10.04.1928
Efri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4204 í B-deild Alþingistíðinda. (3658)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Jón Þorláksson:

Jeg ljet í allshn. uppi það álit, að jeg teldi ekki rjett að gera frv. þetta að lögum nema með gagngerðri breytingu. Jeg hefi nú borið fram nokkrar brtt., sem prentaðar eru á þskj. 720 og útbýtt var rjett í þessu, en jeg fer ekki fram á, að þær verði teknar til umr. eða atkvgr. að þessu sinni. Má það gjarnan bíða til 3. umr., og get jeg einnig geymt mjer að gera grein fyrir þeim þangað til.

Eins og þetta frv. er úr garði gert, getur það ekki komið að notum í því efni, sem háttvirtur framsögumaður meiri hl. taldi aðaltilgang þess, sem sje að finna grundvöll fyrir hið opinbera til að draga úr atvinnuleysi og afleiðingum þess. Það er fyrst og fremst af því, að skýrslur þær, er safnað yrði samkv. frv., gætu ekki fengið opinbera tiltrú. Mergurinn málsins er að þessu leyti í 2. gr. frv. Þar er svo fyrir mælt, að leita skuli samninga við verkalýðsfjelögin um að taka að sjer skýrslusöfnunina. Nú er það svo hjer í Reykjavík, og raunar í flestum ef ekki öllum kaupstöðunum, að verkamannafjelögin eru því nær undantekningarlaust stjórnmálafjelagsskapur. Ef þessum fjelögum væri nú falin skýrslusöfnunin, þá væri það að vísu þægilegt verkefni fyrir þau, til þess m. a. að draga að sjer nýja fjelagsmenn, en skýrslurnar geta þá ekki notið þeirrar opinberu tiltrúar, sem þær þurfa að gera.

Eins og frv. liggur nú fyrir, mun jeg greiða atkv. með 1. gr. þess til 3. umr., en móti 2. gr. Skýrslusöfnunin á ekki annarsstaðar heima en hjá hagstofunni og bæjarstjórnunum.

Frekari athugasemdir get jeg geymt mjer til 3. umr.