14.02.1928
Efri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4262 í B-deild Alþingistíðinda. (3726)

82. mál, áfengislög

Flm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er samið af nefnd templara með aðstoð lögfræðings, sem jeg hygg, að hæstv. stj. hafi lagt til. Um efni frv. er það að segja, að í því eru að miklu leyti sameinuð þau fyrirmæli, sem nú eru í lögum um þetta efni, og svo viðaukar við þau. Eru þeir viðaukar sniðnir eftir ákvæðum í bannlögum Finnlands.

Jeg finn ástæðu til að taka það fram, að lög þessi eru ekki bannlög í orðsins venjulegu merkingu; þau eru ekki bannlög frekar en svo mörg önnur lög, sem Alþingi setur svo oft og tíðum um ýms efni. Lögin eru um meðferð áfengis á einn og annan hátt, og sömuleiðis takmarkanir um það, hvaða áfengi megi flytja til landsins.

Það er svo, að þótt hjer hafi verið svonefnd bannlög um nokkurra ára skeið, þá hafa það ekki verið bannlög í orðsins rjettu merkingu, og þess vegna hafa þeir, sem sömdu þetta frv., nefnt það frv. til áfengislaga, sem telja má eðlilegra. Við þessa umr. er ekki ástæða til að fara að ræða sjerstakar greinar, en jeg vil geta þess, að að svo miklu leyti sem jeg hefi átt kost á að kynnast þessu frv. — og til þess hefi jeg haft góð skilyrði sakir góðvilja þeirrar nefndar, sem samið hefir frv. —, þá lít jeg svo á, að nú sjeu komnar í eina heild þær ráðstafanir, sem lengst munu ganga til að sporna við ofdrykkju í landinu. Þess vegna lít jeg ennfremur svo á, að ekki megi missa nein veruleg ákvæði úr frv. án þess að hugmyndin skemmist til mikilla muna.

Jeg geri ráð fyrir, að það sje nú komið svo, að löggjafarvaldið verði nauðsynlega að setja fastákveðnar reglur um meðferð áfengis, en þar af leiðir aftur, að jeg álykta svo, að landsmenn muni fylgja þessu frv. í aðalatriðunum, og mun ágreiningur ekki verða nema um fremur fá atriði.

Jeg vænti þess því, að hv. deild taki þessu frv. vel, og geri jeg ráð fyrir, að því muni, að þessari umr. lokinni, verða vísað til nefndar, sem jeg þá tel rjettast, að væri allshn., því að jeg tel frv. eiga þar helst heima.

Að svo stöddu sje jeg ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv., því að út í einstök atriði þess er ekki rjett að fara frekar að þessu sinni. Mun jeg því ekki gera það, nema því aðeins, að eitthvert sjerstakt tilefni gefist.