02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4080 í B-deild Alþingistíðinda. (3599)

77. mál, einkasala á síld

Pjetur Ottesen:

Jeg vildi svara hv. frsm. minni hl. nokkrum orðum. Hann virðist vera farinn að afrækja síldarsamlagsfrv. sitt frá 1926 allmikið, þar sem hann var að mótmæla því, sem þá var helst talið til gildis þessu afkvæmi hans, nefnilega ákvæðinu um, að stöðva mætti söltun síldar.

Hann mótmælti því, að þetta ákvæði hefði verið talið mikilsvert, er þau lög voru samþ., og hefði verið neyðarúrræði. Þetta má til sanns vegar færa að því leyti, að það má segja, að frv. alt væri neyðarúrræði. En þá bar alls ekki á því, að honum væri þetta ákvæði um geð, og víst er um það, að hefði það ekki verið í frv., hefði frv. ekki orðið að lögum. Svo mikil áhersla var lögð á þetta þá. Um það er mjer fullkunnugt.

Það, sem okkur ber á milli, er það hvort hömlur þær, sem eftir verða í frv. á söltun síldar, verði nógu víðtækar, ef brtt. minni hl. um að fella niður heimild til að banna söltun síldar á veiðitímanum verður samþ. Jeg lít svo á., að svo sje ekki. Það hlýtur ávalt að vera ágiskun að meira eða minna leyti, hve mikið sje heppilegt að salta af síld, ef slíkt á að ákveðast fyrirfram, og þær breytingar geta ávalt komið fyrir á veiðitímabilinu, sem geri nauðsynlegt að stöðva alla söltun. Það er ekki hægt hjá því að komast að taka tillit til þess, hvernig veiðin gengur hjá Norðmönnum, enda þótt hv. frsm. minni hl. gerði lítið úr þeirri vitneskju, sem hægt væri að afla sjer um það. Norðmenn eru keppinautar okkar á síldarmarkaðinum í Svíþjóð, og verð síldar á þeim markaði fer auðvitað mjög eftir því, hvort afli Norðmanna er mikill eða lítill. Hv. frsm. minni hl. taldi erfitt að afla sjer upplýsinga um veiði þeirra. En kunnugir menn, sem jeg hefi átt tal við um þetta, telja þetta mjög vel hægt, því að skip Norðmanna koma oft inn á hafnir nyrðra og leggja einnig upp í bræðslu þar. Þá sagði hann og, að okkur gæti stafað hætta af því, ef það kvisaðist, að við höguðum veiði okkar eftir því, sem Norðmönnum gengi, því að það yrði til þess, að þeir ykju sína söltun eftir því sem við minkuðum okkar. En hvernig ætlar hv. frsm. að koma í veg fyrir, að fyrirframtakmarkanir þær, er hann fylgir fram, kvisist til Norðmanna? Mjer virðist, að þessi mótbára hv. þm. sje fremur fyrirsláttur en að hún hafi við rök að styðjast.

Hv. frsm. minni hl. talaði enn um þá hættu, að framkvæmdarstjórarnir sjálfir rækju síldarsöltun eða síldveiði, og væri þeim því mikil freisting að misnota heimildina um að stöðva söltun, er þeim sjálfum kæmi best. Jeg skal að vísu játa, að sá möguleiki er til, að þessir menn misbeiti aðstöðu sinni. Eins og jeg hefi áður tekið fram, þá fer um þessa síldareinkasölu ákaflega mikið eftir því, hvernig valið á mönnunum tekst. Komi óhlutvandir menn að fyrirtækinu, geta þeir sjálfsagt líka á öðrum sviðum misbrúkað vald sitt sjer til hagsbóta. Yfirleitt verður að óreyndu að bera það traust til þessara manna, að þeir geri ekki trúnaðarstörf sín sjer að fjeþúfu. En jeg álít, að sú hætta sje lítil í samanburði við þá hættu, sem af því leiddi, að heimildin yrði niður feld, svo að þannig gæti farið, að svo mikið af síld bærist á markaðinn, að verðið fjelli niður úr öllu valdi, eins og oft hefir komið fyrir áður. Fyrir þeirri hættu er ekki hægt að loka augunum. Til þess er reynslan of áþreifanleg.

Hv. frsm. benti á það, að þótt söltunin kynni að fara fram úr því magni, sem eðlilegt væri að salta, væri ávalt hægt að ráða bót á því, þar eð salan væri á einni hendi, með því að framkvæmdarstjórnin segði við Svía: Við flytjum þetta út af síld í ár, og ekki meira. Hinu, sem afganga yrði, yrði að ráðstafa á annan hátt. Því er ekki nema um tvær leiðir að ræða. Önnur leiðin er sú, að flytja þá síld, sem afgangs er, til annara landa en Svíþjóðar. Nú háttar svo til, að markaður fyrir íslenska síld er hvergi nema í Svíþjóð, að því frátöldu, að nokkuð var flutt til Rússlands síðastliðið sumar. Þó var verðið, sem fyrir hana fjekst, svo lágt, að ekki svaraði framleiðslukostnaði, og í dag hefir verið gefin heimild hjer í deildinni um að leysa síld þessa undan venjulegu útflutningsgjaldi.

Þá skildist mjer á hv. þm., að framkvæmdarstjórarnir ættu að leita sjer nýrra markaða fyrir verðgildi þessarar síldar að einhverju leyti. Jeg vil benda honum á, að eftir frv. má ekki verja nema ákveðinni upphæð, 12000 kr., í þessu skyni, en eftir brtt. minni má þessi upphæð nema 45 þús. kr. Sá möguleiki, að gera verð úr síldinni annarsstaðar en í Svíþjóð, hlýtur því að vera alltakmarkaður.

Þá er hin leiðin, að láta nokkuð af saltsíldinni í bræðslu. Jeg held, að það geti ekki talist neinn búhnykkur fyrir síldarframleiðendur að salta síld sína eftir kúnstarinnar reglum niður í tunnur, áður en þeir láta hana í bræðslu. Söltun síldar í hverja tunnu kostar um 14–15 kr. með tunnu, salti og öðrum kostnaði, og hlýtur því öllum að vera ljóst, að ekki er mikill hagur að því að bræða síld, sem svo miklu hefir verið til kostað.

Ef koma á í veg fyrir þennan höfuðgalla á síldarsölunni undanfarið, ofsöltuninni, þá má á engan hátt skerða þann íhlutunarrjett, sem framkvæmdarnefndin hefir samkv. ákvæðum frv.

Hv. frsm. minni hl. fór nokkrum orðum um það, sem jeg sagði um afstöðu hans og hv. þm. Vestm. til síldarsamlagslaganna frá 1926 og viðhorfið til bræðslunnar þá og nú. Vitanlega er enginn munur á ástæðunum nú eða þá, að öðru leyti en því, að ef verður úr hinu fyrirhugaða miljónafyrirtæki, síldarbræðslustöð ríkisins, þá liggur úrlausn í þessu efni nær nú en 1926. En hvað snertir heimildina um að stöðva söltun, er um engan mun að ræða nú eða þá, og geta þeir því ekki borið því við.

Hv. frsm. minni hl. sagði að lokum, að sjer hefði komið á óvart, að jeg sagðist mundu fylgja frv., ef brtt. mínar væru samþ. Jeg skal taka það fram, að ef brtt. minni hl. við 2. gr. yrðu samþ., yrði mjer enn ljúfara að fylgja frv. En jeg sje ekki neinn mun á því að fylgja þessu frv. og frv. 1926, ef þessar brtt. verða samþ. Eftir því frv. átti stjórnin að skipa þá menn, er veittu samlaginu forstöðu til að byrja með; fullkomin breyting á því hefði ekki orðið fyr en að 4 árum liðnum, og er ómögulegt að segja, hvernig þeirri skipun hefði verið hagað í framtíðinni, þar sem þessi mál heyra undir löggjafarvaldið. Þótt þetta frv., sem hjer liggur fyrir, verði samþ. eins og það er, gæti orðið breyting áður en varir. Í bátum tilfellum hefði á reynslutíma þessarar tilhögunar stjórn fyrirtækisins verið skipuð að opinberri íhlutun.

Mjer finst því undarlegt, þegar miðað er við afstöðu okkar beggja til frv. 1926, að við skulum ekki geta orðið samferða um tilraun á þessum grundvelli nú, úr því að ekki varð úr framkvæmd laganna frá 1926, sem stafaði af því, að ekki var uppfylt skilyrðið um, að samlagið tæki til starfa.

Mjer skilst, vegna þeirra brtt., sem hv. minni hl. hefir flutt, að hann muni ekki vera því fráhverfur að gera nú ítrekaða tilraun til þess að bæta síldarsöluna. Það er ekki venjulegt, að menn flytji brtt. við frv., sem þeir eru gersamlega mótfallnir og ætla að greiða atkvæði á móti, þó brtt. verði samþ. Jeg held því, að hjer sje stríð á milli holdsins og andans hjá hv. minni hl. um það, hvaða afstöðu hann eigi að taka til þessa máls. En ef miðað er við venjulega þátttöku þm. í löggjafarstarfinu, þá gefa þeir með brtt. sínum tilefni til þeirrar ályktunar, að þeir muni samþ. frv., ef þær ná fram að ganga. Annars væri hjer um óvanalegt fyrirbrigði að ræða.