02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4088 í B-deild Alþingistíðinda. (3601)

77. mál, einkasala á síld

Sigurður Eggerz:

Þetta skal aðeins vera stutt aths., því jeg geri ráð fyrir, að flestir hafi þegar fengið nóg af þessum umr., enda mun það ekki hafa áhrif á niðurstöðuna, þó umr. verði lengri. En mig langaði aðeins að benda á, að sú einkasala, sem hugsuð var með lögunum 1926, var í eðli sínu eins og sú, sem hjer er farið fram á. En hvers vegna var hún ekki framkvæmd? Það var af því, að þegar útgerðarmenn fóru að athuga sinn gang að íhuga þetta betur, þá varð niðurstaðan sú, að þeim þótti ekki ráðlegt að leggja út í einkasöluna. Auk þess mætti hugmyndin strax megnri andstöðu frá ýmsum hlutaðeigendum.

Það kom mjög við hjartað í hv. þm. Ísaf., þegar jeg mælti á móti einkasölunni, og þetta get jeg vel skilið, því allar þessar einokanir eru honum svo hjartnæmar, eins og flokksbræðrum hans, jafnaðarmönnunum. Alt stefnir í sömu áttina hjá þeim: Að ríkisrekstrinum.

Hv. þm. vildi ekki kannast við það, að þetta frv. gæti orðið til þess, að margir hinir minni máttar í þjóðfjelaginu gætu orðið hart úti. Og þó hann hafi mótmælt þessu með stórum og hljómmiklum orðum, verð jeg að segja það, að minna hefir þar gætt röksemdanna. Það er nefnilega nokkurnveginn ljóst, að með þessu fyrirkomulagi er verið að grípa fyrir kverkar þeirra smærri útgerðarmannanna. Því hvar eiga þeir að fá fje til rekstrarins? Já, það verður ekki annað að gera fyrir þá en að fá það hjá þeim, sem kaupa af þeim síldina. En jeg er hræddur um, að hringur þeirra manna verði mjög takmarkaður við einkasöluna, og verða þá þessir smærri alveg á valdi hinna. Er það heldur óskemtileg tilhugsun fyrir hv. þm. Ísaf., sem þykist vilja halda hlífiskildi yfir fátækari mönnum, ef hann styður svo að því, að þeim verði útskúfað, en sterkur varnargarður bygður um þá ríku og voldugu. Því ef því er slegið föstu, að ríkiseinkasalan megi ekki lána fje, þá veit jeg ekki, hvar þeir smærri eiga að fá lánað fje, ef það er ekki hjá þeim stærri. Þá var hv. þm. að tala um ástandið eins og það væri nú og lýsti því svo, að nú yrðu þeir hinir stærri útgerðarmenn að fá lán hjá verkamönnum til þess að geta haldið uppi rekstrinum. Jeg fæ nú ekki skilið, hvernig hann fær þetta út, en hitt ætti hann að athuga, að ef einkasalan kemst á, þá er það óhjákvæmilegt, að tala þeirra manna, er vinna að þessu, lækkar. Niðurstaðan verður því sú, að þetta einokunarfrv. er langt frá því að vera glæsilegt fyrir það fólk, er styður hv. þm. Það er með öðrum orðum til verndar hinum ríku, en til vandræða fyrir þá efnalitlu.

Jeg talaði um það áðan, að hætta væri á því, að spilling þróaðist í kringum þessa einkasölu. Út af því sagði hv. þm., að jeg hefði talað af fávisku um þá hluti og spurði, hvort jeg vissi ekki um alla þá spillingu, er nú þróaðist í kringum síldarútveginn. En það, sem jeg átti við, var fjármálaleg spilling. Að vísu þarf hún ekki endilega að koma, því sem betur fer eru til þeir menn, sem hún nær engum tökum á. En hinu er ekki að neita, að þegar svona mikil völd eru lögð í eina hönd, þá er freistingin til þess að misnota það vald ákaflega mikil.

Þá sagði hv. þm. Ísaf., að samkepnin yrði til þess að lækka verðið á síldinni. Það er nú að vísu svo, að þegar fleiri menn hafa sömu vöru á boðstólum, þá getur það orðið til þess að lækka verðið. Þetta þekkjum við t. d. frá fisksölunni, að illa getur farið, ef of ört er framboðið. En þessi annmarki leiddi til fjelagsskapar hjá ýmsum bestu útgerðarmönnum til þess að koma í veg fyrir það, að framboð yrði of ört á fiskinum. En höfuðgallinn á því, að alt sje á einni hönd, er það, að þá er hætt við því, að erl. kaupendur geri samtök um að halda verðinu niðri þangað til einkasalan er búin að selja. Jeg hefi sagt það tvisvar áður, og get gjarnan sagt það í þriðja sinn, að ef einkasalan á ekki að fá neina peninga, þá verður hún að selja strax, og það er svo hætt við því, að það fái þeir erl. kaupendur að vita, og haldi því verðinu niðri til þess er hún hefir selt. Niðurstaðan yrði þá sú, að þetta yrði ekki til ánægju fyrir innlenda framleiðendur, heldur til gróða fyrir þá erl. kaupendur. Svona er nú útlitið, og það er sannast að segja, að það er alt annað en glæsilegt. Það er því ekki nema von, að þeir; sem sjá, hvert stefnir og unna frjálsri samkepni, vari við því, sem er að ske.

Það er nú bráðum búið að samþykkja 3 einkasölufrv. á þessu þingi. Það er einkasala á tilbúnum áburði, síld, og svo ríkisrekstur á síldarbræðslustöð. Þetta þing er því komið alllangt inn á einokunarbrautina, og það sorglegasta við þetta er það, að svo er að sjá, sem margir, sjeu þegar búnir að missa sjónar á því, hvað það er þýðingarmikið fyrir þjóðina að halda í þá frjálsu samkepni.

Í 6. gr. frv. stendur svo, sem jeg með leyfi hæstv. forseta ætla að lesa upp: „Nú er nauðsynlegt, vegna einkasölunnar eða verkunar á síld til útlanda, að tryggja einkasölunni afnot af bryggjum eða landi, er einstakir menn eiga eða ráða yfir“. — Hvernig stendur á þessu ákvæði? Er það meiningin, að einkasalan sjálf hafi einhverjar slíkar framkvæmdir með höndum, eða á hún beinlínis að gera sjálf út? Líti maður á 2. gr. frv. og athugi þau afskifti, er Alþingi á að hafa af einkasölunni, sjer maður það, að Alþingi á að kjósa meiri hluta hinnar svokölluðu útflutningsnefndar. En hverja á að kjósa? Hvað veit Alþingi um það, hverjir eru færastir til þessa starfs? Þetta er ljóst dæmi þess, að Alþingi er komið inn á svið, sem er fyrir utan þess starfssvið. Jeg efast um, að Alþingi hafi nokkra hugmynd um það, hverjir eru heppilegastir til þess að standa fyrir þessu fyrirtæki. Og heldur er það óheppilega af stað farið, þegar Alþingi er falið að framkvæma þetta, þar sem það vantar þó öll skilyrði til þess að leysa þetta vel af hendi, því vitanlega vantar það alla sjerþekkingu í þessum efnum.

Jeg skal svo ekki þreyta menn með lengra máli um þetta, því jeg tel hvort sem er víst, að þetta frv. verði samþ. Hvort fleiri eða færri brtt. verða samþyktar, skiftir ekki miklu máli. Aðalatriðið er það, að á þessu þingi verður einokunin lögleidd. Og hræddur er jeg um það, að fljótt muni það koma í ljós, að þingið hefir hjer farið inn á skakka braut og að það muni sýna sig, að með þessu hefir ekki verið ráðin bót á vandræðunum, heldur munu þau aukast. Og vera má, að þegar reynslan, sem ætíð er ólýgnust, hefir fært mönnum heim sanninn um það, að hjer er verið á skakkri braut, að þá muni þeir iðrast mjög, er nú hafa barist mest fyrir því að koma einokuninni á.