21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

21. mál, lífeyrir starfsmanna Búnaðarfélags Íslands

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Það er kunnugt, að langt er síðan mönnum er orðið það ljóst, að nauðsynlegt sje að tryggja það, að embættismenn og starfsmenn ríkisins geti átt eitthvert athvarf, þegar þeir, vegna elli eða heilsuleysis, geta ekki lengur sjeð fyrir sjer og sínum. Að vísu var það áður fyrri eitthvert helsta „agitations-númerið“ á þingmálafundum víðsvegar um landið að afnema öll eftirlaun. Nú er öldin önnur og niðurstaðan orðin sú, að æ lengra er gengið í þá átt að tryggja það, að embættismenn og starfsmenn ríkisins geti átt kost á að lifa sæmilegu lífi á elliárum sínum.

Lögin um lífeyri embættismanna og starfsmanna ríkisins hafa ekki reynst nægilega víðtæk. Eins og sjá má af frv. því, sem hjer liggur fyrir, hafa komið fram óskir frá stofnun, sem jeg tel, að megi nefna ríkisstofnun, um það, að starfsmenn hennar öðlist samskonar hlunnindi og aðrir starfsmenn ríkisins. Jeg geri ekki ráð fyrir að þurfa að tala um þetta langt mál. Í fyrsta lagi mundi breyting sú, sem hjer er farið fram á, verða útgjaldalítil fyrir ríkissjóð. Ennfremur stendur svo sjerstaklega á, að skólastjórinn við annan bændaskólann lætur nú af því starfi og gengur í þjónustu Búnaðarfjelags Íslands, og mundi hann þannig missa eftirlaunarjettindi sín, ef ekkert væri að gert. En það er meðfram að undirlagi skólastjórans á Hólum, að mál þetta er fram borið.

Nú má vel vera, að enn sjeu einhverjir menn eða stofnanir, sem kynnu að óska þessara sömu rjettinda. En jeg sje ekkert á móti því, að þær óskir verði teknar til athugunar, þegar þær koma fram.

Þar sem það er ekki venja að halda langar ræður við 1. umr. málanna, nema sjerstaklega standi á, ætla jeg að láta nægja þessi fáu orð. Vænti jeg, að máli þessu verði vel tekið, en þar sem það getur ekki skoðast sem eiginlegt fjárhagsmál, ætti líklega helst að vísa því til allshn.