20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4224 í B-deild Alþingistíðinda. (3673)

62. mál, atkvæðagreiðslur utan kjörstaða við alþingiskosningar

Frsm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Nefndin hefir athugað frv. þetta vandlega, en það er sem kunnugt er fram komið vegna þeirra misfellna, er verið hafa á kosningum utan kjörstaðar, og þó einkum þeim misfellum, er urðu við kosningu í Norður-Ísafjarðarsýslu við síðustu kosningar.

Með frv. er ætlast til að gera þá bót á því fyrirkomulagi, sem nú er, að ekki verði hægt að falsa atkv. utan kjörstaðar hjer eftir. Helstu breytingarnar eru þær, að öðruvísi er gengið frá kjörgögnum en verið hefir hingað til, þannig að stofn, kjörseðill og fylgibrjef eru samfest á einu kjörblaði, og verður stofninn eftir hjá hreppstjóra, en vottorð og kjörseðill eru höfð saman. Er gert ráð fyrir, að á þennan hátt sje hægt að koma í veg fyrir það, að notað verði sama fylgibrjef, þegar kjörseðill er fastur við fylgibrjefið. Þá er gert ráð fyrir því, að kjörgögnin sjeu tölusett og sje sama númer á öllum gögnunum ásamt umslagi. Þá á að hafa strangt eftirlit með öllum kjörgögnum; fyrst er stjórnarráðið sendir þau til sýslumanna, og síðan er þau eru send frá sýslumönnum til kjörstjórna. Skal halda yfir þau sjerstakar bækur og skrár, þannig að ekkert vanti. Að öðrum kosti geri aðili fyllilega grein fyrir, hvað af þeim hefir orðið. Þá er svo ákveðið, að ekki sje hægt að veita aðstoð við kosningu utan kjörstaðar. Hefir leikið nokkur vafi á því undanfarið, hvort slíkt sje leyfilegt, en mun þó hafa verið skilið svo, að hægt sje að veita aðstoð eins og á kjörstað.

Loks er tekið fram, að atkvæðin skuli vera sett í venjulegan atkvæðakassa, og er það miklu tryggara. En áður voru engin ákvæði um það, heldur voru þau aðeins í vörslum hreppstjóra eða bæjarfógeta. Eftir frv. á kjósandi að geta fengið atkvæði sitt aftur, ef það er ekki komið í atkvæðakassa, og er með því nokkur trygging fyrir því, að breytingar eða svik eigi sjer ekki stað.

Eðlileg afleiðing af þessu fyrirkomulagi er það, að ætlast er til þess, að sje kjósandi staddur innan kjördæmisins á kjördegi, skuli ekki tekið gilt það atkvæði, sem hann hefir greitt áður, heldur skuli hann vera skyldur til að fara til kjörstaðar, ef hann vill fá gilt atkvæði. Þetta er vegna þess, að ef það ákvæði, sem nú er í lögum, er látið gilda, þá er hægt að láta menn kjósa löngu fyrir kjördag, þótt ekkert gangi að þeim, ef þeir láta í ljós, að þeir ætli burt úr kjördæminu fyrir kjördag, og gæti þetta orðið til þess, að meiri áhrif væru höfð á kosninguna heldur en annars. Hefir töluvert brytt á þessu sumstaðar á landinu.

Þær brtt., sem nefndin hefir komið með við þetta frv., eru nokkuð margar, en fæstar þeirra eru nokkrar efnisbreytingar. Þó vil jeg taka það fram, að nokkrar breytingar eru á efni frv., svo sem sú, að í staðinn fyrir að ætlast er til eftir frv., að kjörseðlar skuli vera úr hvítum pappír, þá ætlast nefndin til, að notaður sje mismunandi pappír að lit við hverjar kosningar. En það telur hún tryggara. Þá vill nefndin láta taka fram, hvernig eigi að brjóta saman fylgibrjefið, eftir að búið er að brjóta saman kjörseðilinn.

Loks álítur nefndin rjettast, að kosið sje með bleki, en ekki með blýanti, því að hún telur, að hægt sje að þurka út það, sem skrifað er með blýanti, en naumast það, sem skrifað er með bleki, án þess að það sjáist.

Þá er breyting við ákvæði 4. gr. um það, hver eigi að útfylla vottorðið. Kjörstjóri getur útfylt það, en kjósanda er líka heimilt að gera það sjálf um. Aftan við 4. málsgr. vill svo nefndin bæta þessum orðum: „Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma brjefinu á póst“. Jeg vil geta þess hjer, að það hefir orðið dálítil villa við afskrift nál., hjer átti að standa: Síðari málsliður 4. málsgr. orðist svo. Brtt. kom frá hv. 2. þm. Árn. til að leiðrjetta þetta, en jeg hygg, að hv. þm. (MT) muni fallast á, að nefndin komi með skriflega brtt., er komi þessu í samt lag. Nefndin hefir litið svo á, að það væri ekki hægt að heimta annað af kjörstjóra en að hann sendi brjefið rjetta boðleið á póst, en ef kjósandi óskar að koma því aðra leið, þá verður hann að sjá um það sjálfur, án þess að kjörstjóra sje skylt að annast sendinguna.

Í 5. gr. frv. er talað um, að atkvæðakassar skuli vera innsiglaðir af kjörstjórn, en nefndin hefir, vegna þess að hún álítur erfitt að kalla saman alla kjörstjórnina, talið nægilegt að ákveða, að kjörstjóri skuli innsigla kassann, en frambjóðendur, eða umboðsmenn þeirra, hafa heimild til að setja innsigli sín fyrir kassann. Ef kjörstjóri væri rengdur á nokkurn hátt, myndi frambjóðandi auðvitað setja innsigli sitt fyrir kassann.

Loks er brtt. við 8. gr. viðvíkjandi því, hvenær megi neita sjómanni um landgönguleyfi til að greiða atkvæði. Nefndin vildi kveða þar fastara að orði, og setti því orðið „óhjákvæmileg“ í staðinn fyrir „nauðsynleg“. Og eins að því er snertir ákvæði um brot gegn þessu atriði laga, ef skipstjóri varnar sjómanni landgönguleyfis. Nefndin vildi ákveða þar hærri sektir, svo að þær yrðu tilfinnanlegar fyrir skipstjóra, ef hann varnaði sjómanni að kjósa.

Þá er ein formsbreytjng, sem nefndin hefir gert við frv. Hún er sú, að láta kjörblaðsfyrirmyndina fylgja aftan við frv., en ekki hafa hana í miðju frv., eins og áður er ætlast til, og sje undirskrifuð ásamt frv. Á fylgiskjalinu hefir nefndin aðallega gert tvær breytingar, þá, að kjósandi skuli líka lýsa yfir því, að hann hafi engan annan kjörseðil frá sjer sent, og er það til þess að koma í veg fyrir, að kjósandinn kjósi á fleirum stöðum en einum, sem auðvitað er ólöglegt; en nú varðar refsingu, ef kjósandi hefir gefið um það falsvottorð. Einnig hefir nefndin ákveðið stærð kjörseðils. Hitt eru smávegis breytingar, sem jeg vil ekki ræða hjer sjerstaklega. Allshn. mælir með því, að frv. verði samþykt með þessum breytingum.