18.02.1928
Neðri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4190 í B-deild Alþingistíðinda. (3644)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Jóhann Jósefsson:

Háttv. 4. þm. Reykv. þótti undarlegt, hvernig jeg talaði. Það er nú svo. Hv. þm. er sjálfsagt svo fróður hvað áhrærir það kjördæmi, sem jeg er fyrir, að hann veit það eins vel og jeg, að samsafn af vinnufólki á þann stað er mjög óheppilegt, ekki einasta fyrir bæjarfjelagið í heild, heldur og fyrir hvern einstakling. Og þegar jeg álít þær gyllingar, sem gerðar eru, hvort heldur af honum eða öðrum, til þess að draga fólkið að sjónum, t. d. til Vestmannaeyja, þá er jeg að vinna að hagsmunum þeirra manna, sem þar búa, hvaða stjórnmálaflokk sem þeir fylla.

Jeg hefi eiginlega beint mínum orðum meir gegn framsögu og flutningi frv. og fortíð jafnaðarmanna í þessu máli heldur en gegn frv. sjálfu. En í frv. er aðallega eitt atriði, sem sýnir það bert, að hjer er þeim mönnum ætlað um að fjalla, sem a. m. k. eftir minni reynslu hafa iðulega farið með litaðar frásagnir sjer í vil, en andstæðingum til óhags. Jeg á við 2. gr. frv. Þeir hafa báðir, hv. þm., hent það mjög á lofti, að jeg beitti mjer móti sjálfri skýrslusöfnuninni, en jeg hefi aðallega beint orðum mínum gegn þeim „mótivum“, sem liggja til grundvallar, nefnilega að slengja byrðum á herðar ríkissjóðs og gera fólki vitanlegt úti um landið, að hjer sje stefnt að því horfi, að þegar atvinnu brestur í kauptúnum, muni það opinbera hlaupa undir bagga með vinnu. Hvað snertir skýrslusöfnunina sjálfa, þá held jeg raunar, að hvað sem líður lagastaf um þetta efni, muni hver vera sínum hnútum kunnugastur í hverju kauptúni og bæjarfjelagi fyrir sig.

Hv. 4. þm. Reykv. fanst það hótfyndni af mjer að tala um, þó að það væri heimilt að lögum að láta verkalýðsfjelögin hafa skýrslusöfnun á hendi. Það er meira en heimilt; það er skylda eftir frv. Vona jeg, að hv. þm. hafi lesið frv. áður en hann flutti það. (SÁÓ: „Að leita samninga“ stendur í frv.). Já, skylt að leita samninga.

Það er alveg ljóst og kom bert fram í ræðu hv. 4. þm. Reykv., að tilgangurinn er sá, að safna efnivið í kröfur á hendur þess opinbera um fjárframlög úr ríkissjóði og bæjarsjóðum. Hv. þm. hefir játað þetta sjálfur. Við fyrri hl. þessarar umr. tók hann það að vísu fram, að ekki væri meiningin að gera kröfur til hins opinbera, heldur skipulagsbinda atvinnuvegina; en nú segir hann: Jeg veit ekki; hvert á að leita, ef ekki til þess opinbera.

Hann segist hafa í hendi sjer og sinna samherja þetta allsherjarmeðal við atvinnuleysi í landinu, sem jeg hygg rjett útlagt, að hann hafi átt við þjóðnýtingu framleiðslufyrirtækja. Jeg get nú ekki sjeð, að á skipaflotanum væri rúm fyrir fleiri sjómenn yfir höfuð, þótt það væri ríkið, sem ræki þennan flota, eða með öðrum orðum væri reksturinn skipulagsbundinn, sem það heitir á máli hv. 4. þm. Reykv. Ef við eigum báðir að sjá það, eins og hann spáði, þá býst jeg við, að reynslan muni sýna, að jeg hefi rjett fyrir mjer, að ekki rýmkist á skipunum fyrir þetta.

Þegar búið er með lagafyrirmælum að binda hendur hinna framtakssömustu manna bæði til sjávar og lands, þannig að sá ónýti ber alveg jafnt úr býtum og sá duglegi, þá ætlar þessi hv. þm. að láta gullöld atvinnunnar renna upp. Því má hver trúa, sem vill. Það er eitt áreiðanlegt, að þeir, sem leggja fastastan trúnað á þær kenningar, þeir hafa lítið kynt sjer atvinnusögu landsmanna á umliðnum árum. Það á við í þessu landi, ef það á nokkursstaðar við, að einstaklingar verða að fá að njóta sín til fulls, ef vel á að fara.

Það er algerður misskilningur hjá hv. flm., að það sje vatn á mylnu atvinnurekenda, að fólkið sje sem flest eða langt of margt utan um vinnuna. Það er þvert á móti til trafala fyrir atvinnurekstur, að framboð á vinnufólki sje langt fram yfir þörf. Það vita líka allir, sem komið hafa nálægt atvinnurekstri, að það er bæði raun og bagi að því, þegar atvinnufyrirtæki eru svo umsetin af mönnum, en ekki er hægt að veita áheyrn nema litlum hluta. Og að því er snertir aðdróttun hv. þm. í garð atvinnurekenda, að þeir væru altaf reiðubúnir til þess að nota sjer þessa aðstöðu, þá ætla jeg að leyfa mjer að mótmæla því, að þetta sje rjett fram borið. Jeg mótmæli, að þetta sje rjett, þegar talað er um atvinnurekendur yfir höfuð. Það er því þvert á móti, að það sje vatn á mylnu atvinnurekenda, að fólkið flykkist til bæjanna, heldur mundi nær að segja, að stundum sje það atvinnuvegunum til niðurdreps.

Hv. flm. vitnaði í ræðu sinni í erlend dæmi máli sínu til stuðnings, eins og hann hefir jafnan haft til siðs síðan jeg heyrði hann tala hjer í hv. deild. Jeg skal ekkert um það segja, hvort hann hafi í þetta sinn farið rjett með þessar erlendu upplýsingar; það hefi jeg ekki kynt mjer enn. En í öll önnur skifti, sem hann hefir vitnað í erlendar fyrirmyndir, er mjer kunnugt um, að hann hefir farið meira og minna rangt með þær.

Hv. 2. þm. Reykv. áleit, að það væri ekki nema til góðs að rannsaka atvinnuleysið og sagði, að við, sem móti frv. höfum talað, værum þessari rannsókn andvígir. Jeg hefi ekki mótmælt rannsókn í þessu efni, en hitt hefi jegsagt, að rannsaka frá hálfu þessara manna með það fyrir augum að gera svo á eftir kröfur til hins opinbera um atvinnubætur, bætir ekki úr flóttanum úr sveitunum. Það er að seilast um hurð til lokunnar. Því meiri kröfur, sem jafnaðarmenn gera, og því meiri gyllingar, sem gerðar eru um atvinnubætur kaupstaðanna, því meira los kemur á fólkið í sveitunum, sem þá leitar til kaupstaðanna og byggir afkomu sína þar á vonum, sem ekki rætast.

Mjer fanst þessi sami hv. þm. bera mikinn kvíðboga fyrir því, að mál þetta kæmist ekki til nefndar. Mjer hefir ekki komið til hugar að bregða nú þegar fæti fyrir frv. og hamla því, að það færi til 2. umr. og nefndar. En hitt vil jeg segja að lokum, að mjer finst það undarlegt, að þessir sömu menn, sem takmarka vilja vinnuna og hefta atvinnuvegina, skuli bera fram frv. um að safna atvinnuleysisskýrslum til þess að geta gert kröfur til hins opinbera um aukna vinnu til framfærslu því fólki, sem þeir hafa lokkað til kaupstaðanna. Í þessu er eitthvert öfugstreymi, sem ekki er gott að greina í.