03.04.1928
Efri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4241 í B-deild Alþingistíðinda. (3690)

62. mál, atkvæðagreiðslur utan kjörstaða við alþingiskosningar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

* Allshn. hefir athugað þetta frv. allítarlega og komst að þeirri niðurstöðu að leggja til, að það verði samþ. með nokkrum breytingum.

Breytingar þær, er nefndin leggur til að gerðar verði á frv., eru að nokkru efnisbreytingar, en þó flestar þannig vaxnar, að þær ættu ekki að hafa áhrif á það, sem næst með þessari lagasetningu, eða svo lítur meiri hl. nefndarinnar á málið.

1. brtt. er við 1. gr., um að í upphaf greinarinnar verði sett inn orðin: „Sjómenn og aðrir“ í stað „Þeir kjósendur“. Þetta er sett inn samkv. því, sem nú er í gildandi lögum, og nefndin leit svo á, að þar sem þetta ákvæði mun einkum sett inn vegna sjómanna, væri ekki rjett að. fella þetta niður.

Þá er 2. brtt., við 2. gr., að orðin „fyrir hverjar kosningar“ falli niður. Þessi breyting skiftir töluverðu máli, vegna þess að eins og frv. er nú, mælir það svo fyrir, að sjerstök kjörgögn skuli gefin út fyrir hverjar kosningar, líka aukakosningar. Þetta hlýtur að hafa mikinn kostnað í för með sjer, en þó er það ekki aðalatriðið, heldur hitt, að fresturinn fyrir kosningar er oft svo stuttur, að tæplega mun hægt að koma út nýjum kjörgögnum í hvert skifti. Með þessu má því spara nokkuð kostnað við útgáfu kjörgagna.

Þá er 3. brtt., sem aðeins er formsatriði, að undir vottorði kjörstjóra standi embættisstaða vottorðsgefanda og heimili.

4. brtt. er í þrem stafliðum og er við 4. gr. Fyrsti liðurinn er fremur smávægilegs efnis. Þar er lagt til, að í stað orðanna í 1. málslið „brjóta hann síðan vandlega aftur“ komi: loka honum síðan, þannig að það verði innan á, er hann skrifaði á seðilinn, og líma hann vandlega aftur. — Það, sem vakti fyrir nefndinni, var það, að hún álítur, þegar talað er um að brjóta seðilinn saman, gæti kjósandi farið að brjóta seðilinn þannig, að með því yrði hann ógildur.

Þá er b-liður, að fyrir orðin í 3. málsgr. 1. málslið „loka því vandlega og“ komi: „og loka því vandlega. Síðan skal“. Með þessari brtt. er ætlast til að ná því, að það sje ekki bein lagaleg skylda, að kjósandinn skrifi utan á umslag það, sem kjörseðill liggur í.

Í c-lið er lagt til, að fyrir „ónýst“ komi: ónýtst. Þetta er, eins og sjá má, aðeins stafsetningarbreyting, og áleit nefndin þessa stafsetningu rjettari, enda þótt margir skrifi þetta orð á þann hátt, sem í frv. stendur.

Þá kemur 5. brtt. í 2 stafliðum og er við 6. gr. Það er efnisbreyting allmikil, og um þessa breytingu er öll nefndin ekki fyllilega sammála. Í frv. stendur, að þegar að kjördegi kemur, skuli kjörstjórn opna atkvæðakassann, gæta að því, hvort innsigli sje óbrotið o. s. frv., taka úr honum umslögin og varðveita þau meðan á atkvgr. stendur. Með öðrum orðum, upptalning atkvæða á ekki að fara fram fyr en atkvgr. er lokið. Með brtt. er lagt til, að upptalning þessi og athugun fari fram þegar í stað, áður en kosning byrjar, en sje ekki dregin þar til að kjörfundi loknum. Þetta atriði getur orkað nokkuð tvímælis. Því hefir verið haldið fram, að upptalning hafi sumstaðar dregist svo klukkutímum skiftir, svo að kjörstjórn taki við atkvæðunum og kjósendunum til mikils óhagræðis.

Jeg skal ekki neita því, að þetta geti átt sjer stað, en meiri hl. lítur svo á, að rjettara sje að aðgæta atkv. strax, þegar í upphafi kjörfundar. Um þetta má auðvitað deila, og skal jeg ekki bera á móti því, að sumstaðar geti þetta verið til tafar, en víðast mun það vera svo, að þetta getur ekki valdið tilfinnanlegum baga fyrir kjósendur.

Þá er það b-liðurinn. Í honum felst dálítil breyting frá því, sem í frv. er. Í frv. stendur, að atkvæði kjósanda sje ógilt, ef hann er staddur innan kjördæmis síns. En við höfum ekki viljað fara svona strangt í sakirnar og sett inn, að hann skuli staddur á kjörstað. Jeg held, að það sje ekki rjett, þar sem kjördæmi eru stór, að ónýta seðilinn, þótt hlutaðeigandi kjósandi sje staddur innan umdæmisins. Það geta verið þau tilfelli, sem fyrirmuni mönnum að sækja kjörstað. Auðvitað má deila um það, hvað meint sje með kjörstað. Jeg hygg þó, að til sveita verði ekki ágreiningur um þetta, því að þar er kjörstaðurinn það hús, sem kosningin fer fram í. Í kaupstöðunum getur aftur á móti orðið ágreiningur um það, hvort átt sje við húsið, sem kosið er í, eða kaupstaðinn allan. En hvort sem væri, virðist mjer sem ekki sje gengið mikið á hluta kjósenda, þó að svo yrði skoðað, að þeir væru staddir á kjörstað, ef þeir eru innan kaupstaðarins. Hjer á landi eru kaupstaðirnir ekki svo stórir, að það sje neinum vandkvæðum bundið að mæta á kjörstað. Það hagar öðruvísi til úti um sveitir landsins.

Þá er það 6. og síðasta brtt. nefndarinnar, við 9. gr. frv. Í henni felst mikil breyting á meðferð kjörgagna. Eftir frv. eiga öll kjörgögn ekki að liggja annarsstaðar milli kosninga en hjá ríkisstjórninni, og eiga að skilast strax til dómsmálaráðuneytisins og kosningar eru afstaðnar. En af brtt. við 2. gr., sem felur það í sjer, að sömu kjörgögn skuli notuð oftar en einu sinni, leiðir óhjákvæmilega, að þau liggi hjá sýslumönnum og bæjarfógetum á milli þinga. Og þessi brtt. fer fram á það, að svo verði þessu hagað, en hinsvegar eiga undirkjörstjórnir og hreppstjórar að senda þessum embættismönnum skýrslur og gera fulla grein fyrir kjörgögnunum að afloknum kosningum. Í lok hvers kjörtímabils eiga svo sýslumenn og bæjarfógetar að gera þessa skil við stj. Í niðurlagi gr. er ennfremur það nýmæli, að allar skýrslur um notkun kjörgagna sjeu endanlega sendar Alþingi. Það virðist rjettmætt, að þangað komi skilagrein þeirra, sem hafa kjörgögnin undir höndum, þar eð Alþingi leggur fullnaðarúrskurð á það, hvort kosning skuli gild tekin eða ekki.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Frv. er borið fram til þess að tryggja meðferð þeirra kjörgagna, sem notuð eru utan kjörstaðar. Hingað til hefir sú meðferð verið ófullkomin og stundum farið heldur ógætilega úr hendi. Hefir þetta oft valdið miklum deilum, og þykir því rjett að fyrirbyggja, að það komi fyrir. Mesti kostur frv. er sá, að því er slegið föstu, að fast form skuli vera á þessum kjörgögnum. Jeg held, að allir hljóti að játa, að þessi lög eru til bóta og ekki borin fram að ástæðulausu. Það getur auðvitað orðið ágreiningur um einstök atriði, og sjerstaklega það, hvort upptalning þessara atkvæða á að fara fram í byrjun eða lok kjörfundar. Að vísu má segja, að það skifti ekki miklu máli, hvort gert sje, en jeg lít svo á, að eðlilegra sje að telja atkvæðin í byrjun kjörfundar en að geyma þau, þar til honum er lokið, enda þótt sá galli fylgi því, að ekki er hægt fyr en nokkru síðar að byrja að taka á móti atkvæðum. Það er ekki hægt að kveða svo á í þessu frv., að kjörfundur skuli byrja fyrr en á hádegi. Jeg veit það, að kjörstjórnir úti um land koma saman áður en lögin mæla fyrir, að kjörfundur skuli byrja, enda er það nauðsynlegt vegna ýmiskonar undirbúnings, sem þarf að gera fyrir kosningarathöfnina. Þetta er ef til vill ekki undirbúningur, en ef umboðsmenn frambjóðendanna vita um það, sem jeg verð að gera ráð fyrir, er það ekkert lagabrot, þótt talningin fari fram áður en lögin mæla fyrir, að kosningarathöfnin skuli byrja. Aðalmótbáran gegn þessari brtt. nefndarinnar er sú, að þetta valdi svo miklum töfum, að það sje ógerningur. Nú er verkið það sama, hvort sem upptalningin fer fram á undan eða eftir, en aðalagnúinn er sá, að kjósendurnir þurfa að bíða of lengi. Jeg skal játa, að mig brestur þekkingu á þessu í kaupstöðum, en þar, sem jeg þekki til úti um land, er aðsókn fremur dauf framan af kjörfundi, en eykst svo, er á hann líður. Á flestum stöðum, þar sem fjölmenni er mikið, mun kjörfundur standa yfir uns vinnu er lokið, svo að jeg held, að þessi breyting þurfi ekki að valda miklum örðugleikum. Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta að sinni. Jeg býst við, að fram komi andmæli, og mun jeg svara þeim, ef mjer þykir ástæða til.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.