10.04.1928
Efri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4208 í B-deild Alþingistíðinda. (3661)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg gæti hugsað mjer, að eitthvað gengi stirðlega um þessar skýrslur, ef fela ætti hagstofunni að safna þeim. Hv. 3. landsk. hefir á þessu þingi sjálfur flutt till. til þál. um það, að gerðar sjeu ráðstafanir til, að hagstofan nái nútímanum. Jeg held, að við ættum að lofa henni að ná okkur fyrst, áður en við förum að leggja henni nýjar skyldur á herðar. Enda er hún alls ekki sú stofnun, sem eðlilegt er, að safni þessum skýrslum. Hún safnar sjálf minstu af þeim skýslum, sem hún gefur út eða vinnur úr. Hún fær þær sendar ýmsa vegu frá. Hún býr í mesta lagi til formin fyrir þeim skýrslum, sem safnað er, og það gæti hún líka gert hjer. Einnig mætti ganga, eftir því, að henni væru sendar skýrslurnar jafnóðum og þeim er safnað, eða innan einhvers tiltekins tíma.

Það er enginn efi, að langódýrasta leiðin við þessa skýrslusöfnun er sú, að fela verkalýðsfjelögunum hana. Þau geta lagt til menn, sem hafa fullkomnust kynni af högum verkamanna. Þannig yrðu skýrslurnar jafnframt áreiðanlegri. Það er því alveg gagnstætt veruleikanum, sem hv. 3. landsk. sagði, að skýrslurnar hlytu að verða óáreiðanlegar hjá verkalýðsfjelögunum. Ef við eigum að slá því föstu, að verkalýðsfjelögunum sje ekki treystandi til að gera skýrslurnar heiðarlega, þá verðum við jafnframt að láta sömu reglu gilda um alla aðra. Það er t. d. um verkfræðinga. Eftir áliti hv. 3. landsk. ætti þeim ekki að vera trúandi til að gera áætlun um nokkurt mannvirki, því að það gæti komið til að snerta þá sjálfa fjárhagslega, hvort í fyrirtækið væri ráðist eða ekki.

Úr því að farið er að koma með erlendan samanburð, er ekki úr vegi að minna á, að verkalýðsfjelögin hafa víða með höndum alt eftirlit með útborgunum á atvinnuleysisstyrk, og snertir það þó fjárhagsafkomu fjelagsmanna meira en skýrslusöfnunin ein. Enda er það svo, að verkalýðsfjelögunum getur ekki verið annað kærara en það, að ástandið sýni sig eins og það er í raun og veru. Þá væri þess helst að vænta, að eitthvað væri úr bætt.

Jeg held, að rjettast sje, að frv. verði að lögum óbreytt eins og það lítur nú út. 2. gr. þess má ómögulega falla niður. Hún veitir bæjarstjórnunum svo bráðnauðsynlegan stuðning við skýrslusöfnunina.