26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3979 í B-deild Alþingistíðinda. (3572)

77. mál, einkasala á síld

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg er einn af þeim þremur, sem skrifað hafa undir nál. meiri hl., og finn því ástæðu til að gera frekari grein fyrir aðstöðu minni til málsins. Jeg fyrir mitt leyti hefði helst kosið, að frv. á þskj. 46 hefði verið lagt hjer til grundvallar, þar sem gert er ráð fyrir ríkiseinkasölu á síldinni, með þeim tryggingum, sem hún felur í sjer fyrir alla, sem að atvinnuveginum standa. En þar sem þess var ekki kostur, var ekki um annað að gera en fylgja því frv., sem næst gekk í áttina til betra skipulags en það, er við nú búum við, sem að flestra dómi, er til þekkja, fyrir löngu er orðið óhafandi. Jeg ætla ekki að halda því fram, að þetta skipulag, sem felst í frv., sje ágallalaust, en við höfum viljað draga úr þeim með brtt. okkar.

Það, sem nefndarhlutana greinir hjer á um, er ekki það, að skipulagsbinda þurfi síldarsöluna, heldur hitt, hvernig það eigi að gera. Þess vegna verður að finna skipulag, sem hægt sje við að una, en um hitt má altaf deila, hvort hjer er þrædd heppilegasta leiðin.

Við höfum svo sem ekki farið varhluta af þeim skoðunum manna, hvorki í sjútvn. nje annarsstaðar, að heimildarlögin frá 1926 ættu fremur að koma til framkvæmda heldur en einhver ný lög, sem sett yrðu á þessu þingi. Um þetta virðist allur ágreiningurinn vera.

Það hefir komið skýrt fram hjá hv. frsm. minni hl., að hann vill gylla það fyrirkomulag, sem felst í heimildarlögunum frá 1926. Í raun og veru er ekki hægt að finna mikinn eðlismun á stjórn þessa fyrirtækis, þegar borin eru saman heimildarlögin frá 1926 og frv. það, sem hjer liggur fyrir. Eftir frv. eins og það er nú er Alþingi ætlað að velja þrjá menn, fjelagi útgerðarmanna á Akureyri og Siglufirði einn og Verkalýðssambandi Norðurlands einn. Og það er sú höfuðgoðgá í augum hv. minni hl., að verkalýðsfjelögin skuli hafa hlutdeild um skipun eins manns í útflutningsnefndina. En verkalýðurinn á sjó og landi hefir engu minni hagsmuna að gæta en atvinnurekendurnir, að þessi atvinnuvegur fari vel úr hendi, og er því vel við eigandi, að hann eigi mann í stjórn þessa fyrirtækis. Það má að vísu segja, að þetta sje nýmæli hjer á landi, en erlendis er það mjög að ryðja sjer til rúms, að verkalýðurinn hafi hönd í bagga um stjórn ýmsra atvinnufyrirtækja. Þar á jeg við rekstursráðin, sem verið er að koma á í ýmsum löndum. Að því er síldarútveginn snertir, þá verður því ekki neitað, að þar á verkalýðurinn mikið í húfi. Reynslan hefir líka sýnt, að þó þjóðfjelaginu í heild hafi blætt vegna þess skipulagsleysis, sem ráðið hefir um þennan atvinnuveg, þá hefir verkalýðnum ekki síður blætt og á því um sárt að binda.

Það hefir verið bent á, að eins og frv. ætlast til, að stjórn einkasölunnar verði kosin, hljóti hún að verða pólitísk. Hjer eru þrír flokkar á Alþingi, sem allir mundu hafa áhrif á þessa stjórnarkosningu. Það hefir verið bent á, að það væri afaróheppilegt, að Alþingi velji menn í stjórn þessa fyrirtækis. — En hvað er gert um Landsbankann? Sje það álitið gott og blessað, að Alþingi hlutist til um stjórn hans, þá ætti það ekki síður að mega í þessu tilfelli. Bankinn er stærsta peningaverslun landsins, en útflutningsnefndin stjórnar aðalsíldarverslun landsins. Hjer er um mjög hliðstætt dæmi að ræða.

Þá er það önnur höfuðgoðgáin, sem talin er á þessu frv., að norðlenskir útgerðarmenn komi til með að hafa alt of mikil áhrif um stjórn einkasölunnar. Það er sagt, að þeir sjeu einir 7 fyrir norðan, sem þessu eiga að ráða, en jeg held, að þeir sjeu fleiri, því jeg býst við, að þeir vilji láta telja með þá útlendinga, sem starfa hjer og eru orðnir búsettir í landinu. Það er að vísu satt, að á Vestur- og Suðurlandi eru það nokkrir menn, sem taka þátt í síldarútvegi, en á Norðurlandi er þetta aðalatvinnuvegurinn, og því ekki nema eðlilegt, að þeir álíti sig eiga að hafa mest að segja um þessi mál.

Að engan landsfjelagsskap þyrfti til þess að velja stjórnina, kom berlega fram á þingi 1926, þegar samlagslögin voru til umr.; ákvæðin sett svo þröng, að það voru aðeins tveir menn, sem gátu ráðið öllu í stjórninni. Valdið var bundið við tunnufjölda; með öðrum orðum, auðmagnið rjeði. Með þessu frv. hygg jeg, að þeir geti ekki orðið valdamestir, sem flestar hafa tunnurnar. Nú hefir það komið í ljós, að umboðsmenn erlendra síldarkaupmanna hafa mestu ráðið um síldarsöltun og síldarsölu. Innlendum mönnum að mestu bolað út af samkennismarkaðinum. Fjármagn vantar þá til þess að geta kent við hið erlenda auðmagn, sem lepparnir hafa yfir að ráða. Yfirráðin yfir atvinnuveginum hafa því lent í þeirra höndum, En úr þessu er bætt, þar sem Alþingi hefir íhlutunarrjett um að ráða 3 mönnum af 5 í stjórninni, og lepparnir því áhrifalausir, þó þeir hefðu einhver áhrif í gegnum útgerðarmannafjelag Norðurlands með val á einum manni, enda er ekki nema sjálfsagt, að reynt sje að ryðja þeim mönnum úr vegi, sem kunnugt er um, að reka erindi útlendinga. Alþjóð veit það mikið vel, að arðurinn af síldarversluninni hefir hingað til verið í höndum Svía og Norðmanna, og það er ekki nema eðlilegt, að Íslendingum blæði það í augum, ef svo á að vera áfram.

Að síðustu skal jeg taka það fram, að jeg hefi altaf verið þeirrar skoðunar, og er það enn, að síldarsölufyrirkomulag sem þetta eigi ekki að notast, nema hægt sje að tryggja hæfilegt verð fyrir þá síld, sem ekki er söltuð. Nátengt þessu máli er því síldarbræðslufrv., heimildin handa stjórninni að byggja síldarverksmiðjur. Einkasalan kemur ekki að tilætluðum notum, nema trygt sje jafnhliða, að komið verði upp síldarverksmiðju. Allir síldarútvegsmenn eru á sama máli um það, að einkasöluna eigi ekki að nota fyr en verksmiðjan sje tekin til starfa, og því eigi heldur að taka verksmiðju á leigu, ef ekki sje hægt að reisa nýja verksmiðju á þessu sumri og um leið að tryggja ísl. skipum að geta selt í þær verksmiðjur, sem nú eru til.

Annars vil jeg taka undir það með hv. frsm. meiri hl., að andmæli þau, sem komið hafa gegn þessu frv., eru ekki veigamikil, þegar þau eru krufin til mergjar.

Það hefir komið símskeyti norðan af Siglufirði, undirskrifað af 26 mönnum, sem leggjast á móti þessu frv. og sem hv. frsm. minni hl. hefir vitnað í. Nú hefir verið talað um, að á Siglufirði sjeu fáir menn, sem fáist við síldarsöltun. Jeg hefi fengið skilgreining á þessum nöfnum, sem undir skeytinu standa, og allmörg þeirra eru nöfn verkamanna, sem vinna hjá erlendum atvinnurekendum. Allmargir þeirra fást alls ekki við síldarútgerð eða verslun fyrir eiginn reikning. Einn maður skrifar undir fyrir 3 eða 4 útlendinga sem umboðsmaður þeirra. Þar eru menn, sem eiga hluti í litlum mótorbát. En mikill meiri hluti eru útlendingar eða umboðsmenn þeirra, sem undir þetta hafa ritað. Það lítur út sem íhaldssálirnar á Siglufirði hafi tjaldað öllu, sem til náðist og nógu þægir voru að undirskrifa mótmælin. Skeytið pantað af siglfirskum íhaldsmanni stöddum hjer í Reykjavík. Satt að segja legg jeg ekki mikið upp úr svona mótmælum.

Fyrir nokkru síðan var haldinn fundur hjer í bæ af „síldarspekúlöntum“ víðsvegar að til þess að mótmæla frv. Þar greindi menn mjög á um þetta mál, en fyrir sjerstaka lipurð fundarstjóra var þó hægt að samlaga sig um till., sem síðar var send Alþingi. Þó hefir orðið uppvíst síðan, að stungið var undir stól 18 atkv. að norðan, sem voru á móti þeim meiri hl., sem rjeði á fundinum. Af þingmálafundargerð frá Akureyri, sem liggur frammi í lestrarsal Alþingis, má sjá, að samþykt hefir verið í vetur fyrir fullu húsi, þar sem saman voru komnir sjómenn, verkamenn og útgerðarmenn, mjög einróma áskorun um það að koma á betra skipulagi um síldarsöluna, og þetta var samþykt án nokkurra mótmæla. Þeir menn, sem að þessari fundarsamþykt stóðu, vita, hvar skórinn kreppir, og því má fult tillit taka til þeirra, engu síður en þeirra, sem kalla sig útgerðarmenn. Enda virðist mjög erfitt að mæla á móti kröfum þeirra. Þess vegna get jeg verið fáorður um þær mótbárur, sem komið hafa fram; þær eru að mínu viti lítils virði. Annars skal jeg ekkert fara út í það, hvernig frv. er úr garði gert, eins og það nú liggur fyrir. Þeir hv. þdm., sem óánægðir eru með ýms ákvæði þess, geta borið fram brtt. um það við 3. umr.

Að lokum ætla jeg að segja fáein orð við hv. þm. Dal. Mjer fanst hann tala um þetta mál á nokkuð víðum grundvelli. (SE: Þá er að hrekja það, sem hann sagði). Hann sagði, að saltað hefði verið utan landhelgi síðastliðið ár um 200 þús. tunnur. Jeg hefi nú fyrir mjer Ægi, þar sem sagt er, að Norðmenn hafi saltað 181 þús. tunnur, og er það miklu meira en nokkurntíma áður. Þá er samtímis saltað innanlands um 234 þús. tunnur, og er það einnig nokkru meira en árið á undan. Nú eru menn nokkurnveginn sammála um það, að sænski markaðurinn þolir um 200 þús. til 250 þús. tn. þegar best lætur. Er því auðsjeð, að auka verður markaðinn, svo að hægt verði að tryggja hæfilegt verð fyrir þá síld, sem söltuð er, miðað við undanfarandi ár, eða þá að minka söltunina, svo trygt verði, að ekki berist óhæfilega mikið á markaðinn. En mjer er ekki kunnugt um, að síldarútgerðarmenn hafi reynt til þess að útvega nýjan markað, nema ef telja á þessa tilraun, sem gerð var í Rússlandi í haust, og voru þó margir þeirra á móti því. En sú tilraun var ekki gerð fyrir frumkvæði útgerðarmanna. En hvað sem þessu líður að öðru leyti, þá hefir reynslan sýnt, að frjálst framboð í þessari verslun gerir ekki annað en að setja verðið niður, og að frjáls samkepni er löngu dauðadæmd að því er þennan atvinnuveg snertir. En þar greinir okkur mikið á, hv. þm. Dal. og mig.

En það eru fleiri en við jafnaðarmenn, sem höfum augun opin fyrir því, að frjáls samkepni er ekkert annað en orð, orð og innantóm, sem því miður góðir og skýrir menn binda sig oft við af einhverri trygð og vanafestu.

Læt jeg svo lokið máli mínu að þessu sinni.