02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4057 í B-deild Alþingistíðinda. (3594)

77. mál, einkasala á síld

Bernharð Stefánsson:

Eins og hv. þdm. muna, þá flutti jeg brtt. við 2. umr. þessa máls, er fór í þá átt að heimila innlendum verksmiðjum sölu til útlanda á síld, er lögð hefði verir í olíu eða krydd í dósum. Þessi till. var samþykt. — Jeg færði þá rök að því, að þær almennu ástæður, sem mæltu með einkasölu á saltaðri síld, ættu ekki við þetta. Jeg verð að álíta, að hv. þm. hafi fallist á þau rök, er jeg færði fyrir þessu, þar sem þeir samþyktu brtt. mína. Jeg get því verið ánægður með þau úrslit, þar sem jeg tel, að sú breyting hafi verið til bóta. En jeg tel þó, að fullskamt hafi verið gengið með þeirri till., og hefi því leyft mjer að bera fram aðra brtt., sem er á þskj. 623 og gerir þessa undanþágu nokkuð víðtækari, þannig, að undanþágan taki yfir beinlausa síld, þótt út sje flutt í stærri ílátum en dósum. Mjer er kunnugt um það, að það er ein verksmiðja, sem verkar síldina svo og hefir flutt hana út í töluvert stórum ílátum. En þessi vara hefði ekki komist undir ákvæði þeirrar till., sem samþ. var við 2. umr. — Það er alveg hið sama, sem mælir með þessari till. og hinni, og sje jeg því ekki þörf á að endurtaka það nú, og það því síður, sem hv. frsm. meiri hl. sjútvn. telur sig geta fallist á þessa brtt. Og eins og jeg tók fram við 2. umr. þessa máls, þá álít jeg, að þegar engin þörf er á, þá eigi ekki að hindra framtakssemi manna um að reyna nýjar leiðir, með því að leggja bönd á þá.

Við 2. umr. þessa máls tók jeg aftur eina brtt., er jeg átti þá, til 3. umr. Var hún þess efnis, að framkvæmdarstjórarnir megi ekki reka síldarútveg eða síldarsöltun. Jeg færði þá rök fyrir því, hvers vegna jeg flutti þessa till., en þótti þó rjett að taka hana til nánari athugunar, og tók hana þess vegna aftur þá. En niðurstaðan af þeirri athugun hefir orðið sú, að rjett sje, að þessi till. komi undir atkv. þdm. En þar sem jeg tók fram ástæðurnar fyrir henni um daginn, skal jeg ekki lengja umr. með því að endurtaka þær nú.

Hv. frsm. meiri hl. vjek nokkuð að því, er jeg sagði við 2. umr. — Það var þá fyrst út af þeirri till. minni, að síldareinkasalan ætti heimili og varnarþing á Siglufirði. Það er að vísu ekki þörf að ræða þetta nú, þar sem búið er að fella þessa till. mína, og getur hún því ekki komið til atkv. aftur. En undarlega vjek því við, þar sem hv. frsm. sagði, að öllum nema mjer hefði þótt rjettara að hafa stjórn einkasölunnar á Akureyri. Þetta getur tæplega verið rjett, því 8 þm. greiddu þó atkv. með till. Þá nefndi hv. frsm. það sem ástæðu fyrir því, að heimili einkasölunnar væri betur sett á Akureyri, að þar væri aðgangur að lánsstofnunum, en ekki á Siglufirði. Það er rjett, eins og nú er. En ef einkasalan kemst á fót á annað borð, þá hlýtur aðalstarfsemin að fara fram á Siglufirði. Verður þá óhjákvæmilegt að eiga aðgang að starfsfje þar. Úr því verður að bæta með því að setja þar upp lánsstofnanir. Enda býst jeg ekki við, að hjá því verði komist, að Landsbankinn setji þar upp útibú til að greiða fyrir viðskiftunum. Mun það reynast óhjákvæmilegt vegna síldareinkasölunnar, og eins þótt heimilið sje á Akureyri. Þá sagði hv. frsm. meiri hl., að leiðir væru greiðari til Akureyrar en Siglufjarðar. Hjer er nú ekki um annað en sjóleiðir að ræða, og sje jeg ekki, að þær sjeu að neinum mun erfiðari til Siglufjarðar en Akureyrar. Skipin, sem flytja fólkið hjeðan norður, koma öll við á Siglufirði. Jeg sje því ekki, að samgöngurnar þangað sjeu neinum erfiðleikum bundnar. Þá var hið þriðja, er hv. frsm. nefndi, að símasamband væri erfiðara á Siglufirði en Akureyri. Um þetta er alveg það sama að segja og um bankaviðskiftin. Úr hvorutveggja þarf að bæta, ef einkasalan á að geta þrifist, og eins þótt heimilið sje ekki þar.

Þá fór sami hv. þm. að afsaka það, að að því leyti, sem hann hefði talað um leppa, þá hefði það verið af því, að aðrir þm. hefðu notað það orð og þótt það eiga við. Þetta er nú misskilningur hv. þm. hvað mína ræðu snertir. Jeg hefi að vísu ekkert á móti því, að þeir menn sjeu kallaðir leppar, sem eiga það nafn skilið. En það, sem jeg sjerstaklega mótmælti, var, að hann talaði með almennum orðum um leppana að norðan. Jeg skal skilgreina nánar, hvað jeg á við. Jeg get t. d. alls ekki gengið inn á það, að allir sjeu leppar, sem eru á móti einkasölunni, þótt þeir hafi þessa skoðun á málinu. Jeg held, að hv. 1. þm. Reykv. hafi líka misskilið mig á þessu sviði. Hann sagði, að jeg hefði neitað, að leppar væru til, og átti það í hans augum að vera nokkurskonar rothögg á einkasöluna. En mjer datt ekki í hug að neita því, að leppar væru til, þótt jeg hinsvegar neiti því, að allir útgerðarmenn á Siglufirði sjeu leppar, eins og sumir virðast álíta.

Hv. þm. Vestm. beindi nokkrum orðum til mín, en þar sem sá hv. þm. er nú ekki viðstaddur, mun jeg að mestu leyti sleppa að svara honum. Hv. þm. talaði um, að mjer hefði láðst að geta um skeyti, er jeg hefði fengið. — Jeg veit nú satt að segja ekki, hvað hv. þm. varðar um þau skeyti, er jeg fæ. Jeg ætla aðeins út af þessu að lýsa því yfir, að jeg hefi engin skeyti fengið, sem jeg tel skyldu mína að skýra frá hjer. Jeg hefi auðvitað fengið mörg skeyti, en jeg lít á þau sem einkaskeyti, sem mjer sje alls ekki skylt að skýra hv. þm. Vestm. eða öðrum frá.

Jeg hefi enn ekki talað um málið alment, en aðeins út frá mínum till. Jeg ætla þó ekki heldur nú að tala um frjálsa verslun yfirleitt eða annað slíkt. En jeg vil taka það fram, að jeg lít ekki svo á, að hjer sje verið að taka upp einkasölu, sem ekki hafi verið áður. Nú eru í gildi lög frá 1926 um að veita fjelagi einstakra manna rjett til að hafa á hendi einkasölu á síld, og þá er aðeins um það að ræða, hvort við eigum áð láta þetta haldast eða að taka upp hitt skipulagið, sem hjer liggur fyrir, að ríkið hafi á hendi söluna. Jeg var á móti lögunum frá 1926, og þó að jeg greiði nú atkv. með þessu frv., þá er alls ekki þar með sagt, að jeg mundi hafa gert það, ef hin lögin hefðu ekki verið komin á undan, svo að einkasala er í lögum hvort sem er. Tel jeg þetta frv. aðgengilegra en lögin frá 1926.