06.02.1928
Neðri deild: 15. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4216 í B-deild Alþingistíðinda. (3670)

62. mál, atkvæðagreiðslur utan kjörstaða við alþingiskosningar

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Jeg býst við, að óþarft sje að fylgja þessu frv. úr hlaði með langri tölu. Jeg þykist vita, að hv. deild muni vera á einu máli um það, að þörf sje á skýrari ákvæðum um kosningar utan kjörstaða heldur en nú eru í gildi. Síðustu alþingiskosningar eru glögg sönnun þess, að þau eru ekki svo trygg sem skyldi. Það er enginn vafi á því, að misfellur þær ýmsar, er áttu sjer stað á atkvæðagreiðslum utan kjörstaða við síðustu kosningar, eiga að talsvert miklu leyti rót sína að rekja til þess, að ákvæði núgildandi laga í þessu efni eru hvorki fullnægjandi nje nægilega skýr og ákveðin.

Jeg geri því fastlega ráð fyrir því, að þessi háttv. deild vilji af alefli reyna að bæta úr þessum göllum, og þetta frv. finni því nokkra náð fyrir augum háttv. þingdeildarmanna. Jeg hefi viljað leggja mitt til þessara mála með því að bera það fram.

Aðalbreytingarnar, sem þetta frv. gerir á núgildandi löggjöf um þetta efni, felast í 2. gr., sem segir fyrir um gerð kjörgagna, og 9. gr., er ræðir um skyldur kjörstjóra utan kjörstaða

Eins og nú hagar til er ákaflega auðvelt að falsa atkvæði, sem greidd eru utan kjörstaða. Innra umslagið, sem atkvæðaseðillinn liggur í, er af venjulegri gerð. Hver sem því hefir fyrirskipað ytra umslag við hendina, getur skift um innra umslag án þess á nokkru beri. Og það er hreinasta tilviljun, að slíkt þurfi að komast upp. Fyrirmælum um það, að kjósandi sjálfur riti utan á ytra umslagið yfirlýsing um það, að í því liggi atkvæðaseðill hans, mun sjaldnast fylgt.

Jeg bið hv. deildarmenn að athuga mynd af kjörseðli, sem sýnd er á bls. 2 í frv. Stærðarhlutföllin eru að vísu ekki rjett og mun heppilegra að breyta þeim, en þó má fá hugmynd um, hvernig gerð hans er hugsuð. Hann skal vera brotinn um miðju og jaðrarnir aðgreindir frá sjálfum seðlinum með raufalínum og límbornir, þannig að seðillinn lokist, þegar hann er lagður saman tvöfaldur. Opnast hann síðan þannig, að jaðrarnir eru rifnir frá.

Aðalatriði 2. gr. er það, að kjörgögn sjeu svo gerð sem hjer segir: kjörseðill, fylgibrjef og stofn skulu vera samföst á einu kjörblaði, en aðgreind með raufalínum. Stofn og fylgibrjef sama kjörblaðs skulu auðkend sömu tölu, og öll kjörblöð, sem notuð eru við hverjar kosningar um land alt, tölusett áframhaldandi tölum. Með þessu móti er ómögulegt að skilja að fylgiblað og kjörseðil, og fyrir það girt, að atkvæði geti brjálast á þann hátt.

Vottorðið, sem ætlast er til að kjörstjóri riti á fylgibrjefið, er samhljóða vottorðum, sem nú eru notuð við kosningar utan kjörstaða. Þó er því bætt við, að kjósandi hafi útfylt kjörseðilinn hjálparlaust. Heimild til þess, að kjósandi megi fá aðstoð, er að vísu ekki veitt í núgildandi lögum, en það er hinsvegar heldur ekki beinlínis bannað.

Þá er skýrt tekið fram í 2. gr., hverjir hafi rjett til að vera kjörstjórar utan kjörstaða; en það eru: sýslumenn, bæjarfógetar, fulltrúar þeirra, hreppstjórar, svo og skipstjórar á íslenskum skipum, eftir settum reglum.

Enn er nýmæli í 2, gr, frv., sem sje það, að kosningarathöfn utan kjörstaða megi aðeins fram fara í skrifstofu sýslumanns eða bæjarfógeta, eða á heimili hreppstjóra eða um borð í íslensku skipi. Það er kunnugt, að menn hafa greitt atkvæði annarsstaðar en á þessum stöðum, t. d. heima hjá sjer. En slíkt er ekki tilgangur laganna. Heimakosning er nú úr gildi numin.

Um 3. gr. frv. er lítið að segja annað en það, að hún er nálega óbreytt frá því, sem er í gildandi lögum. Þó er breytt um orðalag á 3. málsgr., þannig að þeir, sem neyta kosningarrjettar síns á þann hátt, er þessi lög heimila, skuli eiga rjett á að greiða atkvæði strax og framboðsfrestur er útrunninn. Áður stóð: ekki fyr en framboðsfrestur er útrunninn. En allvíða mun hafa verið svo ástatt, að kjörgögn voru ekki komin til viðkomandi embættismanns strax að framboðsfresti útrunnum. Úr þessu verður auðvitað að bæta.

Um 4. gr. er og lítið að segja. Hún er í samræmi við eldri ákvæði, nema að bætt er við, að kjósandi riti atkvæði sitt þvingunar- og aðstoðarlaust. Þá er og til tekið, að vitundarvottar skuli rita á fylgibrjefið. Veit jeg til þess, að sumir kjörstjórar hafa jafnan látið vitundarvotta skrifa undir fylgibrjef, þótt ekki sje það fyrirskipað í núgildandi lögum. Það er ekki nema rjett og gott og sjálfsagt að lögfesta þá reglu.

Í lok 4. gr. er því bætt við, að kjósandi geti, ef hann kýs heldur, skilið kjörbrjef eftir hjá kjörstjóra, og sje kjörstjóra þá skylt að annast sendingu þess og sjá um, að það komist í hendur rjetts viðtakanda.

Í 5. gr. er því bætt við 1. málsgr., að hreppstjórar og bæjarfógetar skuli hafa atkvæðakassa, innsiglaðan af kjörstjórn og frambjóðendum eða umboðsmönnum þeirra, til þess að geyma í atkvæðabrjef þau, er þeim berast. Er það ekki nema rjett og sjálfsagt, að svo sje um búið, að jafntrygt sje og um atkvæði á kjördegi.

Þá er og nýmæli í niðurlagsmálsgr. 5. gr. um það, að kjósandi hafi jafnan rjett til þess að krefjast af hverjum þeim, er varðveitir atkvæðabrjef hans, að hann afhendi sjer það, alt þangað til atkvæðið hefir verið tekið gilt af undirkjörstjórn.

Um 6. gr. er það að segja, að þar er eitt atriði, sem máli skiftir og kjörstjórnir líta mjög misjafnlega á. Það er tekið fram til viðbótar við eldri ákvæði, að hafi kjósandi greitt atkvæði utan kjörstaðar, en sje staddur innan kjörumdæmis síns á kjördegi, þá skal áður greitt atkvæði hans ekki tekið gilt. Þetta er gert til þess að tryggja, að menn geti ekki kosið utan kjörstaðar að ástæðulausu.

7. gr. má heita óbreytt nema að því leyti, að 2. liður fellur niður.

8. gr. frv. er öldungis óbreytt, samhljóða sömu gr. í þeim lögum, er nú gilda.

Aftur á móti er 9. gr. ný og setur ákvæði, sem ekki eru í lögunum. Eins og áður er sagt, þá felur þessi grein í sjer aðra aðalbreytinguna á því, sem nú er. Hún kveður á um skyldur kjörstjóra utan kjörstaða. Skulu hreppstjórar og skipstjórar gera sýslumanni eða bæjarfógeta greinileg skil um notuð og ónotuð kjörgögn. Sýslumenn og bæjarfógetar gera síðan stjórnarráðinu samskonar skil, og skal strangt gengið eftir, að ekkert sje undan dregið.

Jeg ætla, að hv. deildarmenn sjeu mjer allir sammála um þetta atriði, að nauðsynlegt sje að setja skýr og ströng ákvæði í þessu efni. Kjörstjórnum, sem annast kosningar á kjördegi, er gert að skyldu að gera grein fyrir hverjum kjörseðli, sem fenginn er í hendur þeim, en hinir, sem stýra einir kosningu utan kjörstaða, eru eftirlitslausir. Um skil af hendi þeirra eru mjer vitanlega engin ákvæði til. Enda telja fæstir þeirra sjer skylt að gera því opinbera grein fyrir, til hvers kjörgögnin hafi verið notuð. Birgðir af þeim liggja hjá þeim frá ári til árs án þess að þau sjeu endursend eða einu sinni talin. Meðan svo er ástatt er ómögulegt að vita nema eitthvað af kjörgögnum hafi lent hjá mönnum, sem ekki höfðu neitt leyfi til þess að hafa þau handa á milli. Verður því ekki nema með ströngum skilum fyrir það girt, að misnotkun geti átt sjer stað á þennan hátt.

Jeg efast ekki um, að efni þessa frv. sje hv. deildarmönnum nokkurnveginn ljóst, og hirði því ekki um að fara frekar út í það, en geri það að till. minni, að frv. verði að lokinni umræðu vísað til allshn.