10.04.1928
Efri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4206 í B-deild Alþingistíðinda. (3660)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Jón Þorláksson:

Hv. frsm. meiri hl. kannaðist við, að hjer væri verið að fara aðra leið um söfnun skýrslnanna en tíðkanleg væri erlendis, enda hlaut honum að vera það kunnugt. Það er vitanlegt, að leggja þarf skyldu á alla hlutaðeigendur, þ. á. m. verkalýðsfjelögin, að gefa þær upplýsingar við skýrslusöfnunina, sem þörf krefur. Það sagði hann, að gert væri erlendis, og það á auðvitað að gera hjer, ef rjett er að farið. En í þessu frv. er farið fram á alt annað, sem sje, að verkalýðsfjelögin sjálf hafi skýrslusöfnunina á hendi. Jeg álít, að við höfum hjer opinbera stofnun, sem beinlínis hefir það hlutverk að safna skýrslum sem þessum, þar sem hagstofan er:

Það var hv. frsm. meiri hl., en ekki jeg, sem fór að tala um falsaðar skýrslur; jeg sagði ekkert í þá átt. En jeg á ofurhægt með að útskýra, af hverju skýrslurnar geta ekki hlotið opinbera tiltrú. Eins og hv. frsm. rjettilega sagði, er það fyrsta ætlunarverk verkalýðsfjelaganna að halda uppi samtökum til að bæta efnalega afkomu meðlima sinna. Og það verður að teljast varhugavert að láta þann aðilja safna skýrslum um slíkt, sem beinlínis hefir það á stefnuskrá sinni að afla meðlimunum aukinna tekna. Með þessum orðum er engum gert rangt til. Það er ofureðlilegt, að stjórn slíks fjelagsskapar getur ekki verið óhlutdræg um þau mál, er snert geta fjárhagsafkomu fjelagsmanna. Til þess er ómögulegt að ætlast. En þess vegna á þessi aðili ekki heldur að safna skýrslunum. — Vegna þess að verkalýðsfjelögin eru jafnframt stjórnmálafjelög, má búast við, að allmargir menn, sem utan þess fjelagsskapar standa, vilji ekki láta honum í tje neinar upplýsingar um afkomu sína. Því eru allar líkur til að með þessu móti fáist ekki þær upplýsingar, sem til þess þarf, að skýrslurnar verði einhvers virði.

Hv. þm. þýðir ekkert að nefna Ólafsvík og Borgarnes í þessu sambandi. Hann veit það ofurvel, að þar eru ekki kaupstaðir í þeim skilningi sem þetta frv. leggur í það orð, og tekur frv. því ekki til þeirra staða.