02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4036 í B-deild Alþingistíðinda. (3589)

77. mál, einkasala á síld

Magnús Guðmundsson:

Það voru aðeins örfá orð. Mjer var sagt, að hv. 1. þm. S.-M, hefði sagt það, á meðan jeg var úti, að verksmiðjan Ægir hefði í tvö ár fengið eitthvert undursamlegt leyfi til þess að kaupa síld af ótakmörkuðum fjölda skipa. Þessi undanþága er veitt samkvæmt lögunum frá 1922. Síðan þau gengu í gildi hefir verksmiðjan þrisvar fengið undanþágu. Fyrsta undanþágan var veitt árið 1923, og ekki af mjer, eins og gefur að skilja. Hún var á þann veg, að verksmiðjan mátti kaupa síld af ótakmörkuðum fjölda skipa. Þetta var fyrsta túlkun laganna. Árið 1925 veitti jeg svo verksmiðjunni undanþágu til þess að kaupa síld af ákveðnum fjölda skipa. Upp af þessu spratt mikil óánægja. Verksmiðjan hjelt því fram, að eftir samningunum við Norðmenn yrði að krefjast sama rjettar og áður en þeir voru gerðir. Það varð svo úr, að verksmiðjan fjekk samskonar leyfi og í fyrsta sinn, því að það þótti ekki í anda þessara samninga að herða meira að en gert var áður en samningarnir gengu í gildi.