ríkiseinkasala sje þá miklu heppilegri en það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í lögunum frá 1926, því að þótt góðir menn veljist um stundarsakir til þess að veita forstöðu slíkri einstaklingastofnun, þá er það ekki trygt til lengdar. Ákvæðin um síldarsamlög í nefndum lögum frá 1926 tryggja þetta ekki svo örugt sje. Þar er kveðið svo á, að ríkisstjórnin skuli tilnefna stjórnendur fyrirtækisins til fyrstu 4 áranna. Eftir þann tíma getur ríkið ekki haft hönd í bagga með þessu, heldur ráða þá stærstu útvegsmenn öllu, sem með atkvæðafjölda eftir söltuðu síldarmagni geta setið yfir hlut allra þeirra efnaminni.

Hv. frsm. minni hl. tók fyrir ýms atriði úr till. meiri hl. og gagnrýndi þau, en um það skal jeg ekki elta ólar við hann. Aðfinslur hans skiftu ekki miklu máli og voru yfirborðslegar. Hv. þm. benti á það misrjetti, er til væri stofnað með þessu frv. milli landshlutanna, með því að binda stjórn einkasölunnar og framkvæmdir við Norðurland eingöngu, þótt meiri hluti þess fjármagns, sem notað yrði, kæmi úr öðrum landshlutum. Þetta hefir meiri hl. líka tekið til athugunar og komið með till., er fara í þá átt að draga úr þessu misrjetti. Annars á þetta ekki að koma að sök, vegna þess að ríkisstjórninni og Albingi er ætlað að ráða framkvæmdarstjórn að mestu og geta þannig hamlað því, að einstakir menn verði of sjerdrægir og einráðir.

Þess má hjer geta, að skýrsla sú er minni hl. birtir í nál. sínu um hlutdeild hinna ýmsu landshluta í síldveiðum, er að ýmsu leyti mjög villandi og röng. Þykist jeg sjá, að hún sje samin af einhverjum síldarútvegsmanni fyrir norðan og að eingöngu sje miðað við síldveiðar frá Siglufirði og Eyjafirði. T. d. er þess getið í skýrslu minni hl., að frá Austfjörðum hafi verið aðeins 3 herpinótaskip og 3 netabátar að veiðum. Það má vel vera, að ekki hafi verið fleiri austfirsk skip að veiðum nyrðra, en á Austfjörðum voru a. m. k. 4 herpinótaskip, er ekki fóru norður, og auk þess fjöldi báta, sem áttu við síldarveiði. Og ef skýrslan er jafnóáreiðanleg um aðra landshluta sem Austfirði, þá legg jeg ekki mikið upp úr henni. Hinsvegar er það alkunnugt, að flest skipin og stærst hafa verið frá Suðurlandi, og ef byggja ætti á eða miða við landfræðilegt sjónarmið, þá væri mikil ástæða til þess, að einkasalan hefði aðalbækistöð sína hjer sunnanlands. En síldveiðarnar eru stundaðar austan-, norðan- og vestanlands, en alls ekki hjer syðra, og þess vegna mælir einmitt margt með því, að miðstöð einkasölunnar verði sem næst miðju þessa svæðis.

Hv. frsm. minni hl. lagði mikla áherslu á þau mótmæli gegn einkasölu, sem komið hefðu frá síldveiðamönnum á Siglufirði og víðar að, t. d. þau, er komu frá fundi, er síldveiðamenn hjeldu hjer í Reykjavík fyrir nokkrum dögum. Um þetta var meiri hl. nefndarinnar vel kunnugt, en hitt var líka vitað, að fjöldi manna hefir tjáð sig fylgjandi till. meiri hl. og mælt með þeim, þó ekki hafi þessir menn gert með sjer samtök til andmæla, eins og þeir, sem eru andvígir stefnunni, og lepparnir að norðan.

Annars skal jeg geta þess, að þegar hingað bárust þessi kröftugu mótmælaskeyti Siglfirðinga, þá var þannig frá þeim gengið, að undir þeim stóð ekkert nafn, heldur aðeins talan 22. Seinna voru nöfnin að vísu send, en þá hafði nefndin tekið ákvörðun sína, og jeg býst nú satt að segja við, að þó þau hefðu komið fyr, þá hefði ekkert tillit verið tekið til þeirra. Sama er að segja um þau mótmæli, er komu frá síldveiðamannafundinum hjer. Þar var atkvæðagreiðslu svo háttað, að fjármagn gat atkvæðum ráðið. Á þennan hátt var hægt að búa til íþróttalegan meiri hl., enda voru á fundinum samþ. mótmæli með 87:37 atkv., og eftirlæt jeg hv. þdm. að meta, hve mikils virði þessi atkvgr. var.

Hv. frsm. minni hl. vildi draga dár að einni brtt. meiri hl., sem sje brtt. við 5. gr. Hún er þess efnis, að framkvæmdarstjórn einkasölunnar sje heimilt að liðsinna viðskiftavinum hennar um útvegun á tunnum og salti til verkunar síldinni, ef orðið getur án fjárhættu fyrir einkasöluna. Tók jeg svo eftir, að hv. frsm. teldi þetta ákvæði einskis nýtt og hjegóma einan. (ÓTh: Já, það er rjett). Þetta er þó hættulaust ákvæði og getur engu spilt. en óneitanlega getur það haft mikla þýðingu fyrir fjelitla skiftavini, að menn, sem reyndir eru að skilvísi, gefi yfirlýsingu um, að óhætt sje að trúa þeim í viðskiftum. Allir vita, að lánstraust byggist að miklu leyti á meðmælum skilríkra manna með lánbeiðanda, og get jeg af eigin reynslu fullyrt, að jeg hefi útvegað nokkrum mönnum lánstraust með ábyrgðarlausum meðmælum. Þetta ákvæði er því ekki óþarft, og þótt það verði máske ekki oft að liði, þá er það að minsta kosti skaðlaust. Annars skal jeg geta þess, að meiri hl. tók upp þessa brtt. fyrir orðastað einstaks nefndarmanns og fjellst á að flytja hana.

Jeg gat þess í upphafi, að jeg mundi ekki fara vítt eða breitt til að lengja þessar umræður. Gæti jeg raunar látið hjer staðar numið. En hv. frsm. minni hl. kvartaði um það í lok ræðu sinnar, að ástæður mínar til fylgis við frv. væru nokkuð óákveðnar, og skildi jeg þetta svo, að honum hefði þótt skorta á rök frá minni hálfu, er jeg mælti fyrir frv.

Hv. þm. sagði, en mun nú hafa tekið sig á því, að jeg hefði verið einn af flm. síldarsölufrv. 1926. Þetta hefi jeg þegar leiðrjett, enda var þetta rangt hjá hv. frsm. Jeg studdi frv. 1926, af því að jeg sá, að ekki mundi kostur annars betra á því þingi. Og jeg kaus heldur að fylgja því þá en láta þessi mál alveg reka á reiðanum eins og áður án alls skipulags. Rökin fyrir fylgi mínu við þetta frv., sem hv. frsm. minni hl. segir skorta, hefi jeg áður talið, og þau eru alkunn. Auðvitað er fylgið á því bygt, að jeg tel þetta frv. betra en lögin frá 1926 og líklegra til að bera góðan árangur. Jeg tel einkasölu öruggari í höndum ríkisins en einstakra manna, sem ósýnt er, hversu reynast, og að vonum eru oftast sjálfum sjer næstir. Einn er sá megingalli á lögunum frá 1926, að þar var atkvæðamagnið fengið þeim mönnum aðallega, sem yfir mestu fje hafa að ráða í útgerðinni. Verð jeg að telja slíkt fyrirkomulag bæði ótrygt og hættulegt, því að ekki er víst, að þessir menn finni til ábyrgðar að sama skapi og þeir hafa mikil fjárráð.

Áður en jeg læt útrætt um þetta mál, skal jeg aðeins minnast á brtt. á þskj. 574. Jeg drap mjög lauslega á þær síðast, en skal geta þeirra nú, af því að hv. flm. er viðstaddur. Þær hafa að vísu ekki verið bornar undir nefndina. En jeg hefi athugað þær lauslega, og að því búnu þykist jeg geta aðhylst 3 þær fyrstu, en þeirri síðustu treystist jeg ekki til að greiða atkv. Sama hygg jeg, að mjer sje óhætt að segja um hv. meðnefndarmenn mína í meiri hl.