18.02.1928
Neðri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4184 í B-deild Alþingistíðinda. (3642)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Hv. þm. Vestm. hefir fundið hvöt hjá sjer til að flytja hjer alllangt mál til stuðnings hv. 3. þm. Reykv. Þetta kom mjer að nokkru leyti á óvart og að nokkru leyti ekki. Hv. þm. er fulltrúi kaupstaðar, þar sem mikill meiri hluti íbúanna er sjómenn og verkamenn, og það er áreiðanlegt, að hann talar ekki í umboði þeirra í þessu máli með því að leggjast á móti málinu. Hann viðurkendi í upphafi máls síns, að hjer væri atvinnuleysi, og það í allstórum stíl, og ástandið í kauptúnum væri yfirleitt alt annað en gott á ýmsum tímum. En svo fór hann að bera saman aðstöðuna hjer á landi og erlendis og tók dæmi um stóriðjureksturinn. Vitanlega er skráning í fleiri greinum en stóriðjurekstri erlendis. En hjer má segja, að sje til vísir til stóriðju: sá atvinnuvegur, sem þegar hefir myndast í stærri kauptúnum, eins og t. d. togaraútgerðin og einnig vjelbátaútgerð, sem rekin er í stórum stíl. Við getum því hvað þetta áhrærir borið okkur saman við aðrar þjóðir, því þetta er vísir að okkar stóriðju.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði mælt þau orð, að við jafnaðarmenn mundum alls ekki gera kröfu til atvinnubóta fyrir opinbert fje. Þetta hefi jeg aldrei sagt, en hitt er það, að í frv., eins og það liggur fyrir, er alls ekki farið fram á þetta. Sá eini kostnaður, sem af frv. leiðir, er það, sem skráning kostar; og jeg benti á það fyr í umr. að sá kostnaður myndi alls ekki vera tilfinnanlegur. Hitt er rjett, að þegar ástandið er mjög ilt, þá veit jeg ekki, til hverra á að leita um atvinnubætur, ef ekki til hins opinbera, þegar atvinnurekendurnir segjast hvorki geta nje vilja bæta úr þörfum fólksins, sem vantar fyrir daglegu brauði. Jeg skal ekki gera getsakir, en jeg býst við, að hv. þm. vilji heldur, að fátækrasjóðir sjeu tæmdir undir slíkum kringumstæðum, heldur en að ráðist sje til þeirra framkvæmda, sem hægt er að sýna með rökum, að gefa eitthvað í aðra hönd. Reynslan hefir sýnt það hjer í Reykjavík, að vinna til slíkra framkvæmda hefir borgað sig í allflestum tilfellum. Hitt er rjett, sem bent var á undir umræðum síðast, að þegar gripið er til atvinnubóta óhugsað sem einhverra vandræðavarna, þá er ekki um þær atvinnubætur hugsað eins og skyldi. Mætti það betur verða, ef tími væri hafður fyrir sjer og vilji væri. til að undirbúa þær. Og einmitt skráning ætti að geta orðið tilefni þess, að betur yrði fyrir þessum málum hugsað.

Veigamesta ástæðan í augum hv. þm. virðist mjer vera sú, að fólkið muni þyrpast allmikið til sjávarplássanna, ef slík skráning færi fram. Jeg verð nú að segja, að jeg ætla ekki að fara að reyna á þolinmæði hv. þingmanna með því að rekja það mál út í æsar, en benda mætti þessum hv. þm. á það, sem honum þó er fullkunnugt, að með þeim lögmálum, sem ríkja yfirleitt bæði í atvinnulífi og viðskiftalífi, sem nefnd er hin frjálsa samkepni, þá er það vatn á mylnu atvinnurekenda, að fólkið þyrpist sem allra mest utan um þá vinnu, sem þeir hafa að bjóða. Þetta hefir bersýnilega komið í ljós hjá öllum atvinnurekendum, að þeirra virðist vera þægðin, að fólkið sje of margt til hverss handtaks, sem á að vinna. Og undiraldan undir þessu er sú, að því fleiri hendur, sem bjóðast til vinnu, því meiri líkur eru til að geta fengið fólkið fyrir lægra kaup.

Nú vil jeg undir engum kringumstæðum gera neinar gyllingar til þess að laða fólk í kaupstaði. En spursmálið er viðvíkjandi því fólki, sem einu sinni er komið í sjávarþorpin og farið að lifa þar, hvað það eigi að gera á ýmsum tímum, þegar slíkt neyðarástand kemur fyrir, að atvinnuvegirnir segjast ekki geta veitt fólki vinnu. Á að láta fólkið falla úr hor og hungri? Þá segjum við jafnaðarmenn, að það sje að verða viðurkend meginregla um allan heim, að þá beri því opinbera skylda að sjá þessum hluta þegnanna fyrir vinnu til framdráttar sjer og sínum. Fyrir þá vinnu kemur eitthvað af framkvæmdunum sem verðmæti fyrir þjóðfjelagið.

Jeg skal benda á það, að nýlega kom skeyti, sem talið er með stærri frjettum í því stóra landi Bandaríkjunum, er hermir, að jafnvel stjórnin — sem annars er ekki talin mjög frjálslynd í garð verkalýðsins — sje að hugsa um að efna til atvinnubóta handa þeim mikla fjölda atvinnulausra manna. Er enginn vafi, að bygt er á skráningu í því landi. Hví ættum við endilega að vilja vera þeir eftirbátar að vilja ekki haga okkur eftir menningarþjóðum í þessu efni og vilja ekki taka upp þá þjóðfjelagslegu ráðstöfun, sem þær telja sjer skylt að inna af hendi?

Þá lagði hv. þm. út af því, að jeg hefði talað um að skipuleggja atvinnuvegina. Í því getur falist ákaflega margt. Atvinnuvegirnir eru enn ekki reknir með hagsmuni verkalýðsins fyrir augum, heldur með því augnamiði, að þeir, sem reka þá, geti grætt, en það er ekki litið á þarfir þeirra, sem vinna við atvinnuvegina. Það skipulag, sem við jafnaðarmenn höfum í huga, byggist á því, að þjóðfjelaginu beri skylda til að líta á hag heildarinnar, en ekki einstaklinganna. Eins og nú á sjer stað, eru atvinnuvegirnir án nokkurs skipulags, og stjórnendur þeirra leika lausum hala eftir sínum eigin geðþótta, hvernig sem alt veltist, og alt þetta leiðir af sjer atvinnuleysi ásamt öðru misrjetti.

Jeg ætla ekki að fara að fræða þennan hv. þm. nú um það, hvernig við hugsum þetta skipulag á jafnaðarmanna vísu; jeg vona aðeins, að við báðir lifum það að sjá íslenska atvinnuvegi skipulagða. En það vil jeg segja hv. þm., að það er hægt að koma góðu skipulagi á eitthvað án þess að þjóðnýta það, þó það sje hið æskilegasta.

Hann vildi gera allmikið úr því í 9. lið frv., að sveitarstjórnum og bæjarstjórnum sje heimilt að leita samninga við verkalýðsfjelög um skráningu. Þvílík goðgá! En jeg veit ekki annað en sú skráning sje í höndum verkalýðsfjelaga erlendis. Hefi jeg hvergi sjeð, að á nokkurn hátt væri dróttað að þessum verkalýðsfjelögum að segja ekki rjett um ástæður, enda er engin ástæða að ætla slíkt. Nú er það svo, þegar skráning fór fram í Reykjavík, að þá hefir borgaraflokkurinn tekið verkalýðsmenn í þjónustu við skráninguna og ekki látið sjer það neitt vaxa í augum.

Að síðustu vil jeg nefna þann straum, sem nú beinist til kauptúnanna. Jeg hefi átt tal við ýmsa bændur um þetta mál, og jeg álít, að það sje sú frjálsa samkepni í þessu sem öðru, sem er orsök þess, að fólk leitar jafnmikið til sjávar.

Önnur ástæða er sú, sem hv. þm. er ekki ókunnugt um, hvað lítið er gert enn sem komið er til þess að gera sveitir landsins byggilegar. Það eru engin önnur ráð til að halda fólkinu kyrru í sveitinni en að gera landið svo byggilegt, sem frekast eru tök á. Fólkið leitar úr sveitinni þangað, sem það í augnablikinu heldur, að því geti liðið betur, og ekki síst meðan sú stefna leikur lausum hala, að allir atvinnurekendur við sjávarsíðuna geta hópað utan um sig svo og svo miklu af fólki langt fram yfir þörf.

Jeg held, að jeg hafi nú í stuttu máli flutt nokkra rökfærslu gegn andmælum þessa hv. fulltrúa verkamannakjördæmisins. Þessi skráning er nauðsynleg, hvað svo sem upp af henni sprettur, og vænti jeg þess, að hv. deild leyfi málinu að fara til nefndar, — og vænti ennfremur, þar sem ekki er um mikil útgjöld fyrir ríkissjóð að ræða samkv. frv., að það geti orðið að lögum á þessu þingi.