27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4282 í B-deild Alþingistíðinda. (3739)

82. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Þó að jeg væri af fjárhagsástæðum á móti frv. um skipun embættanna í Reykjavík, þykist jeg þó mega gera ráð fyrir, að það nái fram að ganga. Hefir það nú verið samþ. í þessari hv. deild, en hitt vitanlegt, að stjórnarflokkarnir báðir styðja það. Virðist fullkomlega mega taka tillit til þess. Og þar sem það mál, sem nú er til umræðu, er skemmra komið í þinginu en hitt, sýnist ekkert á móti því að taka tillit til skipulagsbreytingarinnar, þangað til útsjeð kynni að verða um, að hún yrði feld, sem jeg geri raunar ekki ráð fyrir.

Annars stóð jeg aðallega upp til þess að láta í ljós ánægju mína yfir ummælum hv. 2. þm. S.-M., þeim, að lögreglustjóri mundi ekki nota heimildina nema í brýnni nauðsyn og ekki telja eftir sjer að kveða upp dómsúrskurð um húsrannsóknir. Jeg álít nefnilega, að halda beri svo fast sem unt er í ákvæði stjórnarskrárinnar um það, að heimilisrannsókn skuli ekki fram fara, nema að undangengnum dómi. Eftir að þessi ummæli hv. 2. þm. S.-M. eru fram komin, get jeg raunar látið mjer í ljettu rúmi liggja, hvort brtt. mín verður samþ. eða ekki. En hana hefi jeg borið fram til þess að sýna, að jeg vil ganga sem allra skemst í því að raska heimilisfriði manna.