02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4021 í B-deild Alþingistíðinda. (3587)

77. mál, einkasala á síld

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Við 2. umr. þessa máls átti jeg ósvarað sex hv. þdm., sem í ræðum sínum höfðu vikið nokkrum orðum að mjer. En jeg fjell þá frá orðinu með það fyrir augum, að málið þyrfti ekki að tefjast, gæti komist undir atkvæði og haldið áfram til 3. umr.

Nú get jeg ekki með öllu leitt hjá mjer að svara þessum hv. þm. nokkrum orðum, en af því að viðhorf málsins er nú annað orðið, þar sem það er komið til 3. umr., skal jeg í svari mínu reyna að fara fljótt yfir sögu.

Þremur þessara hv. þdm. get jeg svarað í einu lagi, af því allir höfðu sömu aðstöðu til málsins og allir sama. textann að leggja út af í andmælum gegn frv. Þessir þrír voru þeir: Hv. þm. Dal., hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm., en forustan í þessu efni var hjá hv. þm. Dal.

Hann lagði allmikla áherslu á það, að með þessu frv. um einkasölu á síld væri hastarlega brotin stefna frjálsrar verslunar, og áleit hann, að afleiðingin hlyti að koma fram á oss með óvæntum hætti. Hann hjelt því fram, að þetta gæti leitt til þess, að við mistum samhygð grannþjóðanna og nytum ekki hjá þeim þess trausts, sem við annars mundum njóta. Hann hjelt því ennfremur fram, að sænskir síldarkaupmenn mundu snúa við okkur baki, sænski síldarmarkaðurinn lokast og að burtu mundu hverfa þeir milligöngumenn, sem orðið hefðu undanfarið okkur að liði, sem sje hinir svokölluðu leppar, sem oft hefir verið minst á í þessum umr.

Þá hjelt hann því líka fram með miklum alvöruþunga, að útlendingar mundu auka svo mjög síldveiðar utan landhelgi, að fullnægja mundi eftirspurn þessarar vöru á erlendum markaði, og yrði þá síld einkasölunnar óútgengileg. Að lokum vildi hann svo halda því fram, að með einkasölu skipulaginu væri fje ríkissjóðs stofnað í takmarkalausa hættu. Ríkissjóður þyrfti að leggja fram fje til kaupa á síldinni, sem ekki fengist endurgreitt, ef síldin seldist ekki, ganga í ábyrgðir o. s. frv., — tilgáta, sem enga stoð á í frv.

Undir þessa skoðun hv. þm. Dal. vildi svo hv. 1. þm. Reykv. skrifa, eða gera hans orð að sínum, eins og hann komst að orði; en bætti því við frá eigin brjósti, að af þessu skipulagi mundi leiða örbirgð og skort vegna atvinnuleysis í landinu, og í líkan streng tók hv. þm. Vestm., en gerði sjer þó ekki eins títt um að ógna með hörmungarástandi, sem af einkasölunni gæti leitt.

Jeg ætla mjer ekki að gera að umtalsefni þá skoðun hv. þm. Dal., að hjer sje um að ræða hættulegt brot á stefnu frjálsrar verslunar. Jeg hygg, að sú skoðun hans verði ekki tekin alvarlega af neinum. Enda er vitanlegt, og jafnvel viðurkent af ýmsum þeim sem hlyntir eru frjálsri verslun, að einmitt á þessu sviði sje nauðsynlegt að taka upp einkasölu. Hv. frsm. minni hl. sjútvn. kannast fyllilega við nauðsyn einkasölu í þessu efni.

Hjer þekkjast ýmsar einkasölur, sem vjer höfum haft með höndum og vitum fullvel, að þær hafa aldrei bakað oss álitshnekki hjá öðrum þjóðum.

Um sænska markaðinn er það að segja, að ekki kaupa Svíar alla síld hjeðan, og er víðar Guð en í Görðum. Markaðurinn er að þokast meira og meira suður á bóginn og líkur benda til þess, að hann verði einna bestur í Mið-Evrónu eða í Eystrasaltslöndunum, og jafnvel austur í Rússland er hann að færast, þar sem hann líka var endur fyrir löngu.

Um burthvarf þessara ágætu milliliða — leppanna —, sem hv. þm. sjer eftir, ætla jeg að vera fáorður. Jeg fyrir mitt leyti harma það ekki, þó að þeim fækki, eða að þeir hverfi alveg úr sögunni, enda held jeg vafasamt, að þeir hafi orðið oss til mikilla þjóðþrifa eða vegsauka.

Að einkasalan verði þess valdandi, að útlendingar auki veiði sína utan landhelgi, svo að markaðurinn yfirfyllist, held jeg, að sje óþarfur kvíðbogi. Þeir, sem ókunnugir eru veðurfari norðan og austan við land og vita ekki, hvernig þar hagar til um síldveiðitímann, þeir einir geta gert sjer þetta í hugarlund, en aðrir ekki. Það gera engir að gamni sínu að senda stóran síldarflota á veiðar og til síldarverkunar utan landhelgi, þar sem allra veðra er von og án þess að áður sje trygt, að hægt sje að losna við síldina, ef mikið veiðist, t. d. í bræðslu í verksmiðjur. Þeir, sem til þekkja, vita, að það er erfitt að hirða um síldina og gera hana að markaðshæfri vöru í misjöfnu veðri úti í rúmsjó. Þetta getur að vísu lánast í góðu veðri, ef veiði er lítil, en jeg held, að hver og einn reyndur og ráðinn veiðimaður mundi hugsa sig um tvisvar áður en hann sendi út stóran veiðiflota í þessu skyni, án stöðva í landi og án þess að geta stuðst við verkafólk úr landi til söltunar og verkunar síld. Þess vegna byggi jeg ekki mikið á hrakspám hv. andstæðinga um hættulega samkepni frá útlendum veiðiskipum utan landhelgi.

Því má skjóta hjer inn í til skýringar, að það, sem gert hefir útlendingum hægara fyrir að stunda veiði utan landhelgi undanfarið, er það, að þeir hafa getað selt síldina til bræðslustöðvanna í landi, þegar ekki var hægt að salta á skipsfjöl. Bræðslustöðvarnar hafa því verið sá bakjarl, sem trygði þessa menn fyrir tjóni, þegar of mikið barst að af síldinni, eða ófært reyndist að verka síldina í salt.

Nú er það á valdi stjórnarinnar, hvort veitt verður bræðslustöðvunum ótakmarkað leyfi til þess að kaupa síld af erlendum veiðiskipum. Það er að minsta kosti að því er Svía snertir engin knýjandi nauðsyn til að heimila mikla síldarsölu í landi, enda geri jeg ráð fyrir, að þeir leiti ekki mjög eftir þeim ívilnunum.

Sem stendur hefir engin síldarverksmiðja á Norðurlandi leyfi til þess að kaupa síld af erlendum veiðiskipum, nema Ægir í Krossanesi. Hann hefir á einhvern undursamlegan hátt náð í leyfi hjá hæstv. fyrverandi stj. 25. maí 1927, sem heimilar verksmiðjunni um tveggja ára bil að kaupa síld af ótakmörkuðum fjölda erlendra skipa. Hinar verksmiðjurnar allar verða að sækja um leyfi til ríkisstjórnarinnar til þess að geta keypt af erlendum skipum.

Að þessu öllu athuguðu og því, sem á undan er gengið, ætla jeg, að óþarft sje að gera mikið úr þeirri grýlu, að útlendingar auki svo mikið veiði sína utan landhelgi, að íslensk síld verði óseljanleg.

Um fjárhagslega áhættu ríkissjóðs af einkasölunni, sem hv. þm. Dal. gerði svo mikið úr, get jeg verið fáorður. Sjálft frv. ber ekki með sjer, að þar geti verið um neina áhættu að ræða fyrir ríkissjóð. Þó að gert sje ráð fyrir, að taka þurfi fje að láni til bráðabirgðagreiðslu síldar, þá liggur í hlutarins eðli, að það verður tekið í bönkum á ábyrgð síldareiganda og kemur ríkissjóði ekkert við.

5. gr. frv. gerir ráð fyrir, að einkasalan eða framkvæmdarstjórnin geti liðsint viðskiftamönnum einkasölunnar um útvegun á tunnum og salti. En þetta er í sjálfu sjer engin hætta, af því að það er tekið fram í gr., að því aðeins verði þetta gert, að engin fjárhætta fylgi því fyrir einkasöluna. Ríkissjóði getur því engin áhætta af þessu stafað. Hinsvegar getur framkvæmdarstjórnin liðsint á ýmsan hátt án nokkurrar áhættu fyrir einkasöluna, t. d. með því að gefa yfirlýsingu til lánardrotna aðiljanna um áreiðanleik viðskiftamanna, þegar þess er óskað og skilríkir menn eiga í hlut. Slíkar yfirlýsingar eru með öllu áhættulausar einkasölunni, en geta þó orðið útgerðarmönnum að miklu liði.

Um atvinnuleysið og örbirgðina, sem háttv. 1. þm. Reykv. hjelt, að mundi leiða af því, að frv. þetta yrði að lögum, finst mjer ekki taka að tala.

Þetta verð jeg þá að láta mjer nægja sem svar til þeirra hv. þm. þriggja, er jeg nefndi í upphafi, og ætla þá að gera hinum, sem eftir eru, örlítil skil.

Hv. þm. Borgf. hafði ýmislegt við frv. að athuga, en yfirleitt hnigu ummæli hans í þá átt að fá ýmsar endurbætur á frv., og liggja sumar þeirra nú fyrir í nýjum brtt., en yfirleitt vildi hann styðja frv. Jeg hefi ekki ástæðu til að vera óánægður með það, sem hann lagði til málanna. Að vísu voru þar tvö olnbogaskot til mín, sem jeg lít á eins og afsakanleg kunningjabýti. Hann mótmælti hv. þm. Dal, um það, að af einkasölunni stafaði fjárhætta fyrir ríkissjóð, og taldi það á misskilningi reist, sem líka er vafalaust rjett.

Eitt af því, sem hv. þm. Borgf. lagði allmikla áherslu á, var það, að fá breytt ákvæðum 6. gr., um heimild fyrir einkasöluna til þess að taka til afnota bryggjur og land einstakra manna, þegar þörf krefði. Mjer skilst, að þessi heimild sje alveg nauðsynleg. Hún byggist á 63. gr. stjórnarskrárinnar, sem heimilar í þarfir almennings, þó með sjerstökum lögum og gegn fullu endurgjaldi, að taka eignir einstakra manna og hagnýta. Ef þetta leyfðist ekki, er hætt við, að það gæti valdið vandræðum fyrir einkasöluna. Jeg held líka, að hv. þm. Borgf. sje farinn að líta öðrum augum á þetta ákvæði en áður og telji það ekki viðsjárvert.

Fáum orðum verð jeg að víkja að hv. frsm. minni hl. Hv. minni hl. hefir ekki að þessu sinni gert neinar ákveðnar tillögur í málinu, enda er mótstaða hans gegn frv. nú ekki eins ákveðin og við 2. umr. Virðist hann jafnvel tilleiðanlegur til að ganga inn á einhverskonar málamiðlun. Samt heldur hann því enn fram, að rjettara sje að halda við lögin frá 1926, og skal jeg ekki þræta um það við hann frekar en búið er.

Þá var hv. 2. þm. Eyf. með nokkrar átölur til mín. Hafði hann tvent að athuga sjerstaklega. Þótti honum það óheppilegt, að eftir frv. er einkasölunni ætlað að hafa heimili sitt og varnarþing á Akureyri, en hann vill hafa það á Siglufirði. Jeg held, að öllum, sem um þetta mál fjalla, að örfáum undanteknum, komi saman um það, að rjett sje að binda heimilið við Akureyri. Það er ekki síst af því, að á Akureyri eru lánsstofnanir, en engin á Siglufirði. Í öðru lagi má á það benda, að leiðir til Akureyrar eru öllu greiðari en til Siglufjarðar. Loks er ritsímasamband við Akureyri, en eigi við Siglufjörð; en eins og allir vita, kemur það ósjaldan fyrir, að talsímasambönd bila, þó að ritsímasamband haldist, og er því símasamband við Akureyri öruggara. Annað það, sem hv. 2, þm. Eyf. fann að, var það, sem hv. þm. Borgf. átaldi, sem sje ákvæði 6. gr. um það, að einkasalan megi taka bryggjur og land til afnota — ekki til eignar. Hefi jeg svarað þessu áður.

Þá var það eitt, sem hv. 2. þm. Eyf. fann ástæðu til að átelja mig sjerstaklega fyrir, að jeg hefði talað um norðlenska leppa. Honum þótti þessi titill, eða „nafnbót“, eins og hann nefndi það, ekki nógu vegleg. Má vera, að svo sje. En margir aðrir þdm. en jeg hafa leyft sjer að nota þetta orðatiltæki, og skal jeg nefna hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. G.-K. Ætla jeg, að þetta orð sje orðið fast í málinu og verði tæplega hrundið. Mun jeg ekki tjá mig frekar um þetta, en tel nafnbótina eftir atvikum viðeigandi og kannast ekki við, að hún hafi verið misnotuð af mjer.

Skal jeg svo víkja að brtt. Eru þær margar og virðist ekki gott að samræma þær. En yfirleitt má skifta þeim í tvo flokka, og lýtur annar flokkurinn að því að styðja stefnu minni hl., en hinn að því að styðja stefnu meiri hl. Skal jeg kannast við það, að ýmsar þessara tillagna get jeg vel felt mig við. Aftur á móti eru aðrar, sem mundu gersamlega kollvarpa tilgangi frv., ef þær yrðu samþyktar.

Fyrst kem jeg að brtt. hv. þm. V.-Ísf., á þskj. 616. Hún lýtur að því að fella niður þau ákvæði frv., sem koma við síldarmati og sett eru samkv. reglum þeim, sem gert er ráð fyrir, að gildi í sambandi við einkasöluna. Brtt. fer fram á að láta síldarmatslögin frá 1919 haldast í gildi. Jeg skal geta þess, að það, sem stuðningsmenn þessa máls hafa meðal annars haft fyrir augum, er að losna við gildandi síldarmat og kostnað þann, sem af því leiðir. Jeg hygg, að fullyrða megi, að fyrirkomulagið frá 1919 hafi reynst fremur illa og erlendir kaupendur hafi ekkert tillit tekið til matsins. Sje svo, er það aðeins til kostnaðarauka. Sje jeg enga ástæðu til að hafa hina lögskipuðu matsmenn áfram, þegar hægt er að fá aðra menn til að leysa starf þeirra af hendi, sem hafa skilyrði til að gera það betur. Hugsun okkar, sem viljum afnema matið, er sú, að framkvæmdarstjórarnir þrír komi í stað yfirmatsmannanna, en umboðsmenn þeirra samkv. 4. gr. í stað undirsíldarmatsmanna. Að hafa tvennskonar skoðunarmenn, bæði samkv. lögunum 1919 og frv., mundi leiða til þess, að enginn gæti áttað sig á takmörkunum milli verksviða þessara starfsmanna, hvorra fyrir sig, og kæmust þá tveir tígulkongar í spilin. Kostnaður sá — og hann er talsverður —, sem ríkið hefir haft vegna laganna 1919, mundi niður falla, ef frv. yrði samþ. óbreytt og brtt. á þskj. 616 fjelli eða yrði tekin aftur. Vildi jeg mjög mælast til þess, að hv. flm. tæki hana aftur. Jeg treystist ekki til að mæla með henni.

Þá kem jeg að brtt, hv. minni hl. sjútvn., á þskj. 654. Í þeim liggur aðalstefnumunurinn. 2 þeirra get jeg aðhylst, 4. brtt., sem er aðeins orðabreyting til báta, og 5. brtt., sem og gerir ákvæði frv. skýrari. En jeg treysti mjer ekki til að fallast á hinar, nema ef vera skyldi c-lið 7. brtt. Till. á þskj. 655, frá hv. 2. þm. Rang., er brtt. við till. á þskj. 654 og stíluð í sama anda. Get jeg auðvitað ekki aðhylst hana, því að hún gengur í móti stefnu meiri hl. sjútvn.

Hv. þm. Borgf. hefir borið fram brtt. á þskj. 657 og 673. Jeg tel þær allar til bóta og vil styðja þær, að frátekinni brtt. við 6. gr.

Þá er brtt. á þskj. 623, frá hv. 2. þm. Eyf. Jeg held, að hún geti ekki valdið skemdum á 1. gr. frv. Þar er aðeins gert ráð fyrir að færa nokkuð út heimildina til að leyfa útflutning utan einkasölunnar, þegar um er að ræða síld í dósum. Mæli jeg því með þessari brtt.

Alveg á þessari stundu hefir verið útbýtt brtt. á þskj. 677, frá hv. 2. þm. Rang. Að svo komnu get jeg ekkert fullyrt um afstöðu mína til hennar, en fljótt á litið virðist mjer hún ekki geta samþýðst þeirri stefnu, sem fyrir meiri hl. vakir.

Jeg veit, að ýmsir fleiri þurfa að taka til máls, vil ekki tefja fyrir þeim og skal því láta útrætt í bili. Vonandi gefst mjer færi á að taka aftur til máls, er jeg hefi heyrt hv. þdm. mæla fyrir brtt. sínum.