02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4238 í B-deild Alþingistíðinda. (3682)

62. mál, atkvæðagreiðslur utan kjörstaða við alþingiskosningar

Jón Auðunn Jónsson:

* Jeg er sammála hv. þm. Ísaf. um það, að það er ekki nógu örugglega búið um innsiglun atkvæðakassa, ef kjörstjóri einn á að framkvæma hana, jafnvel þótt frambjóðendum eða umboðsmönnum þeirra sje heimilað að vera þar viðstaddir og setja á hann innsigli sitt líka.

Það er oft svo, að þótt frambjóðandi hafi umboðsmenn í einhverri kjördeild, þá geta þeir ekki mætt til þess að líta eftir innsigluninni, en ef það er ekki gert, er öryggið lítið, og það gæti farið svo, ef umboðsmönnum þætti það illa gert, að ekki væri hægt að láta kosninguna fara fram á tilsettum tíma; en það væri alveg ótækt. Hinsvegar finst mjer, að það ætti að nægja að hafa tvo menn viðstadda, því að það er oft svo, að sumir úr kjörstjórninni stunda atvinnu eða dvelja utan hjeraðs, þegar kosning fer fram, og væri því mikill kostnaðarauki að því fyrir þá, ef kjörstjórn ætti öll að vera viðstödd. Jeg hygg því, að það ætti að vera óhætt, að aðeins einn maður úr kjörstjórninni sje viðstaddur með kjörstjóra, er hann innsiglar kjörkassana.

Þá er það annað atriði, sem jeg að vísu hefi bent á áður hjer í hv. deild í öðru sambandi, en vil árjetta nú. Það er það, að landsstjórnin sjái um það, að altaf sjeu nægilega mörg eintök af kosningalögum send öllum kjördeildum með kjörplöggum.

Almenningur fylgist yfirleitt ekki með í lagasmíð þingsins, og fæstir hafa tækifæri til þess að sjá lögin. En þessi lög er nauðsynlegt, að allir kjósendur geti kynt sjer, ef vel á að vera, Því að það er öllum til leiðinda, og getur oft valdið illindum, ef misfellur verða á kosningum, og því sjálfsagt að gera alt, sem mögulegt er, til þess að afstýra því. En jeg álít, að þetta sje eitthvert öruggasta ráðið til þess. Jeg vænti þess fastlega, að hæstv. núv. stj. taki þetta til athugunar. Því að mjer er kunnugt um það, að fjöldi manns víðsvegar af landinu hefir kvartað um það, að þeir hafi ekki aðgang að þessum lögum. Og jeg veit til þess, að í 4 kjördæmum landsins hafa alls ekki verið til sjerprentanir af lögunum.

Viðvíkjandi brtt. hv. þm. Ísaf. og hv. þm. A.-Sk., þá virðist mjer þær allar til bóta, einkum till. hv. þm. A.-Sk., til þess að fyrirbyggja misskilning þeirra manna, sem lögin eiga að framkvæma.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.