23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4263 í B-deild Alþingistíðinda. (3728)

82. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Það er orðið býsna áliðið tímans í kvöld, en jeg vona, að það þurfi ekki að hafa langar umræður.

Eins og sjá má af nál., hefir nefndin ekki getað orðið allskostar sammála um þetta frv. Það má nú segja um þetta, að það eru ekki veruleg stefnuatriði, það sem á milli ber, því öll nefndin var sammála um að láta frv. ná fram að ganga; aðeins eru það nokkrar brtt., sem ágreiningur er um.

Jeg þarf nú ekki að rekja undirbúning þessa máls, því það er gert svo ítarlega í nál. meiri hl., og get jeg því vísað til þess. Þó skal jeg til að drýgja tímann víkja að nokkrum brtt. meiri og minni hl. Jeg skal þá strax geta þess, að þær brtt., er mestu valda, eru á þskj. 535, og eru þær flestar við 2. kafla laganna. Þar hafa verið teknar burt þær greinar, er fjalla um einkasölu á áfengi, og er það gert með tilliti til þess, að annað frv. um það efni er hjer á ferðinni. Var fult samkomulag um þetta, því óþarfi þótti, að tvenn lög fjölluðu um sama efni. Af þessu leiddi, að taka varð út úr áfengislagafrv. þessar umræddu greinar, og breyttist greinatalan þá vitanlega við það og sömuleiðis tilvitnanir í fjölda greina. Þetta eru orsakir þess, hvað brtt. á þskj. 535 eru margar. Flestar þessar brtt. eru heldur smávægilegar og enga till. hefir meiri hl. borið fram, er breytir í nokkru verulegu þeirri stefnu, sem í frv. felst. Brtt. við 3. gr. er aðeins til skýringar. Brtt. 2.–7. stafa allar af þeim úrfellingum, sem gerðar voru á 2. kafla. Á einum stað er að vísu um orðabreyting að ræða, en það er aðeins til að færa til betra máls. Þá kemur 11. brtt., sem fer fram á, að bætt verði við 13. gr. orðunum „í hagnaðarskyni eða sakborningur hafi áður verið dæmdur fyrir brot gegn áfengislöggjöfinni.“ Þessu er bætt við til þess að gera ástæðurnar ríkari fyrir því, að heimilt sje að gera húsrannsókn án dómsúrskurðar. Um þetta hygg jeg, að nefndin hafi öll verið sammála, þó minni hl. hafi fleira við þetta að athuga. — 20. brtt. er aðeins orðabreyting. — Um 32. brtt. er það að segja, að greinin er færð í annað horf, en að öðru leyti er efnið eiginlega það sama. — Þá kem jeg að 38. brtt. Þar er einu orði, „heimilisnotkun“, bætt í a-liðinn. B-liðurinn er tilvitnanabreyting, er leiðir af því, sem áður hefir verið getið um. C-liðurinn kveður skýrar á um það, hvernig heimilt er að veita eða selja vín með mat og hvernig á að haga þeirri sölu.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þessar brtt., nema tilefni gefist síðar. Þær eru svo skýrar, að strax sjest, hvað átt er við með þeim. Síðustu brtt. eru loks þess efnis, að þær kveða skýrt á um það, hvenær lög þessi ganga í gildi. Þessi lög hafa svo miklar breytingar í sjer fólgnar á sektarákvæðum, að nauðsynlegt er, að þeir, sem dæma eiga eftir þeim, viti nákvæmlega, hvenær þau ganga í gildi, svo að þeir sjeu ekki í vafa um það, eftir hvorum ákvæðunum á að dæma.

Jeg þarf svo ekki að fara fleiri orðum um brtt. meiri hl., en úr því jeg er staðinn upp, þykir mjer hlýða að fara nokkrum orðum um brtt. minni hl., þó jeg vilji ekki með því gefa tilefni til þess að umr. lengist. Mál þetta hefir verið skýrt svo vel í nefndinni, að jeg þarf ekki að skýra afstöðu okkar til þessara brtt. minni hl. Jeg er þeim yfirleitt mótfallinn. og meiri hl. er allur mótfallinn nokkrum þeirra. Að því er snertir 1.–6. brtt. skal jeg taka það fram, að þær skifta ekki miklu máli. Samt mun jeg ekki greiða atkv. með þeim. því sumar þeirra eru heldur til hins lakara og aðrar einskis virði. Tvær þeirra eru orðabreytingar sem ekki er þörf á og engu breyta. — Um 7. brtt. er það að segja, að jeg hefi ekki getað fallist á, að rjett væri að taka hana til greina. Jeg sje ekki betur en að það eftirlitsstarf, sem þessum löggæslumönnum er ætlað að inna af hendi, verði alt of þunglamalegt, ef þessir menn verða settir undir sýslumennina, og ver af hendi leyst. Þessir menn verða að starfa á eigin ábyrgð, til þess að fullum notum komi, og þá held jeg, að starf þeirra verði að minni notum, ef þeir starfa eftir fyrirmælum sýslumanna. — Um 8. brtt. er svipað að segja og hinar, að jeg legg ekki mikið kapp á það, hvernig fer með hana, en þó verð jeg heldur að telja hana til hins lakara. Jeg tel rjett, að skipstjóri beri ábyrgð á áfengi, sem finst í skipi, ef ekki upplýsist, hver er eigandi þess. Því skipstjórinn getur verið hinn seki, og það yrði líka aðhald fyrir hann að líta vel eftir því, að óleyfilegt áfengi sje ekki flutt um borð, ef hann ber ábyrgð á því. — Þá kem jeg að síðustu till. og þeirri, sem skiftir mestu máli. því hún er gerð að skilyrði fyrir því, að minni hl. fylgi frv. Eins og hv. dm. sjá, fer hún fram á það að heimila skipum, er sigla með ströndum fram, að hafa óinnsigluð ljettari vín meðferðis sem skipsforða. Þessu er jeg eindregið á móti, því jeg tel, að með þessu sje alt eftirlit með meðferð áfengis í skipum gert svo erfitt, að það verði lítt mögulegt að framkvæma ýms ákvæði þessa frv. Minni hl. heldur því aftur á móti fram, að ef þetta ákvæði sje ekki sett í 55. gr., þá sje svo nærri gengið Spánarsamningnum, að nærri liggi, að það megi kallast brot á honum. Jeg skal nú ekki gera þessa ástæðu minni hl. að neinu kappsmáli; jeg játa, að jeg tel talsverða rjettarbót að þessu frv., ef að lögum verður, þó þessu ákvæði sje bætt inn í frv. En því er þó ekki að neita, að hjer er komið inn í lögin þeirri heimild, er gerir það að verkum, að eftirlit með áfengissölu skipa verður miklum mun torveldara, því jafnan verður hægt að hafa sterkari vín en lögin ætlast til undir þessu yfirskini. Jeg sje því ekki annað en að ef þessi undanþága verður leyfð, þá verði lítil bót að þessu frv. hvað þetta atriði snertir, þó að lögum verði. Skip hafa nú leyfi til þess að hafa það óinnsiglað vín handa skipverjum, sem telst þurfa til næstu hafnar. En þetta hefir nú viljað verða svo í framkvæmdinni, að skipin hafa ætíð haft vín, ekki aðeins handa skipverjum, heldur munu þau og líka hafa selt vín í land. Vitanlega verður hver þm. að gera það upp við sjálfan sig, hvort honum finst svo nærri gengið Spánarsamningnum, ef þessu ákvæði verður ekki bætt í frv., að brot megi teljast. Og jeg verð að játa það, að ekki er nema eðlilegt, að þeir, sem líta svo á, að Spánarsamningurinn sje brotinn, ef þessu er ekki bætt í frv., ljái þessu ákvæði fylgi sitt. En jeg er á gagnstæðri skoðun í þessu efni og mun ekki fylgja þessari brtt.

Jeg mun hafa gleymt að minnast á 2. brtt. minni hl., sem jeg er mjög mótfallinn og tel, að geri það að verkum, að lögin verði minna virði, ef hún verður samþ. Þessi brtt. er við 3. gr. frv. og fer í þá átt, að um skemtiferðaskip gildi sömu reglur og um herskip. Jeg fæ ekki sjeð, að það sje nauðsyn að gera þeim svo hátt undir höfði. Því þó litið sje svo á, að herskip heyri ekki undir lög þessa lands, þó þau komi hjer snöggvast, þá fæ jeg ekki sjeð, að nokkur ástæða sje til þess, að um skemtiferðaskip gildi sömu reglur.

Jeg skal svo ekki tefja hv. dm. á því að tala lengur um þetta. Geri ráð fyrir því, að úr því sem málið er komið verði það atkvgr. ein, sem sker úr um þessar brtt. En hvernig sem fer um brtt. hv. minni hl., þá vona jeg, að hv. deild samþ. brtt. meiri hl.