20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4144 í B-deild Alþingistíðinda. (3618)

131. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Benedikt Sveinsson:

Mjer er ekki þörf á að svara hv. 3. þm. Reykv. mörgum orðum. Hann gerði sjer allmikið far um að sýna fram á, að jeg vildi friða landhelgina fyrir dragnótaveiðum í því skyni að lokka útlendinga að henni. Þetta er fullkominn misskilningur. Jeg tók fram og veit að hv. 3. þm. Reykv. skilur það, að stórþjóðirnar hafa viðurkent rjett vor Íslendinga til að taka hörðum höndum á landhelgibrjótum, vegna þess hve mikils er um vert, að ungviðið megi eiga þar nokkurn griðastað, en hinsvegar væri eigi einhlítt að friða landhelgina fyrir einu veiðarfæri, heldur öllum þeim, er skaðsamlegust væru.

Hv. þm. sagði, að ekki þektist neinsstaðar, að dragnótaveiði væri bönnuð. Það er þó með öllu rjett, sem hv. frsm. hjelt fram og getið er í greinargerð frv., að slíkar veiðar eru bannaðar í sumum fjörðum Skotlands. Þetta er haft eftir fiskifræðingi landsins sjálfum, og ætti því ekki að vjefengjast. Þá eru og nokkrar skorður settar við veiði þessari í Noregi, eins og hv. þm. viðurkendi sjálfur. Ennfremur er veiði þessi bönnuð á vissum svæðum í Limafirði, þótt jeg hafi eigi sönnunargögn um það hjer við hendina. Hv. þm. gat þess, að Danir hefðu takmarkað möskvastærð á dragnótum, en eins og hv. frsm. tók rjettilega fram, er engin ástæða til að ætla, að farið verði eftir þeim ákvæðum hjer, ef engin slík ákvæði eru í íslenskum lögum.

Hv. þm. mintist á brjef frá 30 mönnum í Keflavík, sem fram hefði komið í lok aðalfundar Fiskifjelagsins og hafði að geyma mótmæli gegn fullkomnu banni við dragnótaveiði í landhelgi. Jeg held, að hv. þm. hefði ekki átt að vera að taka sjer brjef þetta til inntekta. Kunnugt er, að mjög illa gekk að smala saman undirskriftum undir skjal þetta, og auk þess var þar aðeins farið fram á að leyfa dragnótaveiði í landhelgi þrjá mánuði ársins, sept., okt. og nóv., eins og hv. þm. Vestm. hjelt fram áðan og hefir borið fram í brtt. Með henni er fullnægt óskum þeirra Keflvíkinga. Í brjefinu var og þannig ákveðið, að veiðar þessar skyldu smábátar einir stunda og veiðin aðeins heimil íslenskum ríkisborgurum. Kemur þar fram, að menn þessir hafa ekki verið svo kunnugir sambandslögunum, að þeir hafi vitað, að ekki er hægt að banna samþegnum vorum, Dönum, að nota veiðiaðferð þessa nema þær takmarkanir nái einnig til vor sjálfra. Að fráteknum þessum misskilningi þeirra brjefritaranna, þá eru þessir menn því í raun og veru ekki fjarri skoðun vor flm. Annars veit jeg ekki, hve mikið má byggja á umsögn 30 manna úr fjölmennu fiskiþorpi. Ef til vill hafa einstakir útgerðarmenn, er hjer hafa þótst hafa hagsmuna að gæta, staðið fyrir nafnasöfnun þessari. Ekki munu það heldur alt vera kjósendur, sem undir skjalið hafa ritað. Spurði jeg einn útgerðarmann, er skrifað hafði undir það, hvort hann væri með því, að leyfð yrði óhindruð dragnótaveiði í landhelgi, og kvað hann fjarri því. Sagðist hann hafa skrifað undir skjal þetta í fyrra. Hefir það því tekið á annað ár að smala saman nöfnum þessum. Þetta skjal var eina sönnunargagnið, sem fram var lagt frá þessari hlið; var og eigi furða, þótt málefninu yrði tregt til liðs.

Þá var það heldur athugaverð upplýsing, sem hv. þm. gaf um markaðshorfur Íslendinga í framtíðinni. Taldi hann, að ef þessi dýri fiskur, sem í dragnætur veiðist, færi að fást hjer að marki, yrði það til þess, að hinn stóri fiskur vor kæmist niður í hálfvirði. Það væri því hið mesta lokaráð við útgerðina og myndi hafa miljónatap í för með sjer að auka þennan veiðiskap — ef þessi fullyrðing hv. þm. myndi sönn reynast. Hann viðurkendi, að kolaveiðar hefðu minkað á Austfjörðum á síðari árum, síðan farið var að nota dragnætur þar. Mjer er nokkuð kunnugt um þetta, bæði þar og á Þistilfirði og Skjálfanda, og sú hefir reyndin orðið á, að stóri kolinn hefir horfið með öllu og smálúðuveiði stórum minkað, svo að kvartanir hafa borist úr hverri vík og vogi yfir þessari veiðiaðferð.

Hv. þm. bar á móti því, að einn af framfaramönnum landsins, Tryggvi Gunnarsson, hefði staðið á móti togaraútgerð í 10 ár. (JÓl: Jeg held, að það sje alveg skakt). Jeg skal sanna, að jeg fer hjer með rjett mál. Árið 1897 er hafin barátta fyrir togaraútgerð í blöðunum. Tryggvi Gunnarsson taldi peningamál landsins ekki í því horfi, að slík útgerð væri tiltækileg, en vildi hinsvegar láta menn kaupa skútur frá Englandi. Skrifaði hann jafnvel í blöð á móti málinu. Árið 1907 er svo fyrsti togarinn keyptur. Þá hafði Tr. G. aukist svo skilningur og þekking á þessum efnum, að hann hefir hlaupið svo vel undir bagga með þessari útgerð, sem hv. þm. hefir þegar lýst.

Þá er eitt atriði enn, sem jeg heyrði, að hv. frsm. hafði eftir hv. þm. Það voru þau ummæli, að landið auðgaðist á tollum og verkafólkskaupi vegna dragnótaveiða Dana hjer við land. Þetta er með öllu rangt. — Þrátt fyrir jafnrjettisákvæðið hafa Íslendingar orðið að borga toll af útflutningsfiski, sem þeir hafa veitt í landhelgi og utan landhelgi, en hin útlendu skip hafa þar á móti engan toll greitt af þessum veiðiskap sínum nje heldur önnur þau gjöld, sem lögð eru á sjávarútveg Íslendinga. Atvinnu hafa Íslendingar og enga haft af dragnótaveiðum Dana þar sem mjer er kunnugt.

Jeg held þá, að jeg hafi tekið fram það helsta, sem svara þarf hv. 3. þm. Reykv., og læt því hjer staðar numið.