20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4113 í B-deild Alþingistíðinda. (3613)

131. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jón Ólafsson:

Jeg hefi verið að vona, frá því að jeg sá þetta frv., að flm. flyttu það meira til að sýna það í skjalasafni Alþingistíðindanna en koma því fram. Jeg er hissa á því, að slík fáfræði skuli finnast á 20. öldinni og lýsir sjer í þessu frv. Það lítur ekki út fyrir, að flm. hafi farið eftir vísindunum eða fiskifræðingunum, heldur eftir hjátrúarfylstu fiskimönnum. Jeg sje mjer til mestu vonbrigða, að meiri hl. sjútvn. leggur til, að þetta frv., sem setur alveg einstakan smánarblett á þjóðina, verði samþ. Að vísu skrifa 2 nefndarmennirnir undir með fyrirvara, og er það óneitanlega skárra en að fallast á þetta með öllu rannsóknarlaust.

Jeg held, að við, sem þekkjum sjómannastjettina, göngum þess ekki duldir, hve hjátrúarfull hún er. Hún þykist vita svo mikið um fiskinn, að vísindin komast ekki að. Þegar Finnmerkingar fengu fyrsta mótorbátinn, vildu þeir láta banna hann, af því að þeir þóttust vissir um, að hann flæmdi fiskinn burtu. Eins var það, þegar fyrstu mótorbátarnir voru við veiðar á Ísafjarðardjúpi. Jeg kom þá þangað til að fá síld til beitu, en var sagt, að hún væri engin til. Nótabassinn, sem var hinn snjallasti maður í sinni grein, bar því við, að mótorbátarnir flæmdu síldina burtu með skellum sínum. Svo hafa fordómarnir ávalt verið, og ætti löggjöfin síst að fara að ljá þeim lið. Þetta var þó gert í fyrsta sinn 1877, þegar hreppum og sýslufjelögum var veitt heimild til að setja reglur um veiðiskap. Jeg ólst upp með þessum lögum og þekki þau vel. Álfsnesingar í Vogi við Hafnarfjörð heimtuðu þá, að Garðamönnum yrði bannað að leggja net í sjó, þegar fiskgöngurnar kæmu, svo að fiskurinn hefði fría leið inn flóann. Allir vita, að það er ómögulegt, að netin byrgi fiskgöngu, og er þetta því stærsta skrælingjamerkið, sem sett hefir verið á sjómenn við Faxaflóa. Jeg man þá tíma, er fiskurinn barði utan landsteinana, en landsins börn sátu svöng í landi. Formennirnir máttu ekki leggja net sín, en fiskurinn gleymdi, hvert honum var ætlað að stefna og kom hvergi fram, ekki í Voginn og hvergi annarsstaðar á þeim stöðum, sem honum var ætlað að heimsækja. Þetta endurtekur sig nú í frv. þessu í enn víðtækari merkingu. Seinasta glappaskotið í löggjöf um þessi efni var framið 1923. Skagfirðingar notuðu þessa heimild, en mjer er sagt, að þeir hafi horfið frá henni. (PO: Það er búið að nema þetta úr lögum). Já, menn hafa verið búnir að fá nóg af þessu, sjeð, að það var „della“ og afnumið það. Í Keflavík var þetta gert af þröngsýni og nirfilsskap; ungir menn stóðu þar á móti, en þeir eldri voru með því, af því að þeir halda, eins og flm., að dragnótaveiðin skemmi botninn. En þeir gæta ekki að því, sem fiskifræðingarnir segja, sem sje því, að fiskurinn kemur á eftir æti eða til að hrygna, og ekki til annars. Nefndin vill banna þessa dragnótaveiði með öllu í landhelgi og kemst þar engin sanngirni eða miðlun á milli. Það er nógu fróðlegt að líta eftir, hvað aðrar þjóðir aðhafast í þessu efni, t. d. Danir. Sá maður þeirra, sem fann upp þetta veiðarfæri, Jens vefari, fyrir 70 árum — það var skakt hjá nefndinni, að það hafi verið fyrir 50 árum —, hefir nú verið heiðraður með því hjá þjóð sinni, að honum hefir verið reistur minnisvarði af opinberu fje, á sama tíma og við ætlum að leggja bann fyrir þetta. Það er ekki verið að hafa fyrir því að leita að gögnum og rökum: helstu rökin eru friðun á skógi og kjarri. (ÓTh: Ræðumaður má ekki blanda saman meiri og minni hluta nefndarinnar). Jeg hefi ekki gert það, en minni hl. verður þó að fá eitthvað, því að mjer heyrðist ekki betur en að frsm. segði, að nefndin væri sammála. Friðun á skógi stendur ekki í neinu sambandi við friðun á fiski; það gegnir alt öðru máli með lifandi verur, svo sem fiska, sem verða mjög skammlífir, en með skóga, sem þroskast og dafna öld af öld.

Það er sagt í nál., að nokkur stund hafi verið lögð á að veiða kola um aldamótin. Þetta er rjett. Það var stofnað fjelag á Austfjörðum í þessum tilgangi; en það er ekki rjett, að það hafi ekki orðið landinu til nytja, því að vinnulaun o. fl. varð eftir í landinu. Þessi útgerð bar sig ekki, vegna ýmissa annmarka á fyrirkomulaginu, og mjer er það minnisstætt, að Tryggvi sál. Gunnarsson hafði hinn mesta áhuga á slíkum veiðiskap og gekst enda fyrir því, þó lítið yrði úr því, að hafist yrði handa til að hrinda þessum nytjaveiðiskap í framkvæmd. Íslenskir útgerðarmenn hafa oft haft það fyrir augum að hefjast handa í þessu efni, þegar hægt verður að koma þessari, dýru vöru, kolanum, á markaðinn. Jeg man eftir bók um fiskirannsóknir við Færeyjar og Ísland, sem kom út árið 1903. Formaður þeirra rannsókna var Johan Schmidt. Í formála þeirrar bókar segir, að Íslendingar veiði ekki kola, en vonandi opnist augu þeirra fyrir því að nota þessi veiðarfæri, svo að þetta merki um framtaksleysi hverfi af þjóðinni. Þessi orð eru í fullu gildi en þann dag í dag, og mætti þó taka dýpra í árinni, ef þetta frv. á að verða að lögum. Kom ýmislegt fram í síðasta Danaleiðangri hjer við rannsóknir, sem leiddi það í ljós, að svo mikið væri af kola við strendur Íslands, að það horfði til eyðileggingar á kolanum sjálfum. T. d. hefir sá koli, sem elst upp hjer í Faxaflóa innan landhelgilínunnar, svo lítið æti, að 5 ára koli, sem elst upp þar, er magrari og smærri en 4 ára kolinn utan landhelgilínunnar. Og sama er sagan frá Englandi og Danmörku, því þar er víða svo mikið af kola á vissum stöðum, að hann þroskast ekki og því flytja Englendingar hann lifandi til Doggersbank, til þess að láta hann alast þar upp. Þetta vilja þeir til vinna. Ekki vilja þeir leggja bann við þessu.

Það kemur ekki heim við álit fiskifræðinganna, þegar verið er að tala um, að kolinn muni hverfa, því þeir eru að mjög miklu leyti á annari skoðun. Frv. gerir ráð fyrir að taka á þessu þeim tökum, að enginn hafi gagn af kolanum, nema utan landhelgilínunnar. Það má segja, að það komi úr hörðustu átt, þar sem jeg legst á móti því að friða kolann í landhelginni, því vitanlega ætti kolaveiðin að vera nokkuð meiri utan landhelginnar, ef slíkt væri lögleitt. En þótt við tökum nokkurn þátt í botnvörpuveiðum fyrir kola utan landhelginnar, þá höfum við Íslendingar þó ekki meira en ca. 1/40 hlutann af veiðum þar, þegar tekið er tillit til þess, hvað við höfum stuttan veiðitíma í ís á okkar litla flota árs árlega. Það er því aðallega fyrir útlenda hagsmuni, ef þetta frv. verður samþ.

Það er vitanlega rjett, sem í greinargerðinni stendur, að þessi veiði hefir ekki verið til mikilla nytja hingað til. En fyrsta sporið til þess, að þessi veiði verði til nytja, er frystihússbygging sú, er nú stendur yfir hjer í Reykjavík. Ef frv. verður felt, verður veitt hjer og á Akranesi allmikið af kola og flutt í frystihús, en verði frv. samþ., er það ómótmælanlegt, að með því er ráðist á heimabjargræðið til þess eins að mata útlendingana, svo að þetta fer í öfuga átt. En þetta kemur af því, að menn fara ekki eftir því, sem vísindin segja, heldur eftir hleypidómum, sem ekki er gott að segja, hvort aðfengnir eru eða sprottnir af þröngsýni. Jeg hefi talað við Bjarna Sæmundsson, sem er talinn að vera einn af bestu fiskifræðingum á Norðurlöndum og allir þekkja, að vill ekkert fullyrða fyr en hann hefir fulla vissu. Hann segir svo í brjefi, sem jeg hefi undir höndum:

„Því er haldið fram sem einni aðalástæðu fyrir banni á brúkun dragnótarinnar, að hún sje eins hættuleg fyrir fiskaungviði og botnvarpan, en það er fjarstæða ein, sprottin af vanþekkingu. Það munu menn og fljótt sjá og skilja, ef þeir bera saman poka beggja veiðarfæranna, sem veiðin safnast í að lokum: Annar er úr voðfeldu, grönnu, einföldu baðmullargarni, með svo víðum möskvum, að 20 cm. (tvæ-þrevetur) skarkoli og 30–35 cm. (tvæ-þrevetur) þyrssklingur og ýsa getur smogið þá, en möskvar botnvörpupokans eru bæði þrengri (30 mm.) og riðnir úr tvöföldu og mjög gildu hampgarni og svo lokaðir, ef á þeim stríkkar, að fá ársgömul seiði (10–15 cm.) geta smogið, og tæplega smáseiði á fyrsta ári eða sandsíli, hvað þá það, sem stærra og gildara er“.

Þetta segir nú fiskifræðingurinn, og í sama streng taka þeir menn í Noregi, sem starfað hafa að þessum málum. Þetta veiðarfæri er ekki skaðlegra en önnur, t. d. þorskanet, því að jeg held, að enginn fari að ganga svo langt að vorkenna þorskinum dauða hans.

Í Noregi er til fjelag, sem heitir „Fiskerisfremme“, og er markmið þess líkt og Fiskifjelags Íslands, þ. e. að fræða og leiðbeina fiskimönnum úm veiðarfæri og veiðiaðferðir. Til þess að kenna að nota veiðarfærið (dragnótina) og til þess að slá á fordóma fiskimanna þar hefir fjelagið keypt nokkrar dragnætur til að láta fiskimenn reyna. Svona er gangur málsins þar. Að vísu er nokkuð þráttað um veiðarfærið sem stendur, en það er ekki bannað á nema einum stað, þar sem lúðumið eru. Mjer er ekki kunnugt um, að dragnótin sje bönnuð alment í neinu nálægra landa. Þetta fjelag í Noregi, sem jeg nefndi, hafði svo mikið álit á dragnótinni, að það gerði alt til að útbreiða hana. Þar hefir hún orðið að töluverðu gagni, og er búist við, að hún sje framtíðarveiðarfæri. En þar er markaðurinn ekki eins fjarri og hjer. Hjeðan hefir verið ilt að koma kolanum óskemdum á markað, en nú er einmitt verið að stíga hjer í bænum fyrsta sporið til að bæta úr þessu, með nýju frystihúsbyggingunni. Búist er við fleiri frystihúsum úti um landið og ættu þau öll að skapa skilyrði til þess, að mikið fje mætti hafa upp úr kolaveiðum.

Það er dálítið merkilegt atriði, að eini jafnaðarmaðurinn í nefndinni skuli skrifa undir þetta nál. fyrirvaralaust. Þarna er þó vissulega verið að ráðast á þann smáa. Hjá því getur ekki farið, að dragnótin verði til mikilla nytja fyrir þá, sem stunda veiðar á tveggja manna vjelbátum og hafa skilyrði til að koma vöru sinni nýrri á markaðinn. Þeir ættu að hafa af því miklar tekjur. Mjer kom því óvart árásin á þessa menn frá jafnaðarmanninum. Reyndar þarf jeg ekki að vera hissa, eftir að hafa heyrt afstöðu hans til samskonar atriðis — hvalveiðanna — í gærkvöldi.

Það var dálítið annað árið 1877, að banna mönnum að bjarga sjer. Þá áttu engir aðrir kröfu á okkur, og landsmenn þurftu ekki öðrum kröfum að fullnægja en þeim, sem maginn gerði, og menn lögðu þá harðara á sig vegna heimskunnar. Nú er öðru máli að gegna. Nú eiga erlendir fjármálamenn kröfur á okkur vegna stórra skulda, og kröfurnar inn á við um aukin þægindi hafa stórum aukist. Þá bitnaði heimskan og hleypidómarnir á okkar eigin maga, en nú kemur hún niður á gjaldþolinu og skilvísinni gagnvart þeim, sem við skuldum. Við verðum að kannast við, að á öllum sviðum þarf að herða á framleiðslunni og auka útflutninginn, ef við eigum að komast af og standa í skilum. En það er hart, að á sama tíma sje verið að setja óeðlilegar hömlur á atvinnufrelsi manna. Landbúnaðurinn þarf stuðnings við. Sá atvinnuvegur er önnur stoðin undir þjóðfjelaginu, og við sjávarútvegsmenn finnum, að við hjálpum sjálfum okkur með því að styðja landbúnaðinn. — En á sama tíma megum við ekki friða verðmætan veiðifisk fyrir sjálfum okkur, en leyfa útlendingum einum að veiða hann fyrir augunum á okkur, rjett utan við landhelgilínuna. Því að þar heldur veiðiskapurinn áfram, og kolaveiðin verður meira að segja meiri fyrir þá sök, að hann verður friðaður í landhelgi. — Það er leitt, að annað eins skuli koma fram á þessari menningaröld og það, að hefta framtakssemi manna og koma í veg fyrir það gagn, er þeir mega hafa af þessu veiðarfæri.

Mjer skildist hv. frsm. vera nokkuð upp með sjer af því, að hann vildi ekki banna landadráttarnætur eða síldveiði með hringnót. En jeg sje ekki ástæðu til að fara neinum orðum um þessa „göfugmensku.“

Hv. frsm. talaði um það, að kolinn væri að hverfa, þar sem dragnótin hefði verið notuð. En það er eðli fiskjar, að hann víkur ekki fyrir neinu öðru en því, ef æti það, sem hann lifir á, breytir göngu sinni.

Jeg hefi ekki getað sjeð það af frv. eða ástæðum þess, nje af áliti meiri hl. sjútvn., hverjar nytjar flm. og meiri hl. nefndarinnar hugsar sjer af kolanum fyrir landið. Sennilega ætlast þeir til, að hann verði veiddur fyrir utan landhelgi, en jeg er búinn að benda á, hver þátttaka okkar er í veiðiskapnum þar. Mest af kolanum lendir þar auðvitað í botnvörpum útlendinga.

Ýmsu mætti enn við bæta, en jeg hugsa, að bráðlega gefist mjer tækifæri til að svara einhverju frá meðhaldsmönnum frv. Jeg veit samt ekki, með hvaða rökum þeir eiga að geta hrakið orð mín. Jeg er hræddur um, að í svörunum verði þessi tónn, sem oft einkennir litla nytjamenn: að það eigi að geyma kolann, geyma það til morguns, sem hægt er að gera í dag. Það er eins og þegar Danirnir í Sandgerði sáu til síldartorfunnar á laugardagskvöldi, en hættu að veiða kl. 6 um kvöldið og þóttust ætla að geyma síldina til mánudagsmorguns. En þá var hún auðvitað á bak og burt, og Danir sátu eftir með sárt ennið og höfðu ekkert til beitu á vertíðinni.