02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4102 í B-deild Alþingistíðinda. (3604)

77. mál, einkasala á síld

Sigurður Eggerz:

Hv. þm. Ísaf. sagði, að hjer væri ekki um ríkisfyrirtæki að ræða. Já, það er nú svo. En þegar maður sjer, að jafnvel sameinað Alþingi á að skipa í stjórn fyrirtækisins, er ekki hægt annað en efast stórlega um það, að það beri ekki á sjer að einhverju leyti einkenni ríkisfyrirtækis.

En svo er annað. Jeg vil vísa í 5. gr. frv., þar sem stendur, að framkvæmdarstjórninni sje heimilt að taka fje að láni út á síldina. Hvað þýða þessi orð? Jeg get ekki skilið þau öðruvísi en svo, að hún eigi að taka lán á nafn einkasölunnar, Einkasalan á þá að vera lántakandinn, og þar með er í raun og veru búið að flækja ríkissjóði inn í þetta. Þó að hv. frsm. vilji skilja b-lið svo, að liðurinn þýði einungis að gefa mönnum meðmæli, þá er jeg óviss um, nema þetta verði skilið öðruvísi. Hv. þm. vildi ekki fallast á, að ef ríkiseinkasalan ljeti ekki fje til útgerðarinnar, væru hinir smærri útgerðarmenn illa staddir. En það liggur í hlutarins eðli, að einhversstaðar verða bátarnir að fá fje til rekstrarins. Og aðstaða þeirra til þess að fá lán er alt önnur, þegar þeir ráða yfir síldinni og geta veðsett hana, heldur en þegar aðrir ráða yfir henni. Það er ekki til neins að neita því, að þegar ríkiseinkasalan kemst á, þá verða hinir smærri útgerðarmenn ver úti, ef einkasalan lánar ekki til framleiðslunnar. Hv. þm. sagði, að munurinn yrði sá, að minna yrði gert út, og þá yrði markaðurinn takmarkaður. Það er nú svo. En við skulum hugsa okkur, að verulega lítið sje af síld og smærri útgerðarmenn gætu ekki gert út, af því að þá vantaði fje. Hvernig fer þá? Þeir fáu efnuðu geta gert út og taka þá auðvitað allan gróðann, en hinir smærri eða fátækari eru útilokaðir frá að koma til greina. Svona er nú umhyggjan hjá þessum hv. þm. fyrir smærri útgerðarmönnunum. (HG: Af hverju eru þeir útilokaðir?). Af því að þeir hafa engin ráð til að útvega sjer fje, önnur en að krjúpa á náðir þeirra fáu efnuðu útgerðarmanna, svo að þeir leggi þeim fje. En þar með er þeirra kosti þrengt.

Jeg vil aðeins benda á, að þegar verslunin með eitthvað er komin á eina hönd, þá er eðlilegt, að reynt sje á allan hátt að freista þeirrar einu handar. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. hafði eftir mjer um fiskmarkaðinn, þá sagði jeg, að ef margir byðu út fiskinn, gæti það orðið til þess að lækka fiskverðið. En jeg gat þess um leið, að útgerðarmenn væru farnir að veita þessu eftirtekt og hefðu ýmsir hinir bestu meðal þeirra gert samtök sín á milli til þess að koma í veg fyrir, að markaðurinn væri skemdur með of miklu útboði. En þrátt fyrir þessa galla, sem fylgja of miklu útboði, þá mundu þeir ekki verða margir í útgerðarmannahópnum, sem óskuðu eftir einkasölu á fiski. Sjálfsagt mundi einkasalan verða skoðuð banatilræði við útveginn. En ef á að ganga inn á röksemdir hv. þm. Ísaf., þá leiðir þetta lengra en til síldareinkasölunnar; það leiðir til þess, að alla verslun ætti að setja á eina hönd. Það er markið, sem stefnt er að. Jafnaðarmannaflokkurinn hjer á þingi er ýtinn flokkur. Hann reynir að lokka meiri hlutann inn á ríkisrekstur á öllum sviðum. Jeg sje, að foringi jafnaðarmanna stendur þarna og hvernig gleðin — skín út úr andlitinu við þessa hugsun, að fá sem allra fyrst alt á eina hönd, eintóman ríkisrekstur. Og þeir eru að draga mikilsráðandi menn í þinginu stig af stigi inn á þessa óheillabraut. Og hver veit nema fiskurinn komi á eftir síldinni. (LH: Það getur verið, að það verði heillabraut). Þetta þykir mjer leiðinlegt að heyra hjá mínum góða vini, hv. þm. V.-Sk., að það verði heillabraut að skapa einokun í fiskversluninni. Þetta er meira alvörumál en menn halda, þegar er verið að taka eitt og eitt mál út af fyrir sig. Menn segja, að það sje saklaust að hafa einokun á þessu og þessu, af því að verslunin sje óheppileg með þá vöru; en þó geta menn aldrei fært þessar „sjerstöku ástæður“ fyrir því að víkja frá grundvelli frjálsrar verslunar. En bak við liggur það, að ná öllu á eina hönd; aðferðin er að færa sig þrep af þrepi.

Jeg lengi ekki umræður með því að svara hv. frsm.; hann vildi lítið gera úr því, að það væri farið að veiða fyrir utan línuna; taldi ákaflega mörg og mikil tormerki á því. En hvað segir reynslan? Hún segir það, að á seinasta ári eru hvorki meira nje minna en 190 þús. tunnur veiddar fyrir utan línuna; og reynslan segir, að þessi veiði sje altaf að aukast. En svo sagði hv. þm.: Já, en það er önnur aðstaða nú, þar sem útlendingar fá sennilega ekki að veiða í verksmiðiu framvegis. En hver segir, að þeir fái ekki áfram að veiða í verksmiðju? Það er ekki búið að breyta neitt lögum um það. Það er að vísu komin ný stjórn, en hver segir, að sú stjórn verði harðari við Norðmenn heldur en hin, sem fór? Hver veit nema kjöttollurinn geti gripið inn í? Ef hæstv. forsrh. færi að verða hræddur um kjötið sitt, þá þekki jeg hann illa, ef hann myndi ekki hugsa sig um áður en hann færi að verða langtum strangari en fyrirrennari hans. Það er engin ástæða að ætla, að hann yrði vitund strangari. Svona eru allir liðir þessa máls, alstaðar eintómar veilur. Reynslan stendur með mínu máli og sýnir það, að altaf er að aukast útgerðin fyrir utan línuna; og þegar Norðmenn vita, að farið er að takmarka veiði hjer, þá verða þeir að veiða fyrir utan, af því að þá vita þeir, að markaðurinn verður betri; þessi einokun er hjálp fyrir þá, en einungis til skaða fyrir okkur á öllum sviðum.

Hitt er líka alveg rjett, sem jeg tók fram áður, að einmitt fyrir það, að síldin kemst á eina hönd, þá reyna erlendir menn sjerstaklega að stríða hart móti þeirri hendi og gera alt örðugt. Úti í heiminum líta menn alt öðruvísi á einokun heldur en hjer á Íslandi; ýmsir bestu fjármálamenn hafa nýlega á stórri samkomu lagt mjög eindregið móti einokun. Og bara þetta, að taka upp einokun, gerir það að verkum. (LH: Það verður engin einokun). Jú, sannarlega, og ef verslunin svo kemst á eina hönd, eins og jafnaðarmenn vilja, þá endar það á því, að menn verða eins og í gamla daga að standa berhöfðaðir fyrir framan búðarborðið.

Eitt er jeg viss um, — að þegar þingið er orðið tíu sinnum vitrara en það nú er, þá fara ekki skaðræðisfrumvörp eins og þetta í gegnum þingið.