02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4233 í B-deild Alþingistíðinda. (3680)

62. mál, atkvæðagreiðslur utan kjörstaða við alþingiskosningar

Þorleifur Jónsson:

Þegar jeg fór að athuga frv. það, sem hjer liggur fyrir eftir 2. umr., fanst mjer ýms ákvæði vanta í það, sem gerðu frv. sem ljósast og tryggilegast. Slík lög sem þessi verða að vera ótvíræð og svo nákvæm sem kostur er. Þeim er ætlað að vera nokkurskonar handbók fyrir þá, sem eftir þeim eiga að fara, en það eru aðallega leikmenn í öllum hreppum landsins. Er því best fyrir alla, að reynt sje að ganga svo frá lögum þessum í upphafi, að sem fæst vafaatriði sjeu í þeim. Þess vegna hefi jeg borið fram fáeinar brtt. á þskj. 318, sem jeg vænti, að hv. þdm. geti fallist á, að sjeu til bóta. Og ætla jeg þá að gera frekari grein fyrir þeim.

1. brtt. er í tveimur stafliðum. A-liðurinn er aðeins orðabreyting, sem óþarft er að ræða um, en b-liðurinn leggur til, að feitletruð orð, sem standa í annari málsgr. 2. gr., falli burt, og virðist það ekki nema sjálfsagt.

Þá kemur 2. brtt., og er hún við 4. gr. og um leið aðalbrtt. mín. Mjer þótti skorta á, að nógu skýr ákvæði væru um það í gr., að kjósandi gæti fengið nýjan kjörseðil, ef seðill ónýtist hjá honum. Mjer þótti því rjett að hafa þetta ákvæði hliðstætt því, sem nú er í lögum um almennar kosningar á kjörstað, og að það kæmi skýrt fram, að kjósandi, sem kýs utan kjörstaðar, gæti fengið nýjan atkvæðaseðil, ef seðill hefir orðið ónýtur hjá honum af einhverjum ástæðum. Menn geta auðveldlega skrifað í fáti annað nafn á seðilinn, og verður hann þá ógildur við talningu. Virðist því auðsætt, að rjettara sje að koma í veg fyrir það í tíma, að atkvæðaseðlar þessara kjósenda verði ógildir. Þá er og í þessari brtt. ákvæði um, hvernig fara skuli með þessa ónýtu seðla. Jeg vil, að þeir sjeu látnir í umslag sjer og utan á það sje ritað: „ónýtir seðlar“, sem sendist svo undirkjörstjórnum ásamt hinum gildu atkvæðum.

Þetta finst mjer rjett meðferð á þessum ónýtu seðlum og rjettara en ætlast er til með 9. gr. frv., þar sem talað er um, að kjósandi megi ónýta seðil sinn. Jeg álít, að kjósendur, sem atkvæði greiða utan kjörstaða, eigi ekki fremur að hafa leyfi til þess að ónýta kjörseðil sinn heldur en þeir, sem á kjörstað kjósa. Það er líka alveg í samræmi við það, að allir slíkir seðlar, sem kjósendum eru afhentir, eiga að komast til yfirkjörstjórnar eins og aðrir, svo hægt sje að bera saman við þá seðlatölu, sem sýslumaður sendi.

Þá er það 3. brtt. mín, við 6. gr., sem jeg vil næst fara nokkrum orðum um. Hv. þm. Ísaf. (HG) hefir einnig borið fram brtt.þskj. 283) við sömu gr., og get jeg fallist á hana, það sem hún nær. En þar sem jeg vildi fara lengra en hann, þá hefi jeg tekið hans brtt. upp í mína.

Í 5. gr. frv. er ákvæði um það, að brjefin með atkvæðaseðlunum skuli varðveitt í venjulegum atkvæðakassa, innsigluðum af kjörstjóra, og sje hann síðan geymdur t. d. hjá viðkomandi hreppstjóra til kjördags. Þetta álít jeg sjálfsagt og gott, en jeg býst við, að þessi kassi, sem hjer er gert ráð fyrir, sje sá sami, sem hreppstjórar hafa í geymslu og notaður er til þess að stinga í atkvæðum á kjördegi. En um þennan kassa eru ekki nánari ákvæði í frv.

Mín brtt. er því sú, að þegar á kjörfund kemur, skuli kjörstjórn aðgæta, hvort innsigli atkvæðakassans sjeu heil og ósködduð; síðan opni hún hann og taki úr honum umslögin og varðveiti þau á meðan atkvæðagreiðsla fer fram. En að atkvæðagreiðslunni lokinni rífur kjörstjórnin upp öll umslögin, rannsakar, hvort fylgibrjef og annað er í lagi, svo þau geti talist gild, og ef svo er, leggur hún atkvæðin í hinn venjulega atkvæðakassa með öðrum greiddum atkvæðum. En ef seðill er ónýtur, athugar kjörstjórn fylgibrjefið og leggur það ásamt kjörseðlinum í sjerstök umslög, sem á stendur: „ógildir seðlar“, og sendir þau síðan til yfirkjörstjórnar. Þessa brtt. álít jeg góða og rjett að láta þessa leiðsögu fylgja lögunum, svo að kjörstjórnir viti með vissu, hvernig þær eiga að fara að.

Jeg hefi svo ekki miklu meira að segja um þessa brtt., en vona, að hv. þdm. sje það ljóst, að hún er til bóta og tryggir það frekar, að kosningaathöfn fari vel og tryggilega fram.

Þá verður og að fella burt orðin „um leið og .... byrjar“ síðast í 3. málsgr. sömu gr., því að með þeim er gert ráð fyrir, að kjörstjórn athugi seðlana, aðgreini þá og láti í kassana áður en atkvgr. byrjar. En meiningin með brtt. 318,3.a er, að það sje gert að atkvæðagreiðslu lokinni. 4. brtt. er og afleiðing af 2. og 3. brtt. Það ákvæði, að kjósandi megi ónýta kjörseðil, fellur burt, en eftir minni brtt. á að senda alla ónýta seðla ásamt tilheyrandi fylgibrjefum til undirkjörstjórnar, svo sem alla gilda seðla, og síðan til sýslumanns, en ekki beint til sýslumanns, svo sem stendur nú í 9. gr.

Jeg er sannfærður um, að þessar brtt. eru til bóta, og vænti þess, að hv. nefnd og hv. deild geti fallist á þær.