20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4150 í B-deild Alþingistíðinda. (3620)

131. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefði getað fallið frá að taka þátt í umræðum, ef ekki hefði í ræðu hv. þm. N.-Þ. komið fram ein setning, sem jeg var honum ósammála um. Að öðru leyti en því get jeg skrifað undir hvert orð, sem hann sagði. Hann mintist á brtt. þær, sem nefndin hefir gert við frv., á þskj. 481, og mjer heyrðist hann kveða svo að orði, að hann teldi betur farið, að þær yrðu ekki samþ. (BSv: Það voru brtt. á þskj. 520). Þá get jeg fallið frá andmælum.

En jeg skal þá víkja að öðrum atriðum, úr því að jeg er staðinn upp. Kemur þá fyrst til álita kenning hv. 3. þm. Reykv. um það, að hjer væri ófyrirsynju meinað öllum landsmönnum að hafa not þessa fiskjar, kolans. Mjer virðist það ekki vera rjett. Bannið nær aðeins til þessa eina veiðarfæris. Eftir eru sem sje öll önnur veiðarfæri, sem notuð eru við kolaveiðar og sem engum hefir komið til hugar að banna, þar á meðal t. d. kolanet, sem eru mjög algeng í Danmörku og sumstaðar er farið að nota hjer á landi. Slíkur veiðiskapur spillir alls ekki botngróðrinum á stöðvum þeim, sem ungviðið elur. Jeg geri ráð fyrir, að ef bönnuð yrði dragnótaveiði alfarið, mundi einmitt verða lögð miklu meiri stund á þá veiðiaðferð, sem jeg nefndi. Hún er ódýr og einföld, en tiltölulega veiðisæl; jeg hefi vitað hana stundaða með góðum árangri einmitt þar, sem lítið var um kola og hann torfenginn.

Út af brtt. þeirri, sem fyrir liggur á þskj. 520, vildi jeg segja það, að svo framarlega sem með þessu frv. á að fyrirbyggja samkepni annara þjóða við okkur um þessa veiði, þá held jeg það verði ekki gert, ef sú till. verður samþ. Jeg veit ekki, hvað ætti að vera því til fyrirstöðu, að Danir og Færeyingar fiskuðu í september, október og nóvember, rjett eins og Íslendingar. Það er hreinasti misskilningur, að Danir sjeu þær kveifur, að þeir geti ekki þrifist í okkar loftslagi. Það eru vissulega margir harðgerðir danskir sjómenn til, og jeg gæti vel trúað þeim til þess að halda út við þessa veiði, ef ekki alveg eins vasklega og innlendir menn, þá samt langdrægt. Ýmsir Danir eru hjer búsettir, sem kunnugt er, að leysa harðfengileg vetrarstörf af hendi, sumpart á landi, en sumpart á sjó, einmitt í þessu kalda loftslagi. Nei, — þetta er marklaus fyrirsláttur. Ef á að reisa skorður við þessum dragnóta, veiðiskap, þá er jafnhættulegt að opna gættirnar á þessum tíma árs sem öðrum. En þar að auki vil jeg geta þess, að jeg hygg, að kolaveiði sje ekki nein að ráði við strendur landsins á þessum tíma, sept. til nóv., nema fyrir sunnan og suðvestan land. Jeg hefi það fyrir satt, að bæði fyrir Norðurlandi og Austurlandi, og ef til vill fyrir Vesturlandi, sje kolinn genginn í djúpið, þegar kemur fram í ágústmánuð. Jeg veit með sannindum, að svona er það við Austfirði, og hygg, að líkt sje því farið við Norðurland.

Út af þessu verð jeg þá að segja, að jeg legg eindregið móti till. á þskj. 520.