02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4042 í B-deild Alþingistíðinda. (3591)

77. mál, einkasala á síld

Haraldur Guðmundsson:

Jeg skal hvorki vera svo langorður nje svo háfleygur sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Dal. Jeg á hjer eina litla brtt. á þskj. 671, sem jeg þarf að gera grein fyrir. En úr því að jeg er nú staðinn upp, þá skal jeg víkja fáum orðum að ræðu hv. þm. Dal.

Jeg hlýddi á ræðu hans með gaumgæfni og undraðist stórlega. Jeg skal þó játa, að jeg undraðist ekki sjerstaklega það, sem hann sagði, heldur öllu fremur það, sem hann gleymdi að segja.

Í niðurlagi ræðu sinnar talaði hann um spillingu þá, sem óumflýjanlega hlyti að þróast og dafna í kringum einkasöluna. Hann líkti henni við fjandann sjálfan með horn og klaufir. Þessi hv. þm. hefði ekki átt að vera að spá einkasölunni hrakspám; þær sýna aðeins hug hans í hennar garð, því að „falin er í illspá hverri ósk um hrakför sýnu verri.“ Hann hefði heldur átt að athuga ofurlítið það fyrirmyndar ástand, sem ríkir í síldarversluninni nú. Jeg veit ekki, í hvaða atvinnuvegi hjerlendum á að leita að spillingu og rotnun, ef ekki í síldarversluninni nú. Hvergi er jafnmikið um allskonar pretti, gjaldþrot, sviksemi. Því hefir verið marglýst yfir hjer á Alþingi, að mikill hluti þeirra manna, sem þessa atvinnu rækju, sjeu leppar útlendinga. Hv. þm. væri nær að athuga það, sem er að gerast nú rjett við nefið á honum, en að ryðja úr sjer illspám um einkasöluna. Þótt margir gallar kunni að fylgja einkasölunni, þá þarf meira en meðal bölsýni til þess að láta sjer detta í hug, að nokkuð svipuð spilling og óheilindi eigi sjer stað í sambandi við hana og nú vex og blómgast í skjóli hinnar frjálsu síldarverslunar.

Þá fór hv. þm. hjartnæmum orðum um það, að ef einkasalan kæmist á stofn, mundi hún verða sjerstök fríðindi fyrir efnamennina, en hinum fátækari yrði kastað út á gaddinn. Þetta er heldur ófögur lýsing, og er ekki að undra, þótt hv. þm. berjist móti einkasölunni, úr því hann lítur þannig á málið. En hvernig er farið með fátæklingana nú? Nú eru verkamennirnir aðallánardrotnar margra þeirra, sem gera út eða braska í síld. Þeir verða að lána verkalaun sín þeim, sem „spekulera“ með síldina. Sumir fá kaupið aldrei, sumir ef til vill eftir eitt eða tvö ár. Ef mikið aflast, er veiðinni hætt á miðju sumri og verkafólkið rekið heim. Svona er farið með fátæklingana nú. Hv. þm. væri nær að líta á þetta heldur en að vera að fara með órökstuddar spásagnir um einkasöluna, og benda þá á aðrar leiðir til umbóta, sem líklegra er, að komi að haldi. Það hefir hann ekki borið við að gera. Það er að vísu ekki aðaltilgangurinn með einkasölunni að gera aðstöðuna jafna fyrir alla, þótt jeg efi ekki, að hún í framkvæmdinni bæti nokkuð úr þeim göllum líka. Nú er aðstaða manna mjög ójöfn til þess að reka þessa atvinnu eins og hverja aðra, aðallega eftir efnahag og lánstrausti.

Hv. þm. hyggur, að veiði utan landhelgi muni færast í vöxt, ef einkasalan verður tekin upp. Um þetta má deila. Jeg hygg samt, að á því verði engin breyting, þótt einkasalan komi. Fyrsta skilyrðið til þess, að hægt sje að salta síldina utan landhelgi, er það, að tíðarfar sje sæmilegt. En jeg fæ ekki sjeð, að einkasalan geti gert nokkra breytingu á því. Það hefir verið saltað nokkuð utan landhelgi öðru hverju, mikið sum árin, en lítið önnur. Þegar fiskiveiðalöggjöfin var á ferðinni, var því haldið mjög á lofti, að Norðmenn mundu senda hingað flota stórra skipa, hafa flotstöðvar utan landhelgi og salta síldina þar; það væri fult eins auðvelt að verka síldina fyrir utan landhelgi, og engu dýrara. En reynslan hefir orðið önnur. Hún hefir sýnt, að það er stopult og áhættusamt að gera út hingað til lands flotstöðvar frá Noregi, þótt það geti hepnast við og við, þegar tíðarfar er stilt um síldveiðitímann. En á þessu verður engin breyting frá því, sem nú er, þótt einkasalan komi upp; fráleitt lægir hún vind og sjó.

Jeg tók eftir því, að hv. 1. þm. Skagf. var að gefa upplýsingar um, hvernig á því hefði staðið, að síldarverksmiðjunni „Ægi“ í Krossanesi var veitt leyfi til að kaupa ótakmarkaða síld af erlendum skipum. Það hefði bygst á því, sagði hann, að búið var að veita henni leyfið, áður en kjötsamningarnir voru gerðir, og að það hefði verið álitið þrengja of mjög kosti hennar, ef við loforðið hefði ekki verið staðið. Jeg hefi hjer í höndum skrá yfir leyfi þau, er verksmiðjunni hafa verið veitt til að kaupa síld af erlendum skipum. Það sýnir sig, að 30. júní 1923 er henni veitt ótakmarkað leyfi til að kaupa bræðslusíld af erlendum skipum um næstu tvö ár. En þegar þau tvö ár voru liðin, árið 1925, er henni aðeins veitt leyfi til að kaupa bræðslusíld af 10 erlendum skipum, og leyfið bundið við það sumar eingöngu. Þá hefir stjórnin haft nægjanlegan kjark til að takmarka leyfið, bæði tímann og skipafjöldann. 11. maí 1926 er verksmiðjunni leyft að kaupa síld til bræðslu af 10 erlendum skipum það sumar, eða jafnt og árið áður. En hinn 30. júní s. á. er svo Ægir farinn að færa sig upp á skaftið; þá er leyfið hækkað upp í 25 skip og tíminn lengdur í tvö ár. Og skömmu síðar, 14. ág. s. á., er Ægi enn veitt leyfi til að kaupa síld af ótakmörkuðum fjölda erlendra skipa út síldveiðitímann það ár. En ein syndin býður annari heim. Árið eftir, 1927, 25. maí, er verksmiðjunni enn veitt nýtt leyfi, þótt fyrri leyfistíminn væri eigi útrunninn. Þá er henni leyft að kaupa síld af erlendum skipum ótakmarkað um næstu tvö ár. Með öðrum orðum, þetta leyfi er rýmra en öll leyfin voru samtals árin 1925 og 1926. Úr því að það gat lánast 1926 að takmarka leyfin við ákveðinn tíma og skipafjölda, þá átti það ekki að vera síður hægt árið 1927. Jeg skal ekki bera brigður á það, að Krossaneshöfðingjarnir hafi sótt það fast að fá þessi leyfi, en fyrv. ráðh., hv. 1. þm. Skagf., bar auðvitað á annað fyrst að líta, þ. e. hag landsmanna. Hann var þá ráðh. Íslands, en eigi þjónn útlendra gróðamanna.

Út af skrafi hv. þm. Dal., þessarar höfuðkempu og riddara frjálsrar samkepni, vildi jeg aðeins minna á, að það er ein af höfuðtrúarsetningum samkepnismanna, að hin frjálsa samkepni verði til þess að lækka verð vörunnar, sem seld er. En hvernig fer þá, þegar hinni frjálsu samkepni er beitt við sölu eigin afurða? Hún lækkar auðvitað verðið. Það er sýnt og sannað árs árlega, að einmitt samkepni síldarkaupmanna lækkar verð síldarinnar.

Jeg skal taka það fram strax, að mjer dettur ekki í hug, þó að frv. verði samþykt, að ráðin verði til fulls bót á því ástandi, sem síldarverslunin er í nú, eða þeim málum komið í fullgott og varanlegt horf. Þótt við vöndum okkur eins og við getum við lagasmíð þessa, þá mun reynslan sýna, að það er ekki fátt í þessu frv., sem verður að breyta. Jeg fyrir mitt leyti álít, að annað fyrirkomulag en hjer er stungið upp á sje heppilegra. Öll síldarverslun ætti, að mínu áliti, að vera á einni hendi, undir einni yfirstjórn, hvort sem síldin er söltuð, krydduð eða sett í bræðslu. Verksmiðjurnar á að nota til að „regulera“ söltunina. Síðan ætti að jafna verð allrar síldar af sömu gæðum yfir veiðitímann, án tillits til þess, hvort hún er söltuð eða sett í bræðslu, enda er það á valdi síldarstjórnarinnar. Væri þá jafnan auðgert að takmarka söltun, eftir því sem þurfa þætti, án þess að gera mönnum verðlausan eða verðlítinn aflann úr því. Í aflaárum myndi saltað eins og markaðurinn frekast þolir án þess síldin fari niður úr sannvirði, en þá ætti að mega vænta góðs arðs af verksmiðjunum. Þegar lítið aflast, væri lítils arðs að vænta af verksmiðjunum, en þá yrði verð saltsíldar jafnframt hærra og bætti það upp. Jeg treysti ekki síldarútgerðarmönnum til að mynda fjelagsskap um þetta hvorttveggja, svo að í lagi væri. Ríkisrekstur er af þeim ástæðum auk annara heppilegri og eðlilegri, en hitt tel jeg fyrirkomulagsatriði, hvort stofnunin kaupir síldina af útgerðarmönnum eða greiðir þeim söluverð hennar að frádregnum kostnaði, tillögum til sjóða o. s. frv.

Mjer er það ljóst, að þessi lausn málsins fæst ekki á Alþingi nú, en ástandið, sem nú er, er alls óviðunandi. Með frv. er nokkur bót á því ráðin, og mun jeg því greiða því atkvæði, þótt jeg telji það langt frá því fullnægjandi.

Jeg mun ekki fara út í einstakar brtt. nú. Þær eru margar og flutningsmenn ekki búnir að tala fyrir þeim öllum.

En jeg verð þó að fara nokkrum orðum um brtt. mína á þskj. 671. Í frv., 4. gr. 1. lið, er sagt, að framkvæmdarstjórar skuli ákveða, „hvenær hætta skuli söltun og kryddun árlega eða verkun á annan hátt til útflutnings.“ Í 7. gr. er ákveðið, að ef ástæða sje til að óttast of mikla framleiðslu, geti útflutningsnefnd takmarkað hana „og ákveðið fyrirfram, hve mikla síld hver síldarframleiðandi megi verka til útflutnings“. Og í lok greinarinnar segir svo: „Fyrirframákvörðun nefndarinnar um síldarmagn hvers framleiðanda skal ekki vera því til fyrirstöðu, að nefndin slíti allri síldarsöltun, kryddun eða verkun á annan hátt samkvæmt 1. lið 4. gr., er henni þykir nauðsyn til bera, þó sumir hafi þá ekki verkað alla þá síld, er þeir höfðu leyfi til.“

Nú eru síldveiðar, sem kunnugt er, stundaðar með tvennum hætti aðallega, með herpinótum og reknetum. Herpinótaskip fá oft afla sinn á stuttum tíma og geta oft verið búin að fá mestan hluta aflans, þegar reknetabátar eru aðeins rjett byrjaðir að veiða; aftur á móti stunda þeir veiðar lengur fram eftir haustinu og fá oft mikið af sínum afla eftir að herpinótaskipin eru hætt veiðum. Ef ákvæði 7. gr. um að stöðva síldarsöltunina væru látin ganga jafnt yfir herpinótaskip og reknetabáta, þá gætu herpinótaskipin verið búin að fylla tunnufjölda sinn á þeim tíma, er söltun væri slitið, en reknetabátarnir ættu mikið eftir. En það er ranglæti að banna bátunum að fylla tunnufjölda sinn fyrir það eitt, að herpinótaskipin fengu afla sinn svo snemma. Brtt. mín fer fram á, að söltun sje ekki stöðvuð jafnsnemma hjá reknetabátum og herpinótaskipum. Öll sanngirni mælir með þessu. Segjum, að tvö skip væru gerð út, reknetabátur og herpinótaskip; hvort um sig fengi leyfi til að fylla 1000 tunnur. Herpinótaskipið fengi mestan afla sinn snemma á vertíð; það gæti verið búið að fylla tunnufjölda sinn í byrjun ágústmánaðar. En einmitt þá byrjar besti veiðitími reknetabátanna, og nær því alls ekki nokkurri átt að ætla þeim ekki lengri tíma til að fylla sínar 1000 tunnur.

Skal jeg svo ekki lengja umr. frekar að sinni.